-Auglýsing-

Er öryggi sjúklinga í hættu?

Matthías Halldórsson fæddist í Reykjavík 1948. Hann lauk læknaprófi frá HÍ, sérfræðinámi í heimilisl. frá Háskólanum í Lundi, stundaði framhaldsnám í lýðheilsufr. við Norræna Heilsuverndarháskólann, lauk meistarapr. í skipulagningu og fjármálum heilbrigðisþj. frá LSE og framhaldsprófi í heilbrigðisþjónusturanns. við Erasmus-háskólann í Rotterdam. Matthías starfaði sem heilsugæslulæknir í 10 ár. Hann var skipaður aðastoðarlandlæknir 1990 og er nú starfandi landlæknir í fjarveru Sigurðar Guðmundssonar. Matthías er kvæntur Theódóru Gísladóttur lífeindafr. og eiga þau eina dóttur.

Á morgun, fimmtudag, stendur Landlæknisembættið fyrir málþingi um öryggi sjúklinga. Matthías Halldórsson er sitjandi landlæknir: “Umfangsmiklar rannsóknir sem unnar hafa verið úti í heimi á síðustu árum og áratugum benda til þess að verulegur öryggisvandi kunni að vera til staðar á sjúkrahúsum. Árið1984 vann heilbrigðisrannsóknardeild Harvard-háskóla rannsókn á sjúkrahúsum New York þar sem kom í ljós að dauðsföll á sjúkrahúsum af völdum mannlegra mistaka við sjúkdómsmeðferð voru mun tíðari en menn höfðu áður talið, og áætluðu aðstandendur rannsóknarinnar að allt að 44.000 dauðsföll yrðu hvert ár á sjúkrahúsum í Bandaríkjunum vegna slíkra mistaka,” segir Matthías. “Samskonar rannsókn sem var unnin í Colorado og Utah árið 1992 áætlaði að talan gæti verið enn hærri, eða allt að 98.000 dauðsföll árlega. Ef þessar niðurstöður ættu við á Íslandi myndi það jafngilda 44 til 98 dauðsföllum árlega, sem við eigum erfitt með að trúa að óreyndu.”

Matthías segir mörgum hafa þótt þessar niðurstöður ótrúlega sláandi: “Síðan þá hafa verið framkvæmdar samskonar rannsóknir í öðrum löndum, m.a. á Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Kanada og nú síðast í Danmörku, þar sem niðurstöður sýna jafnvel fram á enn hærri tölur, og er mikill áhugi fyrir að gera svipaða rannsókn hér á landi fáist fjármunir til þess.”

Meðal óvæntra atvika sem leitt geta til dauða nefnir Matthías ranga lyfjagjöf og sýkingar sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir: “Orsökin er hins vegar sjaldan vanþekking eða vanhæfni starfsmanna, heldur mistök í kerfinu,” segir Matthías. “Nútímaheilbrigðisþjónusta er mjög flókin og stólar á samspil margra aðila. Ef veikur hlekkur er í keðjunni getur það haft alvarlegar afleiðingar. Má oft kenna um að ekki er til skýrt vinnuferli eða að verkferlum er ekki vandlega fylgt, mönnun er of lítil, starfsfólk ekki nægilega þjálfað eða skorti á upplýsingagjöf.”

Aðstandendur ráðstefnunnar hafa fengið hingað til lands Sir Liam Donaldsson, landlækni Bretlands, sem er aðalfyrirlesari málþingsins: “Hann er jafnframt formaður starfshóps Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um öryggi sjúklinga. Liam mun fjalla almennt um öryggi sjúklinga og gera sérstaklega grein fyrir verkefninu Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur.”

Aðrir fyrirlesarar eru Leifur Bárðarson, yfirlæknir á deild gæðamála við LSH, og Laura Sch. Thorsteinsson, lektor við HÍ og verkefnisstjóri hjá Landlæknisembætti, en þau munu fjalla um öryggi sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi, og Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingavarnad. LSH, sem flytur erindið “Sýkingavarnir á sjúkrahúsum”.

- Auglýsing-

Í lok málþingsins mun Siv Friðleifsdóttir undirrita samkomulag um þátttöku Íslands í verkefninu Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur.

Fundarstjóri er Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri og fer málþingið fram á ensku.

Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis, en senda þarf skráningu á hrefna@landlaeknir.is.

Frétt af mbl.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-