-Auglýsing-

Breyting á lyfjum gagnrýnd

Velferðarráðuneytið tilkynnti breytingar um mánaðamótin á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga á nokkrum algengum blóðþrýstings- og magalyfjum, sem snerta tugþúsundir sjúklinga. Var þetta gert með vísun til reglugerðar frá árinu 2009 um greiðsluþátttöku eftir að ákveðin lyf frá samheitalyfjafyrirtækinu Lyfís lækkuðu frá 1. mars. Var lækkunin það mikil, allt að 66%, að tiltekin blóðþrýstings- og magalyf féllu út fyrir þann ramma sem greiðsluþátttaka ríkisins miðast við. Telji læknar að sjúklingar þeirra þurfi áfram á þessum lyfjum að halda þurfa þeir að sækja um lyfjaskírteini hjá Sjúkratryggingum Íslands. Ríflega 11 þúsund slík skírteini voru gefin út í fyrra. 

Breytingarnar tóku gildi 1. mars sl. en ráðuneytið boðaði þær í fréttatilkynningu daginn áður. Læknar og talsmenn sjúklinga, sem rætt var við, gagnrýna þessa breytingu og hvernig að henni var staðið. Hún hafi verið gerð án nokkurs fyrirvara eða samráðs við lækna og dregið er í efa að hún muni á endanum skila þeim ávinningi fyrir ríkið og sjúklinga, sem að er stefnt. Ekki sé sjálfgefið að ódýrari lyf hafi sömu virkni. Er t.d. bent á niðurstöður rannsóknar sem gerð var hér á landi á áhrifum reglugerðarinnar frá 2009 á greiðsluþátttöku í blóðfitulyfjum.

Kom í ljós að við notkun á ódýrasta samheitalyfinu hækkaði kólesteról þeirra hjartasjúklinga sem tóku þátt í rannsókninni töluvert.

Lækkun um allt að 66%
Lyfís hóf starfsemi hér á landi árið 2010 en núna 1. mars lækkaði það blóðþrýstingslyfið Enalpril um 28-40%, allt eftir stærð pakkninga. Samkvæmt reglugerð frá árinu 2009 miðast greiðsluþátttaka ríkisins í blóðþrýstingslyfjum við að munur á lægsta og hæsta verði lyfjanna má ekki vera meiri en 150%. Við lækkunina á Enalpril hættir ríkið að niðurgreiða eftirtalin blóðþrýstingslyf: Presmin, Valpress, Lopress, Ramil og Katopril.

Lyfís lækkaði magasárslyfin Esomeprazole og Omeprazol um 6-66% um síðustu mánaðamót. Við þetta féllu lyfin Pariet, Rabeprazol og Lanser út úr greiðsluþátttöku ríkisins en samkvæmt fyrrnefndri reglugerð má verðmunur á lægsta og hæsta magasárslyfinu ekki vera meiri en 20%.

Markmiðið með reglugerðarbreytingunni 2009 var að beina lyfjaávísunum lækna fyrir sjúklinga sína að hagkvæmustu lyfjunum, þegar verkun þeirra væri sambærileg við dýrari lyf. Ráðuneytið segir að með þessu hafi sparast verulegir fjármunir. Þannig hafi heildarkostnaður Sjúkratrygginga vegna blóðþrýstingslyfja lækkað á einu ári um 60%, úr 685 milljónum króna í 277 milljónir. Notkun ódýrari lyfja hafi ekki aðeins aukist heldur hafi lyfjafyrirtækin lækkað verð á mörgum blóðþrýstingslyfjum.

- Auglýsing-

Framkvæmdin óeðlileg
Karl Andersen, prófessor og hjartalæknir á Landspítalanum, segist hafa lesið fyrst um þessar breytingar í blöðunum. „Ég tel þetta óeðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að þegar breytingar voru gerðar með blóðfitulækkandi lyf var mjög illa að þeim staðið. Undirbúningur var alltof lítill og kynningin einnig og þeir viðurkenndu það hjá Sjúkratryggingum,“ segir Karl, en tekur fram að ekki megi gleyma jákvæðum áhrifum breytinganna á lyfjaverð almennt, sem hafi lækkað nokkuð.

Karl leiðbeindi lyfjafræðinemendum í fyrrnefndri rannsókn á áhrifum breytinga á greiðsluþátttöku í kostnaði af blóðfitulyfjum. Hann segir rannsóknina hafa sýnt ótvíræðar vísbendingar um neikvæð áhrif af því að skipta yfir í annað og ódýrara lyf. Kólesteról sjúklinga hafi hækkað og það leitt til aukins kostnaðar vegna endurkomu sjúklinga, endurtekinna mælinga á blóðfitu og útgáfu lyfjaskírteina. Gríðarlegt annríki hafi verið hjá læknum við að aðstoða sjúklinga með önnur lyf og gefa upplýsingar. Veit Karl dæmi um að þetta hafi leitt til þess að fólk fékk afgreidd röng lyf í apótekum.

Óttast hann að hið sama geti gerst nú með blóðþrýstingslyfin og mikil vinna sé framundan hjá læknum og Sjúkratryggingum. Ekki sé tekið tillit til þeirrar vinnu þegar talað er um ávinning af ávísunum á ódýrari lyf. Sparnaður fyrir sjúklinga af ódýrara lyfi, kannski upp á 10-15 þúsund krónur á ári, sé fljótur að fara ef sjúklingar þurfa að leita ítrekað til læknis til að stilla af ný lyf.

Karl hefur einnig áhyggjur af faglegu hliðinni á þessum breytingum með blóðþrýstingslyfin. Enalpril sé vissulega mjög gott lyf en hins vegar þoli það ekki allir. Þannig fái um 15% sjúklinga hósta af því. Ekki sé heldur um nákvæmlega sama lyf að ræða og þau sem ekki verða lengur niðurgreidd. „Margir af þeim sem eru á Valpress og Lopress eru búnir að prófa þetta lyf. Alltaf þegar verið er að hræra í lyfjum fólks, sem búið er að stilla inn, þá er hætta á því að blóðþrýstingur fari upp eða niður.“

Skapar óþægindi og óvissu
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, tekur undir með Karli og undrast að breytingar á greiðsluþátttökunni hafi verið tilkynntar nánast sama dag og þær tóku gildi. Innleiða þurfi breytingar sem þessar með góðum fyrirvara og í samráði við þá sem þurfa að framfylgja þeim, ekki síst þegar um jafnalgeng lyf er að ræða. „Vissulega er það jákvætt þegar tekst að lækka lyf í verði en almennt er það slæmt þegar verið er að hringla mikið með lyfin. Þetta getur skapað óþægindi og óvissu fyrir sjúklinga sem fara á ódýrari lyf og haft í för með sér fleiri endurkomur til lækna. Á móti ávinningi af ódýrari lyfjum kemur kostnaður fyrir sjúklinginn og heilbrigðiskerfið við að stilla inn á ný lyf,“ segir Þorbjörn.

Morgunblaðið 03.03.2012

Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-