Dularfulli kærleikshópurinn á Patreksfirði hefur enn á ný látið á sér kræla. Í morgun þegar íbúar fóru á stjá fundu þeir gjöf á bílum sínu eða við heimili sitt. Frá þessu segir á patreksfjordur.is
Var um að ræða fallega innpakkað rautt hjartakerti og fylgdi orðsending gjöfinni.
Orðsendingin hljóðaði svo:
” Með kærleika og gleði í hjarta færi ég þér þetta kerti.
Settu vatn í skál og kertið ofan í, sestu svo niður á rólegum stað og tendraðu ljósið, fyrir vonina, trúna og kærleikann. Hallaðu þér aftur og lokaðu augunum, sendu fallegar hugsanir til fjölskyldu, vina, ættingja og allra þeirra sem þurfa á hlýjum hugsunum að halda. Með þessu fyllum við loftið af kærleika og umhyggju fyirr náunganum.
Kærleikurinn er ljósið sem býr í hjarta þínu og höfum það að leiðarljósi að kærleikur er að gefa þeim sem þarfnast.
kærleikskveðja F.f.”
Ekki er vitað hvað F.f. þýðir en leynihópurinn eða kærleikshópurin þykir afar kærkomin tilbreyting og segir fréttaritari Tíðis að öll þorp og bæir á Íslandi þyrftu á svona kærleiksríkum og gefandi hópi að halda.
www.ruv.is 22.10.2009