-Auglýsing-

5:2 er góð leið og svona lítur vikan út

Vigtin5:2 mataræðið hefur verið gríðarlega vinsælt víða um heim á síðustu misserum. Að þessu sinni beinum við sjónum okkar að því hvernig mér gekk að lifa eftir þessu mataræði fyrir nokkru síðan.  Að lokum kíkjum við á hvernig vikan gengur fyrir sig samkvæmt hugmyndum Mike Mosley sem hefur verið í fararbroddi í því að kynna þetta mataræði.

Stóri kosturinn við 5:2 er að 5 daga vikunnar máttu borða það sem þú vilt en í tvo daga eru takmarkanir og miðað við að konur borði 500 kaloríur en karlmenn 600 kaloríur. Þó virðist vera tilhneiging til þess hjá fólki sem prófar, að það fer að fá löngun til að borða hollari mat í kjölfarið þegar árangur fer að sjást og tala nú ekki um ef fólki líður betur.

Lukka Pálsdóttir á veitingastaðnum Happ gaf út góða bók á sínum tíma með frábærum uppskriftum fyrir þá sem tileinka sér þennan lífsstíl. Auk þess býður Happ upp á að fólk getur keypt matarpakka sem passa vel fyrri föstudagana sem auðvelda fólki lífið til að byrja með.

Sjálfur byrjaði ég á 5:2 mataræði eftir að hafa ráðfært mig við hjartasérfræðinginn minn. Ég hafði lengi rokkað nokkuð í þyngd en yfirleitt verið of þungur en vegna eðlis hjartabilunar minnar á ég erfitt með að stunda hreyfingu að einhverju marki og mataræðið því lykillinn að því að ég haldi mér í æskilegri þyngd og létti mér lífið.

Vísindamenn eru á því að lotufasta eða hlutafasta sé góð fyrir hjartastarfsemina en samkvæmt því sem sérfræðingarnir á Mayo klínikinu segja, geta þeir ekki sagt nákvæmlega af hverju. Sífellt eru hinsvegar að koma fram rannsóknir sem renna stoðum undir gagnsemi lotuföstu.

Persónulega leið mér mikið betur og ég missti tæp 9 kg á nokkrum mánuðum og mín reynsla var að ég léttist um 200 til 300 grömm á viku þó þyngdartapið hafi verið meira í upphafi.

- Auglýsing-

Eins og ég sagði hér að ofan get ég ekki stundað mikla hreyfingu vegna hjartabilunar minnar en reyni að fá mér smá göngutúra til að liðka mig.

Fyrir mig var þetta eins og ég hafi himinn höndum tekið því ég er mikill áhugamaður um mat og matargerð og finnst frábært að geta eldað skemmtilegan mat um helgar án þess að vera með samviskubit yfir því.

Sem dæmi þá fór fastan aðeins úr skorðum um páskana en það er allt í lagi því sveigjanleiki er eitt af því sem er lykilatriði í þessu kerfi. Svo þegar páskarnir voru yfirstaðnir þá byrjaði ég aftur en það skemmtilega við þetta er að þetta eina kíló sem settist á mig um páskana er farið og meira til.

Fyrir mér er það fullkomið að vera ekki með samsviskubit yfir því sem ég borða og hafa sveigjanleika til að hliðra til ef það stendur þannig af sér varðandi frídaga og þessháttar.
Annað sem hefur gerst hjá mér að ég er farinn að borða meira grænt en áður en ég hef í sjálfu sér aldrei verið mikill salat og jurtaríkismaður.

Ég hef nokkrum sinnum byrjað á lágkolvetnamataræði en það hefur ekki hentað mér og ég hef fengið leið á því eftir svona einn mánuð eða svo og fundist það einhæft og mér hefur hreinlega ekki lið vel í þau skipti sem ég hef prófað.

Vikan

Lítum aðeins á hvernig Mike Mosley setur upp vikuna og það helsta sem gerist í líkamanum.

– Á 5:2 mataræðinu þá getur þú borðað það sem þú vilt 5 daga vikunnar. Svo eru tveir dagar þar sem þú fastar, þá borðar þú 500 kaloríur ef þú ert kona, og 600 kaloríur ef þú ert karl.

- Auglýsing -

– Það skiptir ekki máli á hvaða dögum er fastað svo lengi sem þeir eru ekki samhliða og að þú haldir þig við 5:2 hlutfallið.

– Á dögum sem fastað er á þá getur þú innbyrgt allar kaloríurnar í einu, eða dreift þeim yfir daginn. Það eru engar rannsóknir sem skoðað hafa hvort það er áhrifameira hvað varðar þyngdartap að borða allar kaloríurnar í morgunmat eða smátt og smátt yfir daginn.

– Dæmi um 300 kaloríu morgunmat á degi sem fastað er á er tvö hrærð egg með skinku (góð uppspretta próteins), mikið vatn, grænt te og kaffi. Dæmi um 300 kaloríu hádegismat eða kvöldmat er grillaður fiskur eða kjöt með grænmeti.

– Á dögunum sem ekki er fastað þá getur þú borðað það sem þú vilt. Flestir sem prófa þetta, hafa ekki fundið þörf til að háma í sig heldur borða þeir bara venjulega, um 2000 kaloríur á dag sem er ráðlagður dagskammtur fyrir konur (2600 fyrir menn) og höfðu ekki endilega löngun í óhollari mat.

– Þvert á það sem margir halda, þá getur það að fasta verið heilsusamleg leið til að léttast. Það getur minnkað IGF-1 stuðulinn (insulin-vaxtaþáttur 1, sem leiðir til hraðari öldrunar), og líkaminn kveikir í staðinn á DNA viðgerðargenum sem lækka blóðþrýsting, kólestról og blóðsykur.

– Sem stendur þá er ávinningur af því að fasta ekki nægilega staðfestur til þess að læknar mæli almennt með því fyrir alla. Þetta mataræði er ekki hentugt fyrir óléttar konur eða fólk sem er á lyfjum við sykursýki. Öllum þeim sem íhuga það að taka upp mataræði sem inniheldur lotuföstu er ráðlagt að leita til læknis fyrst og vera undir eftirliti á meðan á því stendur.

Hluti efnisins er byggður á pistli Mike Mosleys í Telegraph en annað er byggt á minni eigin reynslu þegar ég fylgdi 5:2 mataræðinu strangt eftir. Ég hef allar götur síðan nýtt mér hlutaföstur reglulega og það skemmtilega við hlutaföstur er að þú getur nýtt þér gagnsemi þeirra á hvaða mataræði sem er.

Björn Ófeigs

Munið eftir að læka við okkur á Facebook

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-