-Auglýsing-

Fingurbjörg – lífsins björg

Á dögunum var sagt frá því í útvarpinu að lyfjafyrirtækið Actavis hefði þurft að innkalla nokkur lyf sem verksmiðja þess í Bandaríkjunum framleiddi. Meðal þessara lyfja var hjartalyfið Digoxin. Vegna þessa var rætt við yfirlækni hjartadeildarinnar á Landspítalanum, sem sagði að þarna væri mjög gott hjartalyf á ferðinni, en notkun þess væri vandmeðfarin og skammtastærð mjög einstaklingsbundin. Þessi frétt rifjaði upp fyrir mér söguna um uppgötvun þessa mikilvæga hjartalyfs, sem mig langar til að deila með lesendum Blóms vikunnar.

Lyfjafræðin og grasafræðin hafa löngum verið nátengdar, enda hafa plöntur verið notaðar til lækninga um aldir og árþúsundir. Ein mikilvægasta lækningajurtin er fingurbjargarblóm, sem Bretar og Norðmenn kenna reyndar við refinn og kalla foxglove eða revebjelle. Þetta blóm vex villt í Evrópu alveg norður í Noreg. Latneska nafnið er Digitalis purpurea sem dregið er af orðinu digitus, fingur. Þjóðverjinn Leonard Fuchs gaf plöntunni það heiti árið 1542. Fuchs var bæði læknir og grasafræðingur og hann lét sér ekki nægja að lýsa plöntunni grasafræðilega heldur lagði hann áherslu á lækningamátt hennar, hún eyddi vatnssýki, drægi úr lifrarþembu og örvaði tíðir kvenna. Fuchs var ekki sá fyrsti sem vissi um lækningamátt jurtarinnar, hún hafði lengi verið vinsæl við bjúg, kirtlaveiki, flogaveiki og til að græða sár. En þótt almenningur notaði fingurbjargarblómið til ýmissa lækninga hlaut það ekki náð fyrir augum læknanna.

Um 1720 komst fingurbjargarblóm þó á ensku lyfjaskrána, meðal annars vegna áróðurs enska grasafræðingsins Salomons. Hann taldi jurtinni fjölmargt til ágætis, hún væri lystaukandi, hreinsandi, styrkjandi, græðandi, leysandi, bætti meltinguna, væri þurrkandi og heilnæm fyrir brjóst og innyfli, læknaði tæringu og vatnssýki. En Salomon skrifaði jafnframt að hana skyldi nota mjög varlega þar sem hún gæti valdið magnleysi, uppsölu og niðurgangi. Fingurbjargarblóm varð tískulyf læknanna um tíma en datt svo úr tísku eins og svo margt annað, en grasakonurnar og sveitafólkið hlustaði ekki á læknana og hélt áfram að nota „grasasullið“ sitt.

-Auglýsing-

Um 1770 fékk enski læknirinn og grasafræðingurinn William Withering uppskrift að dularfullri grasablöndu hjá gamalli grasakonu í nágrenni Birmingham. Þessi grasablanda átti að lækna vatnssýki, hörmulegan sjúkdóm sem ekkert dugði við. Vökvi safnaðist saman í líkamanum, afleiðingin var bjúgur í útlimum, kviðarholi eða lungum svo sjúklingurinn náði varla andanum. Vatnssýki og berklar voru ásamt ýmsum smitsjúkdómum helsta dánarorsök manna. Grasablandan innihélt meira en tuttugu ólíkar jurtir, en Withering fjarlægði það sem hann taldi einskis virði, aðeins til að bæta bragð, lit eða lykt, og sat uppi með nokkrar þekktar lækningajurtir, þar á meðal var fingurbjargarblómið. Læknirinn áttaði sig á að lítill skammtur af laufi þess dró úr vökvasöfnun hjá mörgum sjúklinga hans en skildi jafnframt að þeir þurftu, og þoldu, mjög mismunandi stóra skammta af því. Hann skildi líka að lyfið var gagnslaust gegn berklum. Í riti sem hann gaf út 1785 birti hann rannsóknir sínar, greindi frá við hvaða sjúkdómum lyfið virkaði og virkaði ekki og einnig hve bilið milli læknandi og banvæns skammts væri mjótt.

Það er einmitt svona sem virku efnin í fingurbjargarblómi starfa. Þau láta veikt hjarta slá hægar en fastar og dæla blóðinu þannig hraðar um líkamann þannig að óeðlileg vökvasöfnun verður ekki. Í dönsku lyfjaforskriftabókinni frá 1963 eru þrjár uppskriftir af digitalis-töflum; í einni uppskriftinni eru notuð stöðluð digitalis-blöð, en í hinum virk efni einangruð á rannsóknarstofum. Efni einangruð á rannsóknarstofum eru eingöngu notuð núorðið.

- Auglýsing-

En fingurbjargarblómið er enn vinsæl garðjurt og með þeim glæsilegri. Við köllum hana tvíæra. Fyrsta árið myndast blaðhvirfing stórra, ljósgrænna, egglaga og tenntra laufblaða. Blaðhvirfingin getur lifað nokkur ár án þess að blómin þroskist, en hvílík sjón. Upp vex allt að 150 cm hár blómstöngull, sem ber fjölmargar ljóspurpurarauðar og dröfnóttar klukkur. Plantan deyr að lokinni blómgun, en a.m.k. sunnanlands myndar hún mikið af fræi og heldur sér við með sjálfsáningu.Ýmis litbrigði eru til af fingurbjargarblóminu, hvít, apríkósulit og ýmsir rósrauðir og hárauðir litir. Engum vil ég þó ráðleggja að leggja sér blöðin til munns því bilið milli holls og hættulegs magns er örmjótt.

Blóm vikunnar eftir Sigríði Hjartar.

Morgunblaðið 11.08.2008 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-