-Auglýsing-

Í áhættuhóp í varnarsóttkví

Björn Ófeigsson

Ég er í áhættuhóp með undirliggjandi hjartasjúkdóm, lifrarsjúkdóm og astma og því mikilvægt að ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að forðast smit af völdum COVID-19 veirunnar. Ég átti í erfiðleikum með að ná utan um þetta ástand í upphafi og fannst þetta fjarlægt þegar smitaðir voru helst í fjarlægum löndum eins og Kína.

Eftir því sem COVID-19 veiran færðist hinsvegar til Evrópu varð um leið ljóst að óværan myndi ná til okkar hér á Íslandi með ófyrirséðum afleiðingum. Ljósið í myrkrinu er að þjóðin er leidd áfram af afburðafólki þeim Víði, Þórólfi og Ölmu á daglegum baðamannafundum þar sem farið er yfir stöðuna og hvernig við eigum að haga okkur.

Óvissutímar

En því verður ekki neitað að þetta eru miklir óvissutímar og það er eðlilegt að vera áhyggjufullur. En að sama skapi er mikilvægt að leita bjargráða -ef þörf er á- við að halda andlegri sem og líkamlegri heilsu í sem bestu standi miðað við aðstæður. Þetta tekur í hjá öllum og ljóst að flest komum við til með að eiga nákomna sem veikjast, jafnvel deyja af völdum COVID-19

Ég upplifi eins og margir aðrir að hugsanlega sé lífi mínu sé ógnað án þess að hafa í sjálfu sér neinar forsendur til þess eins og staðan er. Ég hef engin einkenni en ég er mjög meðvitaður um stöðu mína en kvíði eðlilega næstu vikum því óvissan mikil. Ég læt þó kvíðan ekki stjórna mínu daglega lífi en Þar sem ég er í áhættuhóp hef ég haldið mig til hlés og látið lítið fyrir mér fara að undanförnu. Við fjölskyldan höfum verið að reyna að finna út úr því í sameiningu hvernig best væri að verja mig fyrir smiti og ýmsir kostir verið skoðaðir.

Þetta er ekki einfalt og það er alls ekki sjálfsagt að híbýli fólks séu hönnuð með þeim hætti að auðvelt sé að setja einn í algjöra sóttkví eða einangrun. Ég geri ráð fyrir að þetta sé viðfangsefni margra heimila þar sem einhver innan heimilis tilheyrir áhættuhóp. Þetta var auk þess ekki sérlega einfalt þar sem fólk á heimilinu vinnur úti og einn unglingur er á heimilinu sem hittir marga yfir daginn í skóla svo dæmi sé tekið.

Fjarbúð í varnarsóttkví

Niðurstaðan varð sú að í gær flutti ég í hús tengdaforeldra minna sem ekki var í notkun þessa stundina þar sem þau fóru í sumarhús til að verja sig gegn smiti. Satt best að segja var það stórundarlegt að „flytja“ að heiman og koma sér fyrir á nýjum stað í sjálfsskipaðri fjarbúð/sóttkví. Þessi COVID-19 veira er ekkert lamb að leika við og því til mikils að vinna ef ég get sloppið ef það er á annað borð mögulegt. Hér verð ég því næstu daga eða vikur eða ég veit ekki hvað en tökum einn dag í einu. Ég geri mér ljóst að þetta verður kannski ekkert auðvelt en ég hef nokkra lengdarmetra af frábærum bókum til að lesa og mikið magn af sjónvarpsrásum þar sem ég get fylgst með okkar fólki þ.e. Ölmu, Víði og Þórólfi. Svo er ég að æfa mig í notkun á myndsamtölum í fjarbúðinni og finnst þau frábær leið til að hafa fólkið mitt nær mér.

- Auglýsing-

Förum eftir leiðbeiningum og hlýðum Víði

Að lokum mæli með því að fólk lesi vel leiðbeiningar á covid.is því þar er sannarlega mörgum spurningum svarað. Þessi ráð eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér enda mikilvægt að vita hvernig forðast á smit:

„Mikilvægast er að þvo sér vel og oft um hendurnar með vatni og sápu í lágmark 20 sekúndur eða nota handspritt. Þegar þú mætir í vinnu eða kemur heim skaltu byrja á að þvo hendur vel og vandlega. Svo er góð regla að forðast náin samskipti við aðra sem eru með einkenni kvefs, eins og hnerra eða hósta og halda sig í minnst tveggja metra fjarlægð. Ef þú þarft að hósta eða hnerra er betra að gera það í olnbogabótina en ekki í hendurnar eða út í loftið. Sýndu sérstaka aðgát við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, s.s. handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðarhúna. Heilsaðu með brosi frekar en handabandi“.

Það er mín trú að við komumst nokkuð langt á þessu og vonandi tekst að koma veiruskömminni fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll eða í það minnsta út í hafsauga.

Verum góð við hvort annað og hlýðum Víði.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-