-Auglýsing-

Starfsemi skurðstofa LSH í eðlilegu horfi

EÐLILEG starfsemi verður á skurðstofum Landspítalans eftir að samkomulag náðist í deilu skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga og stjórnenda spítalans á níunda tímanum í gær. Það var ekki seinna vænna því á miðnætti ætluðu 96 hjúkrunarfræðingar að hætta störfum á sjúkrahúsinu. Flestir þeirra ætluðu í gærkvöldi að draga uppsagnir sínar til baka, en þó er ákveðinn hópur, líklega um tíu manns, sem þegar er kominn með aðra vinnu og mun ekki snúa aftur til starfa á spítalanum.

Samkomulagið felur í sér að þær breytingar á vaktafyrirkomulagi sem fyrirhugaðar voru eru ekki lengur til umræðu og að núverandi fyrirkomulag gildi til 1. maí á næsta ári, nema að um annað verði samið.

Stíf fundahöld
Í gær funduðu deilendur stíft og kom heilbrigðisráðherra að samingaviðræðunum. Bæði var fundað í heilbrigðisráðuneytinu með trúnaðarmönnum sem fóru svo á fundi með hjúkrunarfræðingunum í húsnæði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og létu vita af stöðu mála. Þannig gengu viðræður allt þar til samkomulag náðist á níunda tímanum í gærkvöldi. Samkvæmt því verður unnið að innleiðingu vinnutilskipunar ESB í samráði allra aðila og vinnuhópur skipaður í þeim tilgangi. Í yfirlýsingu frá stjórnendum spítalans segir: „Virða ber ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem innleiða m.a. vinnutímatilskipun ESB. Skal í því skyni settur vinnuhópur um útfærslu á vaktaskipulagi. Vinnuhópurinn skal skipaður einum skurðhjúkrunarfræðingi og einum svæfingarhjúkrunarfræðingi og tveimur einstaklingum tilnefndum af stjórnendum spítalans auk oddamanns sem heilbrigðisráðherra tilnefnir. Vinnuhópurinn skal skila greinargerð á tveggja mánaða fresti til heilbrigðisráðherra. Stefnt er að því að vinnuhópurinn komist að samhljóða niðurstöðu eigi síðar en um næstu áramót.“

Vonast eftir vinnufriði
„Við ætlum að vinna að þessu máli með opnum huga og vona að það verði góður vinnufriður,“ segir Elín Ýrr Halldórsdóttir, talsmaður skurðhjúkrunarfræðinga. „Því það er ekki hægt að vera stöðugt í einhverjum átökum, það nennir því náttúrlega ekki neinn til lengdar.“

Spurð hvort hún hefði viljað að ráðherrann hefði komið fyrr að málinu svarar Elín Ýrr: „Ég hefði náttúrlega viljað að þetta mál hefði verið allt öðru vísi. En núna snúum við nefinu fram og reynum að vinna úr því sem við höfum og ég held að við höfum alla möguleika á að komast að einhverri góðri niðurstöðu.“

Erla Björk Birgisdóttir, trúnaðarmaður skurðhjúkrunarfræðinga, segir velflesta hjúkrunarfræðingana sátta við niðurstöðuna.

- Auglýsing-

„Við erum tilbúin að skoða það hvernig hægt er að fylgja þessari vinnutímatilskipun betur og fáum að taka þátt í þeim umræðum.“

Hún viðurkennir þó að hún hafi ekki verið bjartsýn fram eftir degi að þessi niðurstaða næðist. „En eftir aðkomu ráðherra að málinu og hans sáttarhönd þá jókst bjartsýnin.“

Hún segir samstöðu meðal hjúkrunarfræðinganna hafa orðið til þess að viðunandi niðurstaða náðist.

„Þetta er ótrúlegt fólk sem ég vinn með, það var samstaðan okkar á milli sem skilaði þessum árangri. En samstaðan hefði ekki verið fyrir hendi ef ekki hefði verið svona mikið í húfi.“

Spurð hvort hún telji að samkomulagið nái að lægja þá ólgu sem er meðal hjúkrunarfræðinga á spítalanum svarar hún: „Við erum seinþreyttar til vandræða og ætlum ekki að erfa neitt við neinn. Við höfum alltaf óskað eftir vinnufriði og við teljum að þetta samkomulag sem við gerðum við stjórnendur sé grundvöllur til þess.“

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segir að þótt útlitið hafi ekki verið bjart í fyrrakvöld hafi hann alltaf haldið í vonina, verið bjartsýnn á að málið leystist þótt tíminn væri naumur, með það í huga að mál hafi oft fengið farsælan endi á síðustu metrunum. Margir hafi lagt hönd á plóg og samvinnan hafi skilað þessum árangri.

Mogunblaðið 01.05.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-