-Auglýsing-

Vilja að nýtt kerfi verði skoðað

Spurningar hafa vaknað um ágæti Sögu-kerfisins sem grundvallar rafrænnar sjúkraskrár á Landspítala, að mati læknaráðs. Öryggi sjúklinga verði haft að leiðarljósi við skoðun laga um persónuvernd.

„SAMHLIÐA skoðun heilbrigðisráðuneytisins á uppbyggingu samræmdrar, rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu og lögum um persónuvernd teljum við mikilvægt að tekin verði ákvörðun um hvort taka eigi upp nýtt kerfi eða gera nauðsynlegar úrbætur á Sögu-kerfinu sem nú er stuðst við en er að okkar mati lélegt,“ segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala og ritari í stjórn læknaráðs sjúkrahússins. Sögu-kerfið er notað til að færa inn klínískar upplýsingar um sjúklinga á spítalanum en rafræn sjúkraskrá samanstendur af mörgum slíkum kerfum sem hvert um sig heldur utan um ákveðna þætti, s.s. niðurstöður myndgreiningar- og blóðrannsókna.

-Auglýsing-

„Reynslan segir okkur að það væri skynsamlegast að taka upp nýtt kerfi “ segir Runólfur.

Læknar hafa bent á að Sögu-kerfið hafi ýmsa vankanta, svo marga að læknaráðið telur að skoða þurfi af fullri alvöru hvort skipta eigi kerfinu út fyrir önnur sem henti þjónustu sjúkrahússins betur.

Á Landspítalanum hefur verið unnið að innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár í mörg ár og hefur ýmsum áföngum þess verkefnis verið náð. Mikið vantar þó enn upp á að rafrænt sjúkraskrárkerfi LSH þjóni starfsemi sjúkrahússins með fullnægjandi hætti, að mati læknaráðsins.

Mikið framfaraskref
„Rafræn sjúkraskrá er að mínu mati og flestra annarra eitt mesta framfaraskref sem stigið hefur verið í heilbrigðisþjónustu Vesturlanda,“ segir Runólfur. Hér á landi hafi verið sett fram háleit markmið um að samtengja sjúkraskrár allra heilbrigðisstofnana. Hins vegar miði verkefninu hægt og margir orðnir óþreyjufullir. „Við sem notum þessi kerfi höfum sýnt þolinmæði því við gerum okkur grein fyrir að þetta er stórt verkefni og dýrt,“ segir Runólfur. Hann bendir á að strax í byrjun hafi margir haft efasemdir um Sögu-kerfið, það hafi upprunalega verið hannað fyrir heilsugæsluna en átti svo að aðlaga starfsemi spítalans. „En árin hafa liðið og það gerist lítið annað en að menn hafa áttað sig á sífellt fleiri vanköntum kerfisins,“ segir Runólfur.

- Auglýsing-

Á sama tíma hafi aðrar þjóðir farið fram úr okkur, m.a. Bandaríkjamenn sem notast við eitt kerfi á landsvísu fyrir þegna sem gegnt hafa herþjónustu, og árangurinn ekki látið á sér standa.

„Við viljum því að málin verði skoðuð gaumgæfilega og ákvörðun tekin um hvort nýta eigi Sögu-kerfið, sem flestir eru mjög óánægðir með, eða að skipta því út. Ef niðurstaðan verður sú að betra sé að skipta um kerfi borgar sig að gera það sem fyrst svo ekki sé eytt meiri fjármunum í lélegt kerfi.“

Sögu-kerfið hefur m.a. verið gagnrýnt fyrir aðgangstakmarkanir sem snúa þó ekki eingöngu að uppbyggingu sjálfs kerfisins heldur fyrst og fremst að þröngum reglum um persónuvernd. Nú eru lög þar að lútandi til endurskoðunar hjá heilbrigðisráðuneytinu. „Okkar skoðun er sú að aðgangur að rafrænni sjúkraskrá eigi að vera greiður þeim fagaðilum sem þurfa á upplýsingunum að halda,“ segir Runólfur. „Við getum vel farið þá leið, sem víða annars staðar hefur verið farin, að náið er fylgst með allri umferð um kerfið og óviðkomandi beittir hörðum viðurlögum. Auðvitað skipta persónuverndarsjónarmið máli en öryggi sjúklinga skiptir þó mestu.“

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

Morgunblaðið 29.01.2008  

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-