-Auglýsing-

Góður árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi

Aðgerð á hjartaÞrátt fyrir að gefi á bátinn á Landspítalanum skila starfsmenn þar frábæru starfi þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður. Slíkir starfsmenn eru eftirsóknarverðir og þeim ber að þakka fyrir það að vera til staðar fyrir okkur sem þurfum á þeim að halda. Greinin hér að neðan er af vef Landspítalans.

Hlutfall þeirra sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð hér á landi og látast innan 30 daga hefur batnað mjög á síðustu árum og er aðeins um tvö prósent nú. Þá eru yfir 92 prósent þeirra sem fara slíka aðgerð á lífi fimm árum eftir hana. Þetta er meðal þess sem kemur fram í MS-verkefni Hannesar Sigurjónssonar læknis sem hann varði 26. september 2013 við læknadeild Háskóla Íslands. Niðurstöðurnar sýna að sú meðferð sem veitt er hér á landi stenst samanburð við það besta sem þekkist í nágrannalöndum okkar.

-Auglýsing-

Opnar hjartaaðgerðir eru með stærstu og dýrustu skurðaðgerðum sem framkvæmdar eru. Hér á landi var fyrsta aðgerðin gerð á Landspítalanum í júní 1986 og var um svokallaða kransæðahjáveituaðgerð að ræða. Síðan hafa verið hátt í sex þúsund opnar hjartaaðgerðir á Íslandi og eru um 2/3 hlutar þeirra kransæðahjáveituaðgerðir.

Við kransæðahjáveituaðgerð er blóði veitt framhjá stíflum í kransæðum sjúklings sem bætir blóðflæði til hjartans. Þetta er gert með því að veita blóðinu frá ósæð sjúklings í svokallaða græðlinga sem annaðhvort eru slagæðar innan í brjóstholi sjúklingsins sjálfs eða bláæðar frá ganglimum. Við aðgerðina er hjartað oftast stöðvað og notast við hjarta- og lungnavél til að halda uppi blóðrás og lungnastarfsemi.

- Auglýsing-

Um er að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem geta haft fylgikvilla, sérstaklega hjá sjúklingum sem koma alvarlega veikir til aðgerðar, til dæmis eftir hjartastopp.

Á síðustu sjö árum hafa staðið yfir umfangsmiklar rannsóknir á árangri opinna hjartaaðgerða hér á landi, sérstaklega kransæðahjáveituaðgerðum. Ein af rannsóknunum, sem skipta tugum, er uppistaða í MS-verkefni Hannesar Sigurjónssonar læknis en hann hefur unnið þær undir handleiðslu Tómasar Guðbjartsson, yfirlæknis á Landspítala, og prófessors í skurðlækningum við Háskóla Íslands.

Í rannsóknunum hefur aðallega verið litið á afdrif sjúklinga fyrstu 30 daga eftir aðgerð en einnig horfur til langs tíma, svokallaða langtímalifun. Í ljós hefur komið að árangur þessara aðgerða er mjög góður hér á landi og fer batnandi. Þannig reyndist svokallað dánarhlutfall innan 30 daga lægra en 3% á tímabilinu 2002-2006 og lækkaði í 2% á tímabilinu 2007-2012. Fimm árum frá aðgerð voru 92% sjúklinganna á lífi sem líka þykir mjög góður árangur.

Einnig er jákvætt að með þessum rannsóknum og vaxandi gæðastarfi lækna og hjúkrunarfræðinga á Landspítala hefur tekist að draga úr fylgikvillum, t.d. skurðsýkingum og tíðni líffærabilunar, eftir aðgerð. Einnig hefur verið litið sérstaklega á árangur eldri sjúklinga (yfir 75 ára) sem eru vaxandi hluti þeirra sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð, eða í kringum 25%. Reyndist árangur þessa sjúklingahóps einnig mjög góður.

Rannsóknir á árangri opinna hjartaaðgerða hér á landi eru hvort tveggja í senn vísinda- og gæðarannsóknir og hafa greinar um þær allar birst í alþjóðlegum vísindaritum. Þær gefa mikilvæg skilaboð bæði til sjúklinga og starfsmanna Landspítala. Að hverri aðgerð koma tugir starfsmanna og kostnaður við hverja slíka hleypur á milljónum. Þess vegna, en umfram allt fyrir sjúklinginn sjálfan, er mikilvægt að vel takist til. Góður árangur staðfestir að á Landspítala er veitt meðferð í hæsta gæðaflokki.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-