-Auglýsing-

Sjúklingurinn fljótari að jafna sig

„Aðalmarkmið þessarar hugmyndafræði snýst ekki um sparnað í heilbrigðiskerfinu heldur að bæta líðan sjúklingsins. Að hún feli síðan í sér sparnað er aðeins jákvæð hliðarverkun,“ segir Henrik Kehlet, hugmyndasmiðurinn að baki flýtibatameðferðinni svonefndu sem rutt hefur sér til rúms innan skurðlæknisfræðinnar á síðustu árum.

Kehlet starfaði áratugum saman sem skurðlæknir á grindarholsskurðdeild Hvidovre-spítalans í Danmörku ásamt því að vera prófessor við Kaupmannahafnarháskóla en hefur nú helgað sig rannsóknum. Hann var gestafyrirlesari á 12. vísindaþingi Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands sem hófst í gær og lýkur í dag.

-Auglýsing-

Að sögn Kehlet felur flýtibatameðferðin í sér að hægt sé að gera allar skurðaðgerðir á dagsgrundvelli og senda sjúklinginn mun fyrr heim af spítalanum en ella, stundum samdægurs en í mesta lagi innan þriggja daga. „Til þess að það sé hægt þarf að innleiða nokkurs konar heildarpakka sem felur í sér að sjúklingurinn er undirbúinn betur bæði andlega og líkamlega, svæfingalæknir og skurðlæknir þurfa að starfa mjög náið saman því markmiðið er að inngripið sé eins lítið og hægt er.

Þannig er blandað saman staðbundnum deyfingum og svæfingum með þeim afleiðingum að svæfingin verður ekki eins djúp og áður, auk þess sem líkami sjúklingsins fær ekki sjokk vegna skurðaðgerðarinnar sjálfrar þar sem notast er við deyfingu á taugum. Það þýðir svo aftur að sjúklingurinn er fljótari að jafna sig og kemst fyrr á fætur. Með þessu móti minnkar hættan á aukaverkunum sem fylgt geta skurðaðgerð, s.s. sýkingar, blóðtappar og hjartavandamál,“ segir Kehlet.

- Auglýsing-

Nýtist í allar tegundir aðgerða
„Hægt er að nýta þessa aðferðarfræði við allar tegundir aðgerða, hvort heldur um er að ræða legnám, mjaðma- eða hnéaðgerð, ristilaðgerð eða hjartaaðgerðir,“ segir Kehlet og tekur fram að vissulega þurfi sjúklingar mislangan tíma til þess að jafna sig eftir aðgerð enda aðgerðir margvíslegar. Bendir hann á að á fimm ára tímabili hafi legudögum í Danmörku vegna legnáms fækkað úr fjórum í tvo, vegna ristilaðgerða úr tólf í þrjá og vegna mjaðma- eða hnéaðgerða úr átta í fjóra. Segist hann sannfærður um að með frekari rannsóknum og þróun verði hægt að fækka legudögum enn frekar.

Að sögn Kehlets eru um þrír áratugir síðan hann fékk áhuga á því hvernig bæta mætti líðan sjúklinga eftir skurðaðgerð. Segir hann það hafa tekið lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk nokkuð langan tíma að meðtaka hugmyndafræðina um flýtibatameðferð, en nú þegar sífellt fleiri hafi áttað sig á kostum hennar væri stuðst við hana í æ ríkara mæli. Kehlet fer nú um stundir fyrir rannsóknarteymi sem fékk í fyrra 7 milljóna bandaríkjadala styrk til fimm ára. Meðal þess sem teymið rannsakar er hvers vegna minni eldra fólks virðist verða fyrir neikvæðum áhrifum til lengri tíma litið fari það í mjaðma- eða hnéaðgerð. Hópurinn rannsakar einnig sársaukaþröskuld fólks. „Við vitum að sársaukaþröskuldur fólks er mishár og ræðst m.a. af erfðafræðilegum þáttum. Við teljum okkur með prófunum geta sagt fyrir um það hverjir ná fljótum bata eftir skurðaðgerð og finna lítið til og hverjir eru lengur að ná sér. Mín sannfæring er sú að hægt verði að nýta þessa vitneskju í meðferðarferlið í nánustu framtíð.“

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

Morgunblaðið 20.03.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-