-Auglýsing-

Veistu hvað þú vilt þegar á reynir?

Hvað á að ráða læknismeðferð sjúklinga? „Kostnaður í krónum eða hvað er siðferðilega rétt?“ Þessu svarar Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins, fyrir sig í athyglisverðri grein sem birtist í 24 stundum í gær. „Ég segi siðferðið og mat hvers einstaklings á lífsgæðum!“

Spurningin er áleitin. Þeir sem segja að kostnaðurinn eigi að ráða horfa að líkindum út frá reikniformúlum. Ákvörðunin gæti verið önnur ættu þeir sjálfir í hlut. „Fyrir ekki mörgum mánuðum var MND-veikum ekki boðin þjónusta heim ef viðkomandi vildi fá öndunarvél. Semsagt valið var um óásættanleg lífsgæði (bundinn eins og belja á bás inni á stofnun) eða að deyja.“

Guðjón segir að allir hafi valið að deyja. Hann segir að sumir læknar og fagfólk telji sig vita hvað lífsgæði séu, betur en aðrir. Það sé ekki rétt. Hver og einn verði að velja fyrir sig. Og Guðjón hefur valið fyrir sig: „Ég met það sem svo að geti ég ekki haft samskipti við annað fólk, með þeirri tækni sem til er, þá skuli hætta allri meðferð á mér.“ Hann hvetur fólk til að skrá vilja sinn í svokallaða lífsskrá hjá landlæknisembættinu.

Ábending Guðjóns er þörf. Ákvörðunin úthugsuð og erfið. Oft er það svo að á meðan lífið leikur við okkur hugsum við ekki um erfiðleikana; hvað þá endalokin. Enda er það svo að einungis fá hundruð hafa skráð vilja sinn hjá landlæknisembættinu.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir staðfestir það í frétt blaðsins í gær. „Markmiðið með skránni er að fólk geti látið vita af því ef það vill ekki láta halda sér á lífi þegar það er orðið það veikt að það getur ekki tjáð vilja sinn,“ segir hann og bendir á að auðvelt sé að skrá sig. Eyðublað sé á vef embættisins. Í lífsskránni er einnig hægt að tilkynna hvort líffæragjöf er okkur að skapi og tilgreina umboðsmann, einhvern sem við treystum til að sjá um að taka ákvarðanir á ögurstund. Skynsamlegt er að taka sér tíma og ákveða framvinduna. Hún þarf ekki að vera endanleg, því breyta má fyrri ákvörðunum. Ef við segjum engum óskir okkar veit enginn af þeim.
Ákvarðanir þeirra sem reyna ekki vandann á eigin skinni gætu verið okkur þvert um geð.

- Auglýsing-

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir

gag@24stundir.is


24stundir 13.06.2008

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-