Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@gmail.com. Síðastliðin þrjú ár hefur staðið yfir undirbúningur að byggingu nýs háskólasjúkrahúss í Vatnsmýrinni. Nýi spítalinn kemur til með að vera 120.000 fermetrar að stærð og er búist við að fyrsta áfanga ljúki árið 2013.
„Um 300 starfsmenn Landspítala og Háskóla Íslands hafa undanfarin ár unnið í yfir 40 starfshópum að þarfagreiningu fyrir hið nýja sjúkrahús,“ útskýrir Ingólfur Þórisson verkfræðingur, sem leiðir verkefnið. En hlutverk starfshópanna var að taka saman hvernig best sé að skipuleggja nýju starfsemina.
Fyrsta áfanga lýkur 2013
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir þessa viðamikla verkefnis hefjist árið 2010 og að þremur árum síðar, 2013, verði fyrsta áfanga lokið. Ef allt gengur eftir er gert ráð fyrir að rannsóknahús verði byggt í fyrsta áfanganum. Þegar Ingólfur er spurður um það hvenær framkvæmdunum ljúki segir hann erfitt að segja til um slíkt. „Þetta er í raun verkefni sem aldrei lýkur. Þetta er mjög lifandi og breytilegt umhverfi sem alltaf þarf að vera að bæta og breyta.“
Eldri byggingar nýttar áfram
Eins og fyrr segir verða nýbyggingar í kringum 120.000 fermetrar að stærð en auk þess verði reist 35.000 fermetra hús fyrir heilbrigðisvísindadeildir Háskóla Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði sem nú er staðsett á Keldum. Þá segir Ingólfur að eldri byggingar á núverandi svæði verði nýttar áfram og að öll starfsemi spítalans í Fossvogi komi til með að flytja í nýja sjúkrahúsið.
24 stundir 16.04.2008