-Auglýsing-

Franska þversögnin og af hverju eru Frakkar grannir?

ParísSú staðreynd að Frakkar séu grennri en aðrar þjóðir, tíðni hjarta og æðasjúkdóma lægri en víðast annarsstaðar er merkileg. Morgunútvarp Rásar 2 var með áhugaverða og skemmtilega úttekt á þessari merkilegu staðreynd og hvað Frakkar eru að gera í dag til að sporna við lífssstílssjúkdómum.

Frakkar borða mikið af smjöri, fitu og sætindum. Þeir eru miklir sælkerar og flest allar umræður ganga út á mat. Þeir reykja líka og drekka mikið. En samt eru Frakkar ein grennsta þjóð í heimi, og tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er mun lægri í Frakklandi en öðrum Evrópulöndum.

-Auglýsing-

Þetta hefur stundum verið kallað franska þversögnin, sem fáir – en kannski margir vilja – skilja. En er eitthvað til í þessu? Freyr Eyjólfsson í París reyndi að komast til botns í málinu og flutti pistil sinn í Morgunútvarpinu:

Feitum Frökkum fjölgar. Reykingar hafa dregist saman um 20 prósent innan OECD ríkjanna síðastliðinn áratug, en á sama tíma hefur fólk fitnað töluvert. Einna verst er ástandið í Bandaríkjunum þar sem 36 prósent fólks stríða við offitu. Hlutfallið er líka hátt á Íslandi, eða um 21 prósent, á meðan það er um 10-17 prósent annars staðar á Norðurlöndunum. Grennstu þjóðir OECD ríkjanna eru Kórea og Japan en þar eru einungis 4 prósent fólks of feit.

Frakkar eru sannarlega meðal grennstu þjóða á þessum lista og ennþá ein grennsta þjóð Evrópu, ásamt Ítölum og Svisslendingum. Samt glíma um 10 prósent Frakka við offitu og um helmingur fólks er yfir kjörþyngd. Og talan fer hækkandi því Frakkar þyngjast hratt þessa dagana, eins og raunar aðrar þjóðir, en talið er að of feitum í Frakklandi eigi eftir að fjölga um 10 prósent næsta áratuginn með tilheyrandi vandamálum fyrir heilbrigðiskerfið. Á síðustu tveimur áratugum hefur feitum Frökkum fjölgað um helming.

Fá of feit börn

- Auglýsing-

Offita er nú talin einn helsti heilbrigðisvandi Vesturlanda en fjöldi þeirra sem þjáist af offitu hefur þrefaldast á síðustu 20 árum. Offita er ein helsta ástæða sykursýki og hjartasjúkdóma og hefur mikil áhrif á lífsskilyrði og minnkar lífslíkur. Ef rýnt er í gögnin um Frakkland kemur í ljós að offita er stéttskipt, þrátt fyrir að ójöfnuður hafi lítið breyst síðastliðin ár í Frakklandi. Konur með litla menntun og lægri tekjur eru þrisvar sinnum líklegri til þess að vera í yfirvigt en menntaðar konur. Sama gildir um karla, þótt hlutfallið sé ögn lægra. Góðu fréttirnar eru þær að offita barna eykst ekki í Frakkalandi og hefur meira að segja minnkað ögn. Offeit börn eru vel innan við 10 prósent á meðan talan er komin yfir 20 prósent annars staðar í Evrópu. Það eru frekar foreldrarnir sem fitna en börnin, en ef þeir eru í yfirvigt eru börnin þrisvar sinnum líklegri til þess að lenda í sama fari. Stétt og staða skiptir sömuleiðis máli því börn í fátækari fjölskyldum eru tvisvar sinnum líklegri til þess að þyngjast meir en önnur börn.

Aðgerðir stjórnvalda

Þótt það sé ýmislegt í lífsstíl Frakka sem útskýrir það að þeir eru grennri en aðrar Evrópuþjóðir, þeir labba mikið, nota lítið bíla, kaupa, elda og borða dýrari og almennt hollari mat, borða reglulega og fjölbreytt og taka sér langan tíma við matarborðið, þá gerir hið opinbera líka margt til þess að stemma stigu við offitu. Hér er sykurskattur og fituskattur á matvörum sem gerir það að verkum að yfirleitt er ódýrara að kaupa grænmeti og ávexti en nammi og snakk. Stöðugt er verið að hvetja fólk til þess að borða minnst fimm tegundir af grænmeti eða ávöxtum á hverjum degi og sömuleiðis að hreyfa sig hraustlega, að minnsta kosti einu sinni í viku. Gos- og nammisjálfsalar eru bannaðir í skólum. Það er settur auka auglýsingaskattur á matvörur sem ekki teljast heilsusamlegar og svona mætti lengi telja. Frönsk yfirvöld gera sér fulla grein fyrir því að offitu fylgir nefnilega mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið.

Margir vilja meina að ein helsta ástæðan fyrir því að Frakkar eru svona grannir sé að þeir borði venjulegan mat á venjulegum matmálstímum, laumist ekki í ísskápinn og borði ekki milli mála. Drekki minna gos og ruslfæði. Þrátt fyrir það græðir og selur McDonalds hamborgarakeðjan hvergi meira en einmitt í Frakklandi og salan fer vaxandi með hverju árinu, en talið er að um 2 prósent landsmanna snæði þar hvern einasta dag. Síðast liðin ár hafa stjórnmálamenn vaknað til vitundar og átak hefur verið gert til þess að minnka offitu, með sköttum, forvörnum, niðurgreiddum íþróttum og fleira; sumstaðar með góðum árangri því í sumum bæjarfélögum hefur offita snarminnkað, jafnvel um 25 prósent.

Alltaf að tala um mat

Og þetta er daglegt brauð í spjallþáttum og glanstímaritum: að borða góðan, gómsætan mat – en halda sér samt í réttu formi. Matur er vinsælasta umræðuefni Frakka. Þeir tala um mat allan liðlangan daginn og tala lengi og mikið við matarborðið; tala meira segja svo mikið að sumir segja að þeir hreinlega gleymi að borða – sem er kannski bara leyndardómurinn mikli á bakvið frönsku þversögnina?

Hér er hægt að hlusta á pistilinn í heild sinni 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-