-Auglýsing-

Bretar ráðast til atlögu við hjartasjúkdóma og heilablóðföll með landsátaki

Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is

FRAMTÍÐIN í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma liggur í fyrirbyggjandi aðgerðum. Þetta er mat enska prófessorsins Rogers Boyle, sem hélt erindi um blóðfitulækkandi lyf og hlutverk þeirra í nýju átaki breskra stjórnvalda gegn hjartasjúkdómum og heilablóðföllum á Læknadögum. Dr. Boyle starfaði sem hjartasérfræðingur á enskum sjúkrahúsum frá árinu 1972 til 1990, þegar hann tók að starfa fyrir stjórnvöld. Árið 2000 var hann svo skipaður yfirmaður málefna hjartasjúkdóma í breska heilbrigðisráðuneytinu og hefur stýrt landsátaki gegn hjartasjúkdómum og heilablóðföllum síðan 2006, sem felst meðal annars í róttækum aðgerðum á sviði fyrirbyggjandi læknisfræði. Erindi hans bar yfirskriftina „statín“ sem er heiti á blóðfitulækkandi lyfjum.

Allir vilja standa sig vel í heilbrigðismálunum

Í samtali við Morgunblaðið segir Roger Boyle að undanfarin ár hafi Englendingar vermt annað sætið á heimsvísu í tíðni dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á eftir Finnum. Slíkir sjúkdómar eru algengasta dánarorsök mannfólks yfirleitt, enda deyr um þriðjungur fólks af völdum þeirra. Það er mun meira en af völdum hvaða tegundar krabbameins sem er, þótt oft sé meiri umræða um alvöru krabbameins. Það er breskum yfirvöldum því hjartans mál að stemma stigu við þessum vágesti.

„Ég er í raun tengiliður á milli fagfólksins og stjórnvalda. Mitt starf gengur út á að beina hugsjónum stjórnmálamanna og þekkingu fagfólks í sama farveg. Með því að sameina þessa tvo hópa er hægt að skapa öflugt tæki til að bæta lífskjör almennings. Þetta getur verið erfitt hlutverk en við erum þó í sterkri stöðu. Heilbrigðisþjónustan er stórmál í breskum stjórnmálum og allir vilja standa sig vel í þeim málum. Stjórnmálamennirnir eru því mjög móttækilegir fyrir nýjum hugmyndum ef sýnt er fram á að þær séu skilvirkar.“

Læknar, hjúkrunarfræðingar, lyfjafræðingar, þjálfaðir leikmenn og jafnvel fólkið sjálft meti ástandið

En út á hvað gengur landsátakið? Í fréttum síðla sumars 2007 bárust fréttir af þessu verkefni sem dr. Boyle segir hafa verið villandi. Þá var gefið í skyn að átakið gengi út á lyfjagjöf til allra karla og kvenna á ákveðnum aldri, aðferð sem líktist teppalagningu, og þótti mörgum nóg um forræðishyggjuna sem í því virtist felast. „Þarna var rangt haft eftir. Við erum sannfærð um að Englendingar vilja ekki slíka nálgun. Nei, lausnin felst ekki í því að setja blóðfitulækkandi lyf út í vatnsból höfuðborgarinnar!“ segir hann og hlær. „Þetta er hugsað sem einstaklingsbundið mat sem fjöldi fólks getur framkvæmt. Læknar og hjúkrunarfólk getur gert það. Lyfjafræðingar geta framkvæmt slíkt mat í apótekum. Við teljum jafnvel að vel þjálfaðir leikmenn geti framkvæmt slíkt mat á fólki. Einnig verður hægt að ná til fólks með sjálfsmati, spurningakönnunum og netkönnunum.“

- Auglýsing-

Vonast er til að hægt verði að ná til milljóna manna sem eru í áhættuhópum án þess að vita af því og gefa þeim kost á fyrirbyggjandi meðferð, eða aðstoð við að bæta lífsstílinn, sem kemur í veg fyrir alvarleg áföll síðar, eða seinkar þeim um ár eða áratugi. Þannig verði heilsufarsástand fólks greint, það spurt spurninga um mataræði, hreyfingu, reykingar og fleira slíkt. Magn kólesteróls í blóði mælt og svo framvegis.

Kostnaðurinn af landsátaki sem þessu verður gríðarlegur, að hans sögn, enda fólksfjöldinn nálægt fimmtíu milljónum. Fara þurfi í umfangsmiklar fjölmiðla- og auglýsingaherferðir til þess að kynna átakið og fræða fólk um sjúkdómana. „Svona aðferðir eru til og eru í notkun á fleiri stöðum, en þetta er róttæk hugmynd að því leyti að við viljum beita henni kerfisbundið á heila þjóð. Það hefur aldrei verið gert áður. Forsætisráðherrann hefur sagt að við getum hafist handa innan nokkurra mánaða og nú er í gangi ítarleg efnahagsleg greining til þess að kveða upp úr um hvaða aðferðir verða notaðar. Þetta er bæði læknisfræðileg, pólitísk og fjárhagsleg ákvörðun.“

Íslendingar í enn betri stöðu fyrir átak en Bretar

Árlega eyða Bretar um 550 milljónum punda í statínlyf ein og sér, eða sem nemur 71,5 milljörðum króna. „Þess vegna verðum við að fullvissa okkur um að læknar séu að skrifa út þau lyf sem virka vel fyrir viðkomandi sjúkling en um leið þau ódýrustu sem völ er á. Það er gríðarlegur verðmunur á þessum lyfjum, verð þeirra dýrustu er tífalt hærra en þeirra ódýrustu,“ segir Boyle. Í hans tíð hefur lýðheilsustarf verið eflt mjög, reynt að hvetja almenning til heilbrigðara lífernis og reynt að bæta meðferð lækna. „Við höfum séð að með þessu úrvali af aðgerðum hefur dauðsföllum vegna hjarta- og æðasjúkdóma og heilablóðfalla fækkað um 40% á umliðnum árum. Við fögnum auðvitað þeim árangri en þó að fólk deyi síður vegna einkenna sinna núna fær það þau enn og reyndar fjölgar því. Þess vegna er þróunin sú að á meðan dauðsföllum fækkar rýkur heilbrigðiskostnaður vegna þessara sjúkdóma upp.“

Markmiðið með átakinu er að ná enn frekari seinkun hjarta- og æðasjúkdóma á æviferli fólks. Nú þegar hefur þeim verið seinkað mikið en helst þarf, að mati prófessorsins, að seinka þeim fram í svo háa elli að þörfin fyrir kostnaðarsamar aðgerðir eins og hjáveituaðgerðir og kransæðavíkkun minnki. „Englendingar eyða nú þegar meira fé í þessa sjúkdóma en önnur Evrópulönd, að Þýskalandi frátöldu.“ Hann nefnir sem dæmi að Finnar eru í sjötta sæti og eyða um 22.000 krónum á hvert mannsbarn á hverju ári, Svíar eru í þriðja sæti og eyða um 30.000 krónum og Englendingar um 33.000 krónum.

Og dr. Boyle mælir með svipuðu átaki fyrir Íslendinga. „Ég held að þið séuð í enn betri stöðu en við til að gera þetta. Þið hafið fleiri hjartalækna og fleira heilbrigðisstarfsfólk miðað við fólksfjölda og auðvitað mun færra fólk. Ég tók strax eftir því við komuna hingað að hér er mikið af skyndibitastöðum. Við Englendingar höfum fetað þá slóð á undan ykkur og erum nú næstfeitasta þjóð í heimi. Ég mæli ekki með því.“

Helmingur Breta veit ekki muninn á heilablóðfalli og hjartaáfalli. Fæstir þekkja áhrif reykinga á hjartað

Aðspurður játar Roger Boyle því að það verði afar erfitt verkefni að ná til alls þessa fólks en það verði að upplýsa fólk, til dæmis um tengslin milli reykinga og áhættunnar á hjartaáfalli eða heilablóðfalli. Fáfræðina segir hann allsráðandi. Flestir viti að reykingar hafa áhrif á lungun og auka hættu á krabbameini, en ekki að þær valdi hjartasjúkdómum. Næstum helmingur Breta þekkir heldur ekki muninn á hjartaáfalli og heilablóðfalli.

- Auglýsing -

„Fólk einfaldlega veit ekki, en samt hefur þetta vandamál líklega haft slæm áhrif á hverja einustu fjölskyldu í landinu.

Viðkvæðið er líka oft á þá leið að það sé engin ástæða til að fresta hjartveiki fram í háa elli því betra sé að detta niður dauður einn daginn úr hjartaáfalli en að deyja hægum dauðdaga úr krabbameini. En það er ekkert sem styður þessa fullyrðingu! Nú til dags deyr fólk síður úr hjartaáföllum. Miklu frekar eru líkur á því að hjarta fólks skemmist sem skerðir lífsgæði þess og gerir það vansælt. Svo einfalt er það. Þar að auki styður ekkert þá fullyrðingu að fleiri deyi úr krabbameini eftir því sem færri látast fyrir aldur fram af völdum hjartasjúkdóma, ekki ensk gögn í það minnsta. Við viljum sýna að með einföldum aðgerðum, betra líferni og betri meðferð er hægt að ná fram miklum árangri. Við sem stöndum fyrir þessu landsátaki erum ekki boðberar válegra tíðinda, heldur þvert á móti.“

Morgunblaðið 26.01.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-