-Auglýsing-

Hjartað, tæknin og innsæið

“Body Batterí” sem er í Garmin úrum er ágætis mælikvarði á hvernig orkustigið er á hverjum tíma. Nú um miðjan dag á mánudegi er það 20 og væntanlega verður það undir 10 þegar líður á kvöldið.

Ég hef lifað með hjartabilun í rúm tuttugu ár og er orðinn ansi vanur því þegar hjartað lætur vita af sér og ég þarf að rifa seglin og hafa hægt um mig um stund.

Oft hef ég fundið fyrir ýmsum óþægindum en hér áður fyrr hafði ég ekki nein tæki sem gátu hjálpað mér að átta mig á því hvað væri að gerast, þegar það var að gerast.

-Auglýsing-

Nú hefur tækninni fleygt fram og í dag get ég tekið hjartalínurit með Garmin-úrinu mínu sem gefur vísbendingar um takttruflanir. Ég nota líka blóðþrýstingsmælir frá Microlife sem nemur óreglulegan hjartslátt. Þessi tæki eru mér orðin að stoð – og stundum hálfgerðir samstarfsfélagar.

Einn af þessum dögum

Ég er orðinn ansi vanur því að hjartað mitt sé með sinn eigin takt og láti vita af sér við og við. Á laugardaginn var einmitt svoleiðis dagur. Í rólegheitum heimavið fann ég að ég var ekki alveg eins og ég átti að mér að vera. Ég ákvað því að sjá hvað tækin mín – Garmin-úrið og Microlife-blóðþrýstingsmælirinn – hefðu að segja.

Óþægindin voru töluverð og þetta var öðruvísi en vanalega. Ég hef öðru hvoru fundið fyrir svipuðum einkennum áður en ekki í svona langan tíma. Og núna fékk ég síendurtekna greiningu á gáttatifi úr Garmin úrinu mínu.

Hjartalínurit á úlnliðnum

Ég var heima allan daginn. Engin vinna, engin ferðalög bara rólegt heimilishangs og létt tiltekt. En mér leið samt undarlega – einkennin ágerðust þegar leið á daginn. Ég lét Garminúrið taka hjartalínurit (EKG) og niðurstaðan lét ekki á sér standa: gáttatif staðfest með EKG.

- Auglýsing-

Ég fylgdi þessu eftir með því að mæla mig með blóðþrýstingsmælinum, sem nemur hvort hjartslátturinn sé reglulegur. Og jú hann sagði það sama: óreglulegur taktur.

Hjartað kvartar – þó dagurinn sé rólegur

Ég fór að hlusta betur á líkamann. Ég hafði fundið svipuð einkenni áður en eins og áður sagði hafði ég ekki haft tæki til að greina eða átta mig á hvað væri í gangi – fyrir utan innsæið.

Í þetta skipti var ég móður nær allan daginn. Svimaði meira og minna allan daginn og var slappur, þreyttur og orkulaus. Þetta var ekki venjuleg þreyta – þetta var þreyta sem passaði engan veginn við góðan nætursvefn. Þegar ég svo kíkti á úrið seinnipartinn sá ég að „body battery“ var komið niður í 5 og það var nánast eins og Garmin sé að segja mér: „Þú þarft að hafa hægt um þig og anda með nefinu í dag væni minn.“

Streita sem kemur að innan

Um kvöldið bætti Garmin við annarri viðvörun: „High stress detected today.“ (mikil streita í dag).  Ég lyfti brúnum. Það hafði ekkert átt sér stað sem útskýrði þessa streitu. Ekki einu sinni innkaupaferð.

En líkaminn var greinilega undir álagi. Hjartað var í óreglu og kerfið mitt var að vinna yfirvinnu við að ná jafnvægi. Þetta var ekki sú streita sem við finnum í huganum heldur sú sem kemur úr hjartanu og blóðrásinni. Líkaminn sér um sitt.

Þegar tækni og innsæið vinna saman

Það sem þessi dagur kenndi mér er einfalt: Við sem lifum með hjartabilun og erum með ígrætt ICD-tæki verðum að taka svona viðvaranir alvarlega – ekki með kvíða heldur með athygli og ábyrgð.

Framundan er heimsókn á Göngudeild hjartabilunar og fer ég með mælingar laugardagsins til að sýna þeim og fara yfir. Garmin, Microlife, og – kannski mikilvægasta – líkaminn sjálfur voru öll að segja mér að eitthvað væri í gangi og ég hlustaði.

Það verður líka áhugavert að sjá hvort gangráðurinn/bjargráðurinn hafi náð þessu – en það kemur í ljós við næstu gangráðsmælingu.

- Auglýsing -

Þetta voru ekki bara mælingar úr úri og blóðþrýstingsmæli – þetta var líkaminn að minna mig á að hjartað mitt er viðkvæmt. En líka að ég þekki það nógu vel til að skilja hvenær það er að segja mér eitthvað. Þá þarf ég að hlusta og staldra við.

Verum góð við hvort annað.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-