Sjúklingurinn

Bjössi 2012Björn ÓfeigssonÞessi hluti síðurnnar er tileinkaður fólki eins og mér og öllum öðrum sem áhuga hafa á því að fræðast eða lesa sér til. Efnið sem er hér inni sést á stikunni hér til hliðar og þar er að finna “mitt hjartalíf” sem eru pistlar sem ég hef skrifað um sögu mína og það sem brunnið hefur á mér i gengum tíðina. Annað efni eru upplýsingar sem ég og Mjöll höfum safnað saman og gert aðgengilegt fyrir þig lesandi góður.

Allt efni sem ég skrifa hér set ég fram eins og ég skil það en tek fram að ég er ekki læknir eða vísindamaður, heldur bara ofur venjulegur Björn.  Ég var þrjátíu og sjö ára gamall þegar ég fékk hjartaáfall. Vegna mistaka við greiningu mína og meðferð við innlögn á spítala varð útkoman heldur verri en efni stóðu til og hef ég síðan glímt við hjartabilun og aðrar efleiðingar þess.

Leið mín til lífsgæða var löng. Við tóku þónokkur ár í leit að jafnvægi og viðeigandi meðferð Mörgum hjartaþræðingum, einni stórri opinni hjartaaðgerð, þrjár ferðir til Svíþjóðar til að kanna hvort tími væri kominn á hjartaskipti og á köflum var þetta erfið barátta. Straumhvörf urðu í júní 2016 þegar græddur var í mig tveggja slegla gangráður. Á þeim þeim tíma sem liðinn er hafa miklar breytingar átt sér stað og ég er að lifa lífsgæði sem voru mér ansi fjarlæg fyrir ekki svo mörgum árum.

Ég og Mjöll höfum þá köllun að deila með fólki reynslu okkar af því að lifa með hjartasjúkdóm og því hvernig við höfum leitast við að skapa okkur lífsgæði þrátt fyrir ýmsa heilsufarslega annmarka. Það er bjargföst trú okkar að upplýsingar séu leiðin að góðri aðlögun og því mikilvægar öllum þeim sem ganga svipaða leið og við.

Það er von mín að hér á síðunni fáir þú notið stuðnings sem ert hjartveikur, fáir skilning sem ert aðstandandi hjartasjúklings og þekkingu sem ert fræðimaður. Það er von mín að sagan okkar geri gagn.