-Auglýsing-

Súkkulaði bætir blóðflæði

Dökkt súkkulaði hefur jákvæð áhrif á kransæðarnar því nú er vitað að efnið epicathecin, sem finnst í kakóplöntunni, er mjög heilsusamlegt, segir hinn virti svissneski hjartalæknir og prófessor Thomas F. Lüscher.
Daglegt líf hitti Lüscher stuttlega að máli í liðinni viku eftir að hann flutti erindi á fundi Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna. Þar fjallaði Lüscher um samspil æðaþels og kransæðasjúkdóma. Hann talaði um áhrif æðaþels á blóðflögur og æðavegg og áhrif þess á þróun hjartasjúkdóma og meðferð þeirra, en um mjög flókið samspil er þarna að ræða.

Hjartasjúkdómafélag íslenskra lækna bauð Lüscher til landsins í samvinnu við lyfjafyrirtækið Sanofi-aventis. Prófessorinn er yfirlæknir við hjartadeild Háskólasjúkrahússins í Zürich og er jafnframt forstöðumaður hjarta- og æðarannsóknarstofnunar sama háskóla. Hann hefur hlotið margar alþjóðlegar viðurkenningar, m.a. fyrir rannsóknir á starfsemi æðaþels og hlutverki þess í stjórn æðasamdráttar, klumpun blóðflagna, blóðstorku, háþrýstingi, blóðfituröskun og æðakölkun sem og á tengslum grunnrannsókna við nýja þekkingu á kransæðasjúkdómum og hjartabilun. Hann er ritstjóri Evrópuútgáfu Circulation, eins virtasta hjartatímarits heims.

Virkar sem vítamín á hjartað

Þegar spurt er nánar út í heilnæmi súkkulaðisins, segir Lüscher máli sínu til stuðnings að rannsóknir liggi þarna að baki sem kynntar hafi verið á læknaráðstefnu í Chicago. “Á lítilli eyju undan ströndum Panama lifir indjánaættbálkur einangruðu lífi. Félagi minn frá Harvard heimsótti eyjuna og komst að því að hár blóðþrýstingur og hjartaáföll þekkjast vart meðal íbúanna. Hann komst sömuleiðis að því að kakóplantan er veigamikill þáttur í mataræði íbúanna, sem búa til drykk, sem kallaður er drykkur guðs, úr kakóplöntunni, sítrónu og salti.

Líklegast er að andoxunarefnið epicathecin, sem er í talsverðu magni í kakóplöntunni, hafi þessi góðu áhrif á hjartað. Þetta efni virkar eins og vítamín fyrir hjartað. Það víkkar æðar og bætir blóðrennslið. Mest er af efninu í kakóplöntunni sjálfri. Dökkt súkkulaði hefur einnig mikið af þessu virka efni en hvítt súkkulaði ekki. Og eftir því sem dökkt súkkulaði fær meiri meðhöndlun, því minni verða áhrif efnisins. Enn ókostirnir við súkkulaðið er að það inniheldur líka bæði fitu og sykur og því þarf að finna hinn gullna meðalveg í neyslunni þar sem menn eru að reyna að stemma stigu við vaxandi offitu sem ekki er hjartanu holl. Það þarf því að borða súkkulaði í hófi. Alkóhól í hófi er líka talið gott fyrir hjartað, sé það drukkið í hófi. Fari það mikið umfram tvö til þrjú rauðvínsglös á dag fer sú neysla að skaða bæði lifur og heila.”

Að sögn Karls Andersen, formanns Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna, var mikill fengur í því að fá prófessor Lüscher til landsins. Hann kynnti sér starfsemi hjartadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss og Hjartaverndar og kom honum á óvart hversu framarlega svo lítil þjóð stæði í þessum geira. Sérstaklega nefndi hann öldrunarrannsókn Hjartaverndar og hóprannsókn Hjartaverndar sem nær heil 40 ár aftur í tímann. “Greinilegt er að á Íslandi hefur farið fram gott og öflugt rannsóknastarf sem getur haft mikla þýðingu í alþjóðlegu samhengi, sér í lagi nú þegar við horfum fram á hækkandi meðalaldur enda er aldur mjög mikilvægur þáttur í þróun hjarta- og æðasjúkdóma. Líkur á hjartasjúkdómum aukast með hækkandi aldri. Ísland hefur vissa sérstöðu í þessu tilliti.”

- Auglýsing-

Vonir bundnar við stofnfrumur

Að sögn Lüscher hefur gríðarlega margt áunnist á liðnum áratugum í baráttunni við hjartasjúkdóma. “Þegar Dwight Eisenhower forseti fékk hjartaáfall fyrir ríflega 50 árum var dánartíðni af völdum hjartaáfalla 50%. Nú er dánartíðnin komin niður í 5-8%, þökk sé framþróun í nýjum lyfjum og kransæðaútvíkkunum. “Það sem í raun gerist við kransæðastíflu er að það myndast fituskellur á æðaveggi af völdum kólesteróls. Þær þrengja æðarnar og á ákveðnum tímapunkti stíflast æðar og framkalla hjartaáföll sem stundum gera engin boð á undan sér. Eitt megin viðfangsefni framtíðarinnar er að njörva betur niður hvað kyndir undir áföllum af þessu tagi og hvaða fólk er helst í áhættu. Auk þeirra framfara, sem þegar hafa orðið með lyfjum og skurðaðgerðum, lítum við nú björtum augum til stofnfrumna, sem notaðar yrðu til að laga skemmdir í hjartavöðvanum eftir hjartaáfall. Við kransæðastíflu kemst drep í hjartað og hluti af hjartavöðvanum deyr. Þessi nýja aðferð, sem enn er á tilraunastigi, byggist á því að stofnfrumur yrðu teknar úr beinmerg sjúklingsins og komið fyrir í hjartavöðvann til að vonandi framleiða nýjan vef. Við þessa aðferð eru bundnar miklar vonir.”

Dánartíðni lækkaði um 35%

Í Íslandsheimsókn sinni hélt Lüscher fræðsluerindi fyrir lækna ásamt Guðmundi Þorgeirssyni, prófessor og sviðsstjóra lækninga á LSH. Þá gafst íslenskum hjartalæknum færi á að skiptast á skoðunum við prófessor Lüscher um framtíðaruppbyggingu rannsóknarseturs í hjartalækningum við LSH og nýjungar í meðferð kransæðasjúkdóma.

“Hjartalækningar á Íslandi eru í fremstu röð. Það staðfesta árangurstölur á LSH þar sem dánartíðni innan mánaðar frá kransæðastíflu er 5,7%, sem er með því lægsta sem þekkist. Dánartíðnin hér á landi hefur því lækkað um 35% á sl. tveimur árum. Þennan árangur má rekja til bættrar meðferðar kransæðastíflu, sólarhringsvaktar á hjartaþræðingastofu og bættrar lyfjameðferðar. Til að viðhalda og ná svo góðum árangri er mikilvægt að fylgjast stöðugt með nýjungum á sviði hjartalækninga og tileinka sér þau meðferðarúrræði sem rannsóknir sýna að bæta horfur sjúklinga. Heimsókn Lüschers er liður í þeirri þekkingarleit sem og þeim alþjóðlegu samskiptum sem nauðsynleg eru til að íslenskir læknar haldist áfram í fremstu röð,” sagði Karl Andersen.

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur  join@mbl.is

Greinin birtist í morgunblaðinu 15 nóvember 2006

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-