Þreyttur læknir er líklegri til þess að gera mistök segir formaður félags almennra lækna á Landspítalanum en allt stefnir í að um 70 þeirra mæti ekki til vinnu um mánaðamótin. Læknarnir eru ósáttir við aukið vaktaálag, sem þeir segja ólöglegt. Öryggi sjúklinga er klárlega ógnað segir formaðurinn.
Deilan snýst um aukið vaktaálag en ný vaktatafla á að taka gildi á spítalanum um mánaðarmótin. Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir formaður almennra lækna segir breytingarnar vera mikla afturför á vinnuumhverfi þessa hóps og við það verði ekki unað. Í dag vinna læknarnir um 48 klukkustundir á viku sem er hámarksvinna, en í nýja fyrirkomulaginu verða stundirnar uppundir 60 á viku.
Þessu fylgir engin kaupaukning og fólk á erfitt með að sætta sig við þetta að sögn Hjördísar. Margir séu jafnvel byrjaðir að hugsa út fyrir landsteinana.
Björn Zoega forstjóri Landspítalans kemur inn á málið í vikulegum pistli sínum á heimasíðu spítalans. Þar segir hann algjörlega nauðsynlegt að sjúklingar þurfi ekki að efast um öryggi sitt og biður fólk um að fara varlega í umræðunni og tilkynna stjórnendum spítalans án tafar telji þeir að öryggi sjúklinga sé ógnað.
www.visir.is 28.03.2010