-Auglýsing-

8 ár

fedgarÍ dag eru 8 ár frá því ég fékk hjartaáfallið mitt. Í dag eru 8 ár frá því að starfsmönnum Landspítala Háskólasjúkrahúss yfirsást að greina rétt og meðhöndla ástand mitt í tíma svo hlaust af varanlegur skaði. Það tók tæp 5 ár fyrir dómstólum að fá úr því skorið að um mistök væri að ræða og var það hafið yfir allan vafa. Í dag er ég með 75% örorku vegna þessa atviks. Í 8 ár hef ég barist fyrir því að fá þetta tjón bætt eins og hægt er fjárhagslega og því er ekki lokið ennþá.

8 ár eru tæp 18% af þeim hluta ævi minnar sem er að baki. Það er fyrirsjáanlegt að þegar loks kemur að því að ég fái þetta tjón bætt fjárhagslega eins og hægt er hafi ég sennilega eitt ríflega 20% af ævi minni í málferli og hark við LSH.

Það er langur tími og það er svo ósanngjarnt að nokkur manneskja þurfi að standa í þvílíku stríði.
Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi geri ég ekki ráð fyrir því að ég sé svo sérstakur að ráðamönnum spítalans hafi þótt þjóðráð að halda mér að verki allan þennan tíma. Ég geri heldur ekki ráð fyrir því að þetta sé eitt af sparnaðarráðum LSH.

Einhverjum kann að finnast ég bitur. Nei ég held ekki en ég verð oft reiður og réttlætiskennd minni misboðið. Ég hef borið gæfu til að eignast góða fjölskyldu og gott líf þrátt fyrir allt og það er ekki sjálfsagt.  Mér finnst samt þegar ég set hlutina í þetta samhengi að læknirinn sem gerði mistökin og allt þetta kerfi hafi stolið frá mér hluta ævi minnar sem ég hefði gjarnan vilja nota í eitthvað annað en hjartabilun í kjölfar læknamistaka.

Í dag tek ég 12 til 15 mismunandi lyf samtals um 20 töflur á dag og hafa þessir skammtar verið nokkuð svipaðir í nokkuð mörg ár. Þetta gerir um 58.400 töflur á átta árum. Fyrir hjartaáfall tók ég engin lyf.

Ég hef gaman af tölum og tölfræði og ég fylgist vel með því hvað pistlarnir mínir sem ég set hér inn á hjartalíf eru mikið lesnir.

- Auglýsing-

Það vill svo til að síðasta árið er mest lesni pistillin á hjartalíf.is pistill sem ég skrifaði fyrir 11 mánuðum síðan. Pistillin heitir missir og á nokkuð vel við á þessum degi. Á þessum 11 mánuðum frá því pistillin var birtur hefur hann verið lesinn 3.420 sinnum eða að meðaltali 310 sinnum í hverjum mánuði eða rúmlega 10 sinnum á dag að meðaltali.

Satt best að segja var ég furðu lostinn þegar ég veitti þessu athygli en um leið óumræðilega þakklátur öllum þeim sem hafa lesið pistlana mína. Takk fyrir mig. 

Hér er hægt að nálgast umræddan pistill um missinn.

Árósum 09.02.2011

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-