Að undanförnu hefur verið töluverð umfjöllun um þá sem eru með undirliggjandi hjarta og æðasjúkdóma að þeir séu í meiri hættu en aðrir og að COVID-19 veiran fari verr með þá en aðra. Á sama tíma hefur jafnframt verið rætt um að sumar tegundir hjartalyfja gætu jafnvel haft áhrif til hins verra.
Mbl.is leitaði til Davíðs O. Arnar, yfirlæknis hjartalækninga á Landspítalanum sem segir umrædd lyf vera í flokki lyfja sem kallast ACE-hemlar og angiotensin-viðtakablokkar. Lyfin eru meðal annars notuð við háþrýstingi, hjartabilun og af sykursjúkum einstaklingum.
„Þeir skipta þúsundum hérlendis sem taka lyf af þessum flokkum, en til þeirra teljast meðal annars lyfin losartan, valsartan og enalapríl,“ segir Davíð. Hefur þessi umræða leitt til nokkurrar óvissu hjá þeim sem taka þessi lyf daglega um hvernig sé rétt að bregðast við.
Davíð segir að þessi umræða sé áhugaverð en byggist aftur á móti ekki á traustum vísindalegum gögnum enn sem komið er. Þá hafa ennfremur komið fram vísbendingar sem benda til þess að umrædd lyf geti jafnvel dregið úr hættu á alvarlegri lungnabólgu hjá þeim sem hafa smitast af COVID-19.
„Þegar COVID-19-faraldurinn lét sem hæst í Kína kom í ljós að margir af þeim sem fengu alvarlega sýkingu eða létust af völdum hennar höfðu undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma. Þar á meðal voru háþrýstingur og sykursýki en það eru einmitt þeir sjúklingar sem eru líklegastir til að nota lyf af þeim flokkum sem voru nefndir. Hins vegar eru þeir sem hafa hjartasjúkdóma gjarnan eldri og líklegri til að hafa aðra alvarlega sjúkdóma sem gætu gert þá veikari fyrir alvarlegri kórónuveirusýkingu af þeim sökum,“ segir Davíð.
Fólk taki lyfin áfram
Davíð segir að COVID-19 nýti sér svokölluð ACE2-viðtæki til að komast inn í frumur líkamans. Notkun ACE-hemla og angiotensin-viðtakablokka getur aukið tjáningu ACE2-viðtækja á frumuhimnum, sér í lagi í hjarta og heila, og þannig að mati sumra gert þá sem taka þessi lyf viðkvæmari fyrir smiti.
„Það eru ekki vísbendingar um aukningu á ACE2-þéttni í sermi eða í lungnavef. Það er sömuleiðis margt á huldu um samspil ACE2-viðtækja, lyfjanna og COVID-19-veirunnar og ekki hægt að fullyrða að þarna sé orsakasamhengi. Þessi umræða hefur þó gengið svo langt að einhverjir hafa kallað eftir því að notkun þessa lyfja verði stöðvuð meðan á faraldrinum stendur,“ segir Davíð.
Davíð segir rétt að undirstrika að núna sé alls ekki ljóst hvort þessi lyf auki áhættuna á sýkingu og í raun sé ekkert sem beinlínis sanni að svo sé.
„Það getur haft alvarlegar afleiðingar að stöðva ACE-hemla eða angiotensin 2-viðtakablokka hjá þeim sem eru að taka þessi lyf og getur það valdið snöggri versnun á undirliggjandi sjúkdómi. Fjölmörg alþjóðleg samtök hjartalækna hafa gefið út yfirlýsingar þar sem hvatt er til þess að sjúklingar haldi áfram á þessum lyfjum þar sem það eru ekki nægileg rök til annars sem stendur,“ segir Davíð og bætir við að því sé fylgt hérlendis.
Þá séu einstaklingar sem taki umrædd lyf líklegast nú þegar í áhættuhópi vegna undirliggjandi sjúkdóma og hagi sér því líklegast í samræmi við það.
Bæði hagstæðar og óhagstæðar kenningar
Þá hafa einnig komið fram vísbendingar um að angiotensin 2-viðtakablokkar geti dregið úr hættu á alvarlegri lungnabólgu í dýramódeli sem hefur verið sýkt af SARS-CoV-veirunni sem er svipuð og sú sem veldur COVID-19.
Dýratilraunir benda til að þess að þessi lyf geti dregið úr bólgusvari í lungum og sumir læknar meira að segja varpað því fram að þessi lyfjaflokkur kæmi til greina sem meðferð til að draga úr áhættu á alvarlegri lungnabólgu í COVID-19-smiti. Þessi lyf hafa þó ekki verið prófuð hjá mönnum sem eru sýktir af COVID-19 og því eru þetta aðeins getgátur á þessu stigi að sögn Davíðs.
Davíð segir þessar vangaveltur sýna hve hratt hlutirnir gerist hvað varðar viðbrögð og rannsóknir á mögulegri meðferð við COVID-19-sýkingu.
„Það er vissulega mótsögn í umræðunni um áhrif ACE-hemla og angiotensin-viðtakablokka á Covid-19 þar sem önnur kenningin er óhagstæð og hin hagstæð. Þetta árétti jafnframt að mikið af þeim gögnum sem verið er að túlka varðandi Covid-19 geti verið takmörkuð og oft ófullkomin á þessu stigi. Við þurfum að fara varlega og passa okkur á því að mæla ekki með viðbrögðum eða meðferðum sem hafa ekki sannað gildi sitt, jafnvel á erfiðum tímum,“ segir Davíð.
Af vef Mbl.is