-Auglýsing-

Engin stefnubreyting varðandi nýtt háskólasjúkrahús

Engin stefnubreytingin er hjá stjórnvöldum varðandi uppbyggingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut en umsjón með verkefninu hefur verið flutt til Landspítala og er nú unnið að því, í samráði við Háskóla Íslands, að leita leiða sem geta auðveldað framgöngu verkefnisins.

Þetta kom fram í svari Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra á Alþingi í gær við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra heilbrigðismála, um hvað liði áformum um nýtt háskólasjúkrahús og hvort stefnubreyting hefði orðið hjá stjórnvöldum hvað uppbyggingu þess varðar.

Umsjón með undirbúningi nú á forræði Landspítala
Guðlaugur Þór sagði að allir landsmenn vissu að þörf væri á úrbótum í húsnæðismálum Landspítalans og bágt efnahagsástand mætti ekki verða til þess að slá fyrirhuguðum framkvæmdum á frest. Þvert á móti væri kjörið að ráðast í svo mannaflsfrekar framkvæmdir nú. Hann minnti á að hagræðing og sparnaður af sameiningu spítalans á einum stað ætti að skila 3-5 milljörðum króna á ári en jafnframt væri mikilvægt að tryggja sem hagkvæmasta framkvæmd verkefnisins. Því hefði hann sem heilbrigðisráðherra fallist á beiðni forstjóra Landspítalans í janúar síðastliðnum um að færa til spítalans umsjón með undirbúningsvinnu vegna byggingarinnar. Með því móti gæti Landspítali nýtt í meiri mæli eigin krafta við undirbúningsvinnuna jafnframt því sem spítalanum var gert að yfirfara stöðuna varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir og kostnað, gera samanburð á svokallaðri 0-analýsu sem unnin var árið 2008 og fyrirliggjandi áformum, og leggja fram a.m.k. tvo valkosti til viðbótar við fyrirliggjandi áform þar sem sýnt væri fram á minni kostnað og framkvæmdaáætlun sem gæti tryggt byggingu nýs háskólasjúkrahúss.

Norskir sérfræðingar skila tillögum um mánaðamót
Heilbrigðisráðherra staðfesti að undirbúningur verkefnisins hefði verið fluttur til Landspítala, að frumkvæði forsvarsmanna þar, og hefði hann átt fund í gær með forstjóra Landspítala og fleirum til að fara yfir málið. Upplýsti ráðherra að unnið væri að greiningu og framsetningu valkosta um uppbyggingu og áfangaskiptingu verkefnisins með norskum sérfræðingum í starfsemi sjúkrahúsa. Tillögur þeirra eru væntanlegar fyrir mánaðamót en markmiðið með þeirri vinnu er að leita leiða til að draga úr fjárfestingu og halda áfangaskiptingu nýja spítalans þannig að ávinningur skili sér sem fyrst.

Megum ekki láta tímabundna erfiðleika villa okkur sýn
Hvað varðaði fyrirspurn Guðlaugs Þórs um hvort stefnubreyting hefði orðið í málinu sagði heilbrigðisráðherra að svo væri ekki. „Uppbygging nýs Landspítala er verkefni sem tekur langan tíma og við megum ekki láta tímabundna erfileika í fjármálum þjóðarinnar villa okkur sýn,“ sagði heilbrigðisráðherra og bætti við að draga mætti saman í fjórum áherslupunktum nauðsyn uppbyggingar nýs Landspítala:

 

- Auglýsing-
  • Við blasi að Íslendingar dragist aftur úr öðrum þjóðum og fjarlægist ár frá ári skýr markmið laga um heilbrigðisþjónustu um að „allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“ eins og segir í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40 frá 2007. Það sé mat sérfræðinga að núverandi húsakostur standist engar kröfur um nútíma sjúkrahúsrekstur, nauðsynleg endurnýjun tækja sé erfiðleikum háð eða jafnvel ekki gerleg í núverandi húsakynnum spítalans og sífellt erfiðara verði að fá sérmenntað fagfólk heim frá námi og eða starfi í útlöndum ef ekki verði boðið upp á nútímalegt umhverfi og starfsaðstæður á háskólasjúkrahúsi Íslendinga. 
  • Landspítali þjóni landsmönnum öllum og hafi við þá skyldur sem sífellt verði erfiðara að standa við á tímum sem auknar kröfur séu gerðar til heilbrigðisþjónustu og þjóðin eldist hlutfallslega. Nútímalegt háskólasjúkrahús sé einskonar „móðurskip heilbrigðisþjónustunnar“ og nauðsynlegt sem slíkt en önnur sjúkrahús hafi hlutverki að gegna í héraði og skilgreindum hlutverkum að gegna í heilbrigðiskerfinu í heild. Landspítali sé eina háskólasjúkrahús landsins og hafi skyldur sem slíkt samkvæmt heilbrigðislögum en geti illa eða ekki staðið undir þeim án verulegra úrbóta í húsnæðismálum, að mati forsvarsmanna Landspítala.
  • Tryggja þurfi öryggi sjúklinga eins vel og kostur er og þar skipti umgjörðin miklu máli. Vísað sé til þess að smitvarnir í núverandi húsnæði séu ófullnægjandi og nefnt sem dæmi að margir sjúklingar samnýti snyrtiaðstöðu á legudeilum. Jafnframt sé bent á að sjúklingar verði að óbreyttu sendir í auknum mæli til útlanda til greiningar og meðferðar, með tilheyrandi óþægindum, áhættu og kostnaði fyrir samfélagið ef ekki er ráðin bót á í húsnæðismálum. Í þessu sambandi er tekið sem dæmi svokallað PET-scan tæki sem orðið sé sjálfsagður hluti af tæknibúnaði sjúkrahúss á borð við Landspítala, notað við að greina umfang krabbameinsæxla og finna meinvörp fyrr en mögulegt er með öðrum aðferðum, og er bent á að hvergi sé hægt að finna slíku tæki stað í núverandi húsakynnum Landspítalans.
  • Þá fyrst sé unnt að ná fram til fulls hagræðingu og sparnaði í rekstri sem sóst var eftir á sínum tíma með sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur, 3-5 milljörðum króna á ári. Þetta sé eitt þeirra atriða sem bent hafi verið á af hálfu forsvarsmanna Landspítalans, að það sé þegar upp er staðið „dýr kostur að gera ekki neitt!“

Fagna áframhaldandi framkvæmdum
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri grænna, fagnaði svörum ráðherra um að áfram væri unnið að undirbúningi og framkvæmdum. Hún sagði að fjármunir eyrnamerktir framkvæmdinni sem fengust með sölu Símans hefðu horfið „inn í hítina“ en það skipti máli að halda áfram með verkefnið, m.a. til að halda uppi atvinnu. Í sama streng tók Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Það væri eftir miklu að slægjast með byggingu nýs háskólasjúkrahúss sem leiða myndi til 15% hagræðingar í spítalarekstrinum. Því væri mikilvægt að halda verkefninu áfram eins og menn gætu þrátt fyrir erfitt árferði og Framsóknarmenn leggðu mikla áherslu á að þetta mál yrði klárað. Guðlaugur Þór lýsti einnig yfir mikilli ánægju með svör ráðherra og sagði rétt að það væri dýrt að gera ekki neitt. Þá þurfi að gera eitthvað annað, menn viti ekki hvað það kosti og þá næst ekki fram umrædd hagræðing. Hann sagði jafnframt rétt að halda því til haga að aðkoma nýs forstjóra Landspítalans að málinu og reynsla hennar frá Noregi hafi skipt máli og einnig vildi hann vekja athygli á því að það væri framsýni fyrrverandi byggingarnefndar að þakka – undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur – að útboð verkefnisins yrði á íslensku og myndi þar af leiðandi skapa Íslendingum, arkitektum og fleirum, störf og því væri þetta verkefni sem hentaði vel við núverandi aðstæður, þrátt fyrir tímabundna efnahagserfiðleika.

Heilbrigðisráðherra átti lokaorðin í umræðunni og ítrekaði að engin stefnubreyting hefði orðið í málinu. Taldi hann að það hefði verið heillaskref hjá Landspítala að fá undirbúningsvinnuna til sín og endurmeta málið með aðstoð sérfræðinga en með því væri ekki verið að kasta rýrð á þá vinnu sem þegar hefði farið fram. Kostnaður við verkefnið hljóðaði upp á um 70 milljarða króna en þar á móti kæmu einhverjar tekjur af sölu eigna. Sú vinna sem nú færi fram miðaði að því að lækka kostnað og gera framkvæmdina gerlega miðað við þær erfiðu aðstæður sem við nú byggjum við. Jafnframt þyrfti að endurnýja tæki og húsgögn og sá kostnaður væri metinn á um 12 milljarða króna og þar beri að hafa í huga að sú endurnýjun þurfi að fara fram, óháð því hvort ráðist verði í nýja byggingu.

www.haskolasjukrahus.is 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-