-Auglýsing-

„Erfitt líf en hamingjuríkt“

Líf rússneska rithöfundarins Aleksanders Solzhenítsyns, sem í skáldsögum sínum afhjúpaði hinar umfangsmiklu vinnubúðir sovéskra stjórnvalda, var „erfitt en hamingjuríkt,“ sagði eftirlifandi kona hans í dag. Solzhenítsyn lést í gær af hjartaáfalli, 89 ára. 

Afdráttarlausar frásagnir Solzhenítsyns af þjáningum og baráttunni við að halda lífi í vinnubúðunum, gúlaginu svonefnda, heilluðu landa hans. Þessar frásagnir urðu til þess að yfirvöld ráku hann úr landi, en um leið varð hann heimsþekktur og hylltur á Vesturlöndum. Hann bjó í útlegð í 20 ár, lengst af í Vermont í Bandaríkjunum, ásamt fjölskyldu sinni. Eftirlifandi kona hans, Natalja, tjáði fréttamönnum í dag að Solzhenítsyn hefði hlotið þann dauðdaga sem hann hafði óskað sér. „Hann vildi deyja að sumri til – og hann dó um sumar. Hann vildi deyja heima hjá sér, og hann dó á heimili sínu. Ég held að almennt megi segja að líf Aleksanders Isævítsj hafi verið erfitt en hamingjuríkt.“ Það var Mikhaíl Gorbatsjov sem veitti Solzhenítsyn ríkisborgararétt að nýju 1990, og þá flutti hann aftur með fjölskyldunni til Rússlands. Gorbatsjov sagði í dag, að Solzhenítsyn hafi verið einn af þeim fyrstu sem sagði frá hinum ómannúðlegu stjórnunaraðferðum stalínistastjórnarinnar. 

Fyrsta skáldsaga Solzhenítsyns um gúlagið var Dagur í lífi Ívans Denisovítsj, sem segir af trésmið sem reynir að lifa af í sovéskum vinnubúðum. Bókin var gefin út að tilskipun Nikíta Krústsjevs, sem var nýtekinn við sem leiðtogi Sovétrikjanna og vildi fyrir alla muni sýna fram á hve forveri sinn, Jósef Stalín, hefði verið mikið illmenni. Í trílógíunni Gúlag eyjaklasanum, sem kom út á áttunda áratugnum, útlistaði Solzhenítsyn ítarlega hversu skelfilegt líf sovéskra borgara var undir ógnarstjórn Stalíns. Solzhenítsyn hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1970, en sovésk stjórnvöld meinuðu honum um að fara til Stokkhólms til að veita verðlaununum viðtöku. Hann var rekinn úr landi 1974, en í kjölfarið var þáverandi Sovétleiðtogi, Leoníd Brésnev, fordæmdur á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir að Solzhenítsyn byðust gull og grænir skógar á Vesturlöndum hvikaði hann hvergi frá sannfæringu sinni, og gagnrýndi vestræna menningu og kapítalisma harðlega. Þegar hann snéri aftur til Rússlands byrjaði hann á því að fara í 56 daga lestarferð um landið, og lét í ljósi vonbrigði með að fæstir Rússar virtust hafa lesið bækurnar hans. Eindregin þjóðernishyggja hans, rétttrúnaður, fyrirlitning á kapítalisma og gagnrýni á rússnesku auðjöfrana sem keyptu upp rússneskan iðnað og auðlindir á spottprís í kjölfar hruns Sovétríkjanna, gerðu hann óvinsælan og hann datt úr tísku og hvarf af opinberum vettvangi.

www.mbl.is 04.08.2008

 

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-