-Auglýsing-

Bráðveiktist – en batnaði alveg

Einn af þeim Íslendingum sem fengið hafa bráðakransæðastíflu er Rúnar Guðbjartsson fyrrum flugstjóri og sálfræðingur.

„Ég datt fyrirvaralaust niður fyrir 18 árum og rankaði svo strax við mér. Þetta var um helgi og ég hringdi í lækni en hann sagði mér að taka það rólega. Ég kom til hans eftir helgina. Þá kom í ljós við hjartaþræðingu að 90% stífla var í einni aðalkransæðinni,“ segir Rúnar.

Þetta breytti miklu í lífi hans.

-Auglýsing-

„Þetta kippti manni heldur betur niður á jörðina og fyrir mér var þetta spurning um hvort ég gæti haldið áfram að starfa sem flugmaður, – en fyrst og fremst var maður dauðhræddur um að endalokin væru næsta leiti,“ heldur hann áfram.

„Flugstjórar þurfa að ná góðum bata til að mega halda áfram að fljúga eftir svona áfall. Ég náði þeim bata með hjáveituaðgerð hér heima á Íslandi. Hún tókst mjög vel. Ég var um þetta leyti að byrja að læra sálfræði við Háskóla Íslands. Mér var kippt úr starfi í tvö ár. Nokkru eftir aðgerðina fór ég á Reykjalund og fékk þar gott „yfirhal“. Ég tók þetta allt saman mjög alvarlega og fór að huga að vandaðra mataræði m.a. Konan mína var mjög hjálpleg að þessu leyti, við breyttum saman mataræðinu og fórum að borða meira af ferskri matvöru, svo sem fiski, kjöti og grænmeti. En við urðum þó ekki öfgafull um of. Svo fór ég að hreyfa mig meira og það held ég að sé mikið atriði. Nú, 18 árum síðar, syndi ég annað hvort 1000 metra, geng eða hjóla í klukkutíma daglega.“

- Auglýsing-

– Ertu þá ekki í góðu formi?

„Jú, ég er mjög lánsamur, hef náð ótrúlega góðum bata og hef getað lifað eðlilegu lífi eftir þau tvö ár sem það tók mig að endurhæfa mig.

Eftir endurhæfinguna flaug ég í tvö ár.

Sumir höfðu áhyggjur af mér og farþegunum vegna fyrri veikinda minna. En þá sagði ég eftirfarandi dæmisögu:

„Ef þér stæði boða að fara með tveimur ekki nýjum bílum niður Kamba, öðrum venjulegum sem skoðaður væri árlega – en hinum, sem farið hefði í viðgerð og gagngert yfirhal á bremsukerfi og svo skoðaður á fjögra mánaða fresti, – með hvorum myndir þú vilja fara?

Eftir þessa dæmisögu sá fólk hlutina í öðru ljósi.

En hitt er annað að eftir tveggja ára starf sem flugmaður hætti ég að fljúga en hélt áfram námi í sálfræði. Ég fór í strangt sálfræðinám við HÍ og svo í framhaldsnám í Danmörku í sama fagi. Að því loknu hef ég starfað sem sálfræðingur hér á landi, en er nú farinn að minnka við mig.“

– Hefur þú starfað að málefnum hjartasjúklinga?

„Ég er í Hjartaheillum og mæti þar stundum á fundi en ég ætla sannarlega að vera með í söfnunarátakinu til að kaupa nýtt og fullkomið hjartaþræðingartæki á Landspítalann.“

Í hnotskurn

» Rúnar Guðbjartsson er fæddur í Reykjavík 1934. Hann var flugmaður og flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands og Flugleiðum í 38 ár.
» Hann lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1997 og cand. psych.-námi frá Háskólanum í Árósum árið 2001 og var í níu mánuði í starfsnámi við Meðferðarstofnun Alberts Ellis, sálfræðings á Manhattan.
» Rúnar fékk bráðakransæðastíflu fyrir 18 árum en fékk góðan bata við hjáveituaðgerð og endurhæfingu í 2 ár.
» Hann er hættur að vinna en hreyfir sig mikið og vandar mataræði sitt.


gudrung@mbl.is

- Auglýsing -

Morgunblaðið 01.06.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-