-Auglýsing-

„Breytti geysilega miklu“

Hjartaskurðlækningar hafa verið stundaðar á Íslandi í 25 ár. Nákvæmlega 25 ár því 14. júní 1986 var fyrsta aðgerðin framkvæmd. Þar var um að ræða kransæðaskurðaðgerð á 62 ára gömlum manni. Hún tókst svo vel að Valgeir G. Vilhjálmsson – við hátíðleg tilefni nefndur Valgeir fyrsti – er sprelllifandi, 87 ára að aldri.

Sá sem stýrði aðgerðinni var Þórarinn Arnórsson, sérfræðingur á Landspítala. Hann fluttist árið áður aftur heim til Íslands frá Svíþjóð þar sem hann gerði fjölmargar hjartaskurðaðgerðir á Akademiska sjúkrahúsinu í Uppsala. Þórarinn var því reyndasti hjartaskurðlæknir á Íslandi og af þeim sökum fenginn til verksins. En þótt aðgerðirnar hafi verið margar áður er dagurinn Þórarni enn mjög eftirminnilegur.

-Auglýsing-

Þórarinn segir að ekki hafi þurft langan tíma til að telja Valgeir á að gangast undir hnífinn hér á landi. „Nei, það þurfti eiginlega alls ekki. Jafnvel má segja að hann hafi mjög gjarna viljað láta framkvæma aðgerðina hérlendis. Hann hafði einnig á orði að hann hefði litlar áhyggjur þar sem við myndum ábyggilega vanda okkur með fyrsta manninn.“

Aðgerðin gekk afar vel og Valgeir var fljótur að ná sér. Síðan þá hafa um tvö hundruð opnar hjartaaðgerðir verið gerðar árlega að meðaltali hér á landi; og eru í dag orðnar um fimm þúsund talsins. Þórarinn segir Ísland liggja frekar hátt í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að fjölda aðgerða miðað við höfðatölu, og mest hafi um 270 opnar hjartaaðgerðir verið gerðar á ári.

Vart þarf að fjölyrða um hvaða þýðingu það hafði að hefja aðgerðir af þessum toga hér á landi en áður fóru menn til útlanda til að leita sér lækninga. „Þetta var verulegt mál fyrir sjúklinga, að ferðast langa vegu og koma svo hingað heim viku, kannski tíu dögum eftir aðgerð með flugi. Í stað þess eru þeir hér með fjölskylduna sér við hlið og allan stuðning, auk þess auðvitað að tala málið. Þannig að þetta breytti geysilega miklu.“

Gríðarlegar framfarir hafa orðið í læknisfræðinni frá því fyrsta aðgerðin fór fram og skurðtæknilega séð ráða skurðlæknar við mun flóknari aðgerðir en áður. Og ekki er vanþörf á, því breytingar urðu einnig á sjúklingahópnum. „Breytingarnar á Íslandi eru þær sömu og um allan hinn vestræna heim; fólk sem fer í aðgerðir er að eldast og hefur meðalaldurinn hækkað um tíu ár,“ segir Þórarinn og bætir við að með eldri sjúklingum aukist vandamálin. „Þannig að þetta eru að jafnaði verulega þyngri aðgerðir sem verið er að gera í dag.“

- Auglýsing-

Morgunblaðið 14.06.2011

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-