-Auglýsing-

Biðlisti á hjartadeild

Í Morgunblaðinu í gær var frá því sagt að nú væru um 200 manns á biðlista eftir hjartaþræðingu á hjartadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og hefði sá fjöldi lítið breytzt síðustu árin.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir á hjartadeild spítalans, að þetta ástand væri engan veginn viðunandi og bætir því við að öllum bráðatilvikum sé umsvifalaust sinnt þrátt fyrir þennan biðlista og þeir sem fái bráða kransæðastíflu séu ævinlega teknir í hjartaþræðingu um leið og þeir koma inn.

Það geta komið upp mörg tilvik í lífi fólks og þeir sem eru á þessum biðlistum sitja ekki bara heima hjá sér og bíða eftir að að þeim komi. Þeir reyna að lifa eðlilegu lífi, fara í ferðalög og fara jafnvel til útlanda ef þeir fá ráðgjöf um að það sé í lagi. Sú ráðgjöf stenzt ekki í öllum tilvikum.

En hvað sem því líður er auðvitað ljóst að það er óviðunandi ástand að 200 manns bíði á biðlistum á milli vonar og ótta um hvernig þeim farnist meðan á biðinni stendur. Spítalinn getur ekki verið þekktur fyrir þetta og heilbrigðisyfirvöld geta ekki verið þekkt fyrir að láta ástand af þessu tagi óhreyft árum saman.

Það eru því miður alvarleg dæmi um að hurð hafi skollið nærri hælum og ekki alltaf íslenzka heilbrigðiskerfinu að þakka, þótt af því hafi ekki hlotizt dauðsföll.

Hvað þurfa margir að deyja af hjartabiðlistanum til þess að heilbrigðisyfirvöld taki við sér?

Það hefur of margt verið í ólagi í heilbrigðiskerfinu í of mörg ár til þess að það geti talizt eðlilegt. Hvar er hundurinn grafinn? Er það óeining innan kerfisins sem veldur? Er það valdabarátta innan Landspítala – háskólasjúkrahúss sem veldur? Er það stofnanatregða innan heilbrigðisráðuneytisins sem veldur? Hvað veldur?

- Auglýsing-

Nú situr ungur og óþreyttur heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokks í heilbrigðisráðuneytinu. Hann er smátt og smátt að kynnast því, sem að honum snýr. Það væri fróðlegt ef Guðlaugur Þór Þórðarson mundi upplýsa almenning um það með haustinu hvar hundurinn liggur grafinn að hans mati. Það er ekki einleikið hvað lítið gerist í því sem aflaga fer. Auðvitað er öllum ljóst að öðrum þræði er unnið frábært starf bæði á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og annars staðar í heilbrigðiskerfinu. En það er bara ekki nóg.

Það verður að ná tökum á því, sem aflaga fer. Tvö hundruð manna biðlisti á hjartadeild er eitt af því sem er ekki í lagi. Um það þarf ekki að deila enda áreiðanlega allir sem við sögu koma sammála því.

Fyrir lok þessa árs þarf alvarleg hreyfing að vera komin á umbætur á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og í heilbrigðiskerfinu öllu. Hreyfing sem ekki fer fram hjá nokkrum manni.

Ritstjórnargrein í Morgunblaðinu 09.08.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-