Breski rithöfundurinn Fay Weldon fer lofsamlegum orðum um íslensk sjúkrahús í viðtali, sem birtist í blaðinu Daily Mail í gær. Weldon þjáist af hjartaflökti og hefur oft þurft að fara fyrirvaralaust inn á sjúkrahús á ferðum sínum um heiminn. Í viðtalinu lýsir hún m.a. reynslu sinni af nokkrum slíkum sjúkrahúsferðum.
Sjúkdómurinn lýsir sér þannig, að hjartað fer skyndilega að slá mun hraðar en venjulega eða á milli 140 og 240 slög á mínútu. Einkennin gátu gert vart við sig streitu, þreytu eða of mikillar kaffidrykkju.
Weldon gekkst árið 2005 undir aðgerð vegna kvillans og hefur verið einkennalaus síðan. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, gekkst undir samskonar aðgerð. Hún segir, að áður hafi hún oft þurft að fara inn á sjúkrahús þegar hún var á ferðalögum. Meðferðin hafi oft falist í því, að henni var gefið lyf sem stöðvaði hjartsláttinn örstutta stund.
„Á bókaferðum í útlöndum tók ég oft þátt í adrenalínörvandi bókmennaumræðum, borðaði kvöldverð seint og fékk síðan kast áður en ég fór að sofa,” segir Weldon.
„Ég pantaði þá gjarnan leigubíl til að fara á sjúkrahús. Stundum lagaðist þetta af sjálfu sér þegar ég var komin í leigubílinn og sá sjúkrahúsið fyrir mér.
Vilji maður kynnast landi er gott að fara á sjúkrahúsin og kynna sér hefðir í heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi eru menn röskir og skilvirkir. Í Frakklandi, ef ég hringdi og lét vita af mér áður, komu hjúkrunarfræðingarnir niður tröppurnar og tóku á móti mér. Í Moskvu reka þeir stórar nálar í rasskinnarnar á manni. Í San Francisco vilja þeir frekar að maður drepist en taki sýklalyf,” segir Weldon m.a.
www.mbl.is 28.08.2007