
Ég man vel þegar ég lá á hjartadeildinni eftir hjartaáfallið um árið. Læknar og hjúkrunarfræðingar fylgdust grannt með hjartanu, púlsinum, blóðþrýstingnum og súrefnismettuninni. En það sem enginn mældi var hvernig mér leið þó svo allir væru elskulegir og umhugað um að ég hefði það sem best.
Þegar kom að því að það átti að útskrifa mig fékk ég kvíðakast og vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að takast á við lífið án þess að hafa þetta stórkostlega fólk við hliðina á mér. Það tók mig langan tíma að skilja að það er eðlilegt að verða kvíðinn eða jafnvel þunglyndur eftir hjartaáfall. Það er ekki veikleikamerki. Það er mannlegt viðbragð við áfalli sem skekur bæði líkama og sál.
Þrisvar sinnum algengara eftir hjartaáfall
Þunglyndi eftir hjartaáfall er miklu algengara en margir gera sér grein fyrir. Rannsóknir sýna að 15–20% þeirra sem fá hjartaáfall þróa með sér alvarlegt þunglyndi, og allt að 40% finna fyrir depurð eða vonleysi að einhverju leyti.
Þetta er ekki óeðlilegt.
Á einni örskotsstundu breytist lífið og þegar við finnum fyrir veikleika í líkamanum og jafnvel dauðahræðslu, að við vöknum ekki aftur tekur hugurinn við að vernda okkur með sínum hætti. Kvíði, svefnleysi, ótti og jafnvel skömm eru eðlileg viðbrögð, en þegar þau vara lengur en tvær vikur eða byrja að hafa áhrif á daglegt líf er kominn tími til að leita aðstoðar.
Þegar hugurinn er enn hjartadeildinni
Líkaminn jafnar sig oft fyrr en hugurinn. Margir lýsa því að sjálfstraustið hverfi, þeir treysta ekki lengur eigin líkama, eru hræddir við að hreyfa sig eða jafnvel að sofa einir.
Þunglyndi og kvíði geta dregið úr vilja til að hreyfa sig, fylgja lyfjameðferð eða mæta í endurhæfingu, og þannig tafið bata.
Rannsóknir sýna að þeir sem glíma við þunglyndi eftir hjartaáfall eru líklegri til að fá annað hjartaáfall eða deyja fyrr en þeir sem ná andlegu jafnvægi á ný.
Þunglyndi er því ekki bara andlegt álag heldur hefur það bein áhrif á hjartaheilsuna sjálfa.
Meðferð sem nær til beggja – hugar og hjarta
Það góða er að hægt er að gera mikið. Á Reykjalundi sýndi rannsókn að eftir hjartaendurhæfingu þar sem bæði sálfræðimeðferð, stuðningur og hreyfing voru hluti af ferlinu dró úr einkennum þunglyndis úr 9,5% í 3,1%.
Hugræn atferlismeðferð hjálpar mörgum að endurheimta trú á eigin getu, og SSRI-lyf eru almennt talin örugg fyrir hjartasjúklinga.
Það mikilvægasta er þó að viðkomandi fái skilning, tíma og hlýju og að það sé hlustað á bæði hug og hjarta.
Þú ert ekki ein/n
Það að finna fyrir kvíða eða depurð eftir hjartaáfall er ekki merki um veikleika heldur viðbragð við áfalli sem hefur mikil áhrif.
Það sem skiptir máli er að ræða um það, deila tilfinningum og leita sér aðstoðar.
Með réttri aðstoð, samkennd og þolinmæði fær lífið litinn aftur og hjartað, bæði það líkamlega og tilfinningalega, fer að slá í takt á ný.
Björn Ófeigs.
❤️ Hjálp er til – þú ert ekki ein/n
- Heilsugæslan – læknir eða hjúkrunarfræðingur getur metið einkenni og vísað áfram til sálfræðings.
- Hjartaendurhæfing á Reykjalundi eða Landspítala – bjóða bæði sálrænan og líkamlegan stuðning.
- Sálfræðingar og geðheilbrigðisteymi – margir sérhæfa sig í áfallastreitu og þunglyndi eftir alvarleg veikindi.
- 112 / Neyðarlínan – ef hugsanir um sjálfsskaða eða vonleysi koma fram.
- Píeta samtökin – veita trúnaðarsamtöl og stuðning við fólk í vanlíðan: www.pieta.is
Heimildir
Williams, R.B. (2011). Depression after heart attack. Circulation, 123, e639–e640.
Colquhoun, D.M., Bunker, S.J., Clarke, D.M., Glozier, N., Hare, D.L., Hickie, I.B., … Branagan, M.G. (2013). Screening, referral and treatment for depression in patients with coronary heart disease. Medical Journal of Australia, 198(9), 483–484.
Frasure-Smith, N., Lespérance, F. & Talajic, M. (1998). Depression and 18-month prognosis after myocardial infarction. Circulation, 97(7), 708.
Karl Kristjánsson, Þórunn Guðmundsdóttir & Magnús R. Jónasson. (2007). Algengi, greining og meðferð þunglyndis og kvíða sjúklinga í hjartaendurhæfingu. Læknablaðið, 93(12), 841–845.
Witchel, H.J., Hancox, J.C. & Nutt, D.J. (2003). Psychotropic drugs, cardiac arrhythmia, and sudden death. Journal of Clinical Psychopharmacology, 23(1), 58–77.







































