-Auglýsing-

Um bráðamóttöku Landspítalans

Undanfarna daga hefur verið allmikil og dagleg umræða í Spegli Ríkisútvarpsins um málefni Landspítalans. Umræðan hefur m.a. snúist um getu bráðamóttöku spítalans til að sinna hlutverki sínu. Reyndar er bráðamóttökunni skipt á fimm staði, almenn bráða- og slysamóttaka í Fossvogi, bráðamóttaka fyrir brjóstverki og kviðarvandamál við Hringbraut, en á Landspítalalóðinni er einnig bráðamóttaka barna, bráðamóttaka vegna kvensjúkdóma og bráðamóttaka geðdeildar. Núverandi umfjöllun hefur þó beinst fyrst og fremst að þeim tveimur fyrstnefndu.

 
Við sameiningu spítalanna um aldamótin var sú ákvörðun tekin að hafa almenna bráðamóttöku á tveimur stöðum. Þetta var gert eftir miklar samræður innan spítalans. Ýmsir, bæði innan spítala og utan, voru á öndverðum meiði við þessa ákvörðun og eru enn. Niðurstaðan byggðist eigi að síður á því að hagsmunir ýmissar annarrar þjónustu, svo sem við skurðsjúklinga og hjartasjúklinga, vægju þyngra en að bráðamóttökunni yrði fyrirkomið á einum stað. Nauðsynlegt er að um þessi mál sé fjallað, enda kemur öllum við hvernig bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu er háttað. Ég held að fullyrða megi að mörgum þætti best að hún væri á einum stað, bæði af faglegum ástæðum og rekstrarlegum. Það kostar heilmikið fé að reka bráðaþjónustu á fimm mismunandi stöðum.

 
Þetta þýðir hins vegar ekki að bráðamóttakan sé ekki hæf til að gegna hlutverki sínu. Í þeirri umfjöllun sem vísað var til hefur komið fram að hin almenna bráðamóttaka geti ekki tekið á móti fleiri en tveimur til fjórum alvarlega slösuðum sjúklingum í einu. Landlæknisembættið hefur verið í tíðu sambandi við starfsmenn og stjórnendur bráðamóttöku Landspítalans á undanförnum árum og áratugum, en málið var kannað sérstaklega aftur nú í vikunni. Breytingar á húsbúnaði bráðamóttökunnar í Fossvogi standa nú yfir sem munu gera mönnum betur kleift að flýta för sjúklinga og stytta biðtíma, en langur biðtími hefur lengi verið einn af Akkilesarhælum þjónustunnar. Unnt er að sinna a.m.k. 10 mjög alvarlega slösuðum og illa höldnum sjúklingum í einu á sex skurðstofum í Fossvogi og fjórum við Hringbraut. Á bráðamóttökunni sjálfri eru um þrír tugir plássa sem unnt er að nota til bráðaþjónustu, verði mikið slys eða stóratburður. Geta spítalans að þessu leyti er mjög sambærileg við flestar hliðstæðar stofnanir í nálægum löndum austanhafs og vestan.

 
Öll umfjöllun um Landspítalann og heilbrigðisþjónustuna yfirleitt er nauðsynleg og af hinu góða. Hins vegar skiptir máli að höfuðborgarbúar fái það ekki á tilfinninguna að þjónustan sé undir tilteknum öryggismörkum, hún er það ekki heldur stenst, eins og áður segir, vel samanburð við hliðstæðar stofnanir annars staðar. Samkvæmt byggingaráformum um nýjan spítala er hins vegar gert ráð fyrir að bráðaþjónustan flytjist undir eitt þak þegar sú bygging rís.

 

Sigurður Guðmundsson

- Auglýsing-

landlæknir

www.landlæknir.is 24.11.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-