-Auglýsing-

Endurlífgunarteymi eflt

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is. FRÁ árinu 2004 hefur verið jafnt og þétt unnið að því að endurskipuleggja endurlífgunarmál á Landspítalanum. Meginþræðirnir í því verkefni hafa m.a. verið að bæta tækjakost og einfalda og samræma búnað milli deilda, þjálfa og sérhæfa starfsfólk og efla endurlífgunarteymi sem eru bæði í Fossvogi og við Hringbraut. Á sama tíma hefur verið gert átak í að koma á virkri skráningu á þeim tilvikum sem endurlífgunar gerist þörf. Davíð O. Arnar yfirlæknir og Bylgja Kærnested hjúkrunarfræðingur hafa verið í forsvari endurlífgunarmála.

„Á stórri stofnun eins og Landspítalanum getur ýmislegt komið upp á, þar á meðal að inniliggjandi sjúklingar fari í hjartastopp eða verði skyndilega bráðveikir og slíkt getur gerst hvar sem er á spítalanum,“ segir Davíð. „Deildir spítalans eru ekki allar jafn vel í stakk búnar til að fást við svoleiðis tilfelli og hefur endurskipulagningin ekki síst miðað að því að bæta hæfni til að takast á við slíkt.“

Endurlífgunarteymi kölluð út
Þegar hjartastopp koma upp hjá sjúklingum á spítalanum eru því sérstök endurlífgunarteymi kölluð til, þó að starfsfólk á viðkomandi deild hefji þegar endurlífgun samkvæmt viðbragðsáætlun þar til teymið kemur á vettvang. Til að svo megi verða hefur þurft að endurskoða tækjabúnað á deildunum og koma upp stöðluðum búnaði til fyrstu hjálpar.

Endurlífgunarteymi Landspítalans eru samansett af sérhæfðu starfsfólki, jafnt læknum sem hjúkrunarfræðingum, af ólíkum deildum spítalans sem eru stöðugt í viðbragðsstöðu. Hefur það yfir að ráða sérhæfðum tækjabúnaði sem nauðsynlegur er til verksins. „Við höfum farið í gegnum öll skref þessarar starfsemi,“ segir Davíð. „Endurskipulagning þessa málafloks hefur gengið nokkuð vel. Þetta var talsvert stórt verkefni og við höfum nú fengið ákveðnar vísbendingar um árangurinn.“

311 útköll
Á árunum 2006 og 2007 voru endurlífgunarteymin kölluð út 311 sinnum og í 85 tilvikum var um hjartastopp að ræða. Er þá eingöngu miðað við þá sjúklinga sem fá hjartastopp eftir að þeir koma inn á spítalann, en ekki þá sem fóru í hjartastopp úti í bæ en síðar komið með inn á sjúkrahúsið. Þá eru heldur ekki taldir með þeir sem fá hjartastopp á gjörgæsludeildum og skurðstofum þar sem starfsmenn þar sinna endurlífgun sjálfir, yfirleitt án aðkomu endurlífunarteymanna. Frumskoðun á niðurstöðunum sýnir að í 58% tilfella var endurlífgun árangursrík, þ.e. sjúklingar voru lífgaðir við og í 44% tilfella náðu þeir það góðum bata að hægt var að útskrifa þá af sjúkrahúsinu.

Talsvert hefur verið lagt í að reyna að efla skráningu á umfangi og árangri endurlífgunartilrauna á sjúkrahúsinu, m.a. í þeim tilgangi að bera saman árangur hér á landi og á sjúkrahúsum í nágrannalöndunum. Segja Davíð og Bylgja að frumniðurstöður sýni að árangur LSH standist samaburð við sjúkrahús í nágrannalöndunum. Nauðsynlegt er þó að fara varlega í að draga of miklar ályktanir strax því um stutt tímabil sé að ræða.

„Þetta staðfestir þó að við erum á réttri leið með þá aðferðafræði sem við beitum hér,“ segir Davíð. „Við erum mjög sátt við þessar upphafsniðurstöður en greina þarf fyrirliggjandi gögn betur, m.a. að skoða betur samsetningu þess sjúklingahóps sem þarfnast endurlífgunar.“

- Auglýsing-

Sérhæfð námskeið
Stór þáttur í skipulagsvinnunni er að auka færni starfsfólks við endurlífgun og hefur kennsla í þeim efnum verið efld verulega á síðustu árum. Námskeið í sérhæfðri endurlífgun eru samkvæmt ströngum stöðlum frá Evrópska endurlífgunarráðinu. Þessir staðlar hafa m.a. kveðið á um endurmenntun allra kennara Landspítalans í endurlífgun. Fjöldi starfsmanna Landspítalans hefur sótt námskeið í sérhæfðri endurlífgun og enn fleiri hafa farið á námskeið í grunnendurlífgun og viðbrögðum við bráðum uppákomum „Þessu fræðsluverkefni er aldrei lokið,“ segir Bylgja.

Eins og gefur að skilja skiptir viðbragðstími endurlífgunarteymisins miklu og samkvæmt æfingum sem haldnar hafa verið er hann alls staðar á sjúkrahúsinu innan við þrjár mínútur. Á slíkum æfingum, þar sem líkt er eftir hjartastoppi með sérhæfðum hermi, er einnig lögð áhersla á að skipuleggja verkaskiptingu og þátttöku annarra starfsmanna en endurlífgunarteymisins.

„Það þarf stöðugt að vera að mennta og þjálfa fólk og hafa eftirlit með tækjabúnaði,“ segir Davíð um framtíðina. „Það er mjög mikilvægt að halda gæðaeftirlitinu áfram og efla skráninguna enn frekar.“

Morgunblaðið 09.03.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-