-Auglýsing-

Umhugað um öryggi sjúklinga

006aEftirfarandi viðtal birtist í Fréttablaðinu í dag og er tekið af tilefni fimm ára afmælis hjartalif.is.
Björn Ófeigsson fékk hjartaáfall í febrúar árið 2003, aðeins 37 ára gamall. Vegna læknamistaka fékk hann í kjölfarið hjartabilun og líf hans hefur ekki verið samt síðan. “Eftir að ég fékk hjartaáfallið fór ég að leita á Netinu eftir upplýsingum. Ég var ráðvilltur og vildi sökkva mér í upplýsingar en saknaði þess að finna ekki heildstæðan vef með öllum upplýsingum á einum stað,” segir Björn sem stofnaði í kjölfarið vefinn www.hjartalif.is með góðri hjálp konu sinnar, Mjallar Jónsdóttur. Vefurinn er nú fimm ára og hefur fengið viðurkenningar, meðal annars hlotið Íslensku vefverðlaunin sem besti einstaklingsvefurinn árið 2007.

“Hugmyndin var að fólk gæti farið inn á síðuna og dvalið þar í langan tíma. Við erum ekki með marga en vel valda tengla á síður sem við vitum að eru með áreiðanlegar og góðar upplýsingar,” segir Björn. Hann skannar fjölmiðla frá degi til dags og setur inn á vefinn það sem tengist hjartanu. “Síðan skrifa ég mína sögu og hugleiðingar og Mjöll skrifar út frá sjónarhóli aðstandanda, svo fólk fái innsýn inn í heim þeirra líka,” útskýrir Björn. Hann segir ekki aðeins sjúklinga leita á vefnum heldur noti heilbrigðisstarfsfólk hann töluvert.

Birni er umhugað um öryggi sjúklinga þar sem hann lenti sjálfur í læknamistökum. “Ég hef gert svolítið af því að beina sjónum að öryggi sjúklinga. Ég fylgist vel með umræðunni í þessum geira, hef mínar skoðanir og skrifa um þær í pistlum á síðunni,” segir Björn og er gagnrýninn á stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. “Mér hefur fundist athyglisvert að á sama tíma og Landspítalinn er í blóðugum niðurskurði þá ætli menn að setja það á oddinn að sjúkrahúsið verði eitt af bestu háskólasjúkrahúsum í Norður-Evrópu á næstu árum,” segir hann kaldhæðinn.

Líf Björns gjörbreyttist við hjartaáfallið fyrir sjö árum. “Allt mitt líf fór á hvolf og allar þær hugmyndir sem ég hafði um lífið og tilveruna snerust við. Ég verð aldrei samur,” segir Björn. Hann býr í Danmörku nú um stundir þar sem Mjöll, kona hans, er í meistaranámi í sálfræði.

Þau hjónin héldu utan í fyrrasumar og því hefur Björn fengið að kynnast dönsku heilbrigðiskerfi og hvernig er hlúð að sjúklingum eins og honum. Hann segir muninn töluverðan því vegna meiri fjölda sé mun meira í boði.

“Fyrir mig, sem lent hef í mistökum heima á Íslandi, er mikill léttir að koma inn á heilbrigðisstofnun þar sem ekki eru menn sem ég hef dregið fyrir dómstóla. Á Íslandi þekkja allir alla og ef maður hefur eitthvað upp á einhvern að klaga ertu kominn með allt kerfið upp á móti þér,” segir Björn ákveðið.

- Auglýsing-

solveig@frettabladid.is

Fréttablaðið 18.03.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-