-Auglýsing-

Sjúkdómsbyrði á Íslandi

LandlæknisembættiðTæp 8% sjúkdómsbyrði landsmanna stafa af kransæðasjúkdómum og um 3% eru vegna heilablóðfalla. Þessir sjúkdómar valda nú rúmlega 22% allra ótímabærra dauðsfalla borið saman við tæp 30% árið 1990.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vekur á hverju ári í apríl athygli á ákveðinni heilsuvá í tilefni af stofndegi samtakanna 7. apríl 1948. Í ár er athygli beint að háum blóðþrýstingi en hann veldur mikilli sjúkdómsbyrði og dauðsföllum um allan heim.

Nýjustu niðurstöður um sjúkdómsbyrði í heiminum (e. Global Burden of Disease) voru birtar í desember 2012. Rannsóknin tekur til hundruða sjúkdóma, slysa og áhættuþátta fyrir sjúkdóma í 187 löndum í heiminum og þróun þeirra á tímabilinu 1990 til 2010.

Niðurstöður hennar varpa ljósi á hversu stóran þátt langvinnir og ósmitnæmir sjúkdómar (e. non-communicable diseases), og þá sérstaklega hjarta- og æðasjúkdómar, eiga í dauðsföllum og sjúkleika. Valda kransæðasjúkdómar um 5% sjúkdómsbyrði allra jarðarbúa og um 7% ótímabærra dauðsfalla.

Þegar staðan á Íslandi er sérstaklega skoðuð kemur í ljós að tæp 8% sjúkdómsbyrði landsmanna er vegna kransæðasjúkdóma og um 3% vegna heilablóðfalla. Aftur á móti valda þeir rúmlega 22% allra ótímabærra dauðsfalla borið saman við tæp 30% á árinu 1990.

Því bera þessar tölur vitni um að Íslendingar hafi náð verulegum árangri í forvarnarstarfi og meðferð þessara sjúkdóma á þessu 20 ára tímabili. Helstu áhættuþættir fyrir þá sjúkdóma sem valda mestri sjúkdómsbyrði á Íslandi eru tengdir næringu, ofþyngd, tóbaksreykingum og háum blóðþrýstingi.

- Auglýsing-

Háþrýstingur

Hár blóðþrýstingur, einnig þekktur sem hækkaður blóðþrýstingur eða háþrýstingur, hrjáir meira en einn af hverjum þremur fullorðnum um heim allan. Öllum er hætt við of háum blóðþrýstingi og oft er talað um háþrýsting sem hljóðlátan dauðvald þar sem hann veldur sjaldan einkennum fyrr en í óefni er komið og aðrir fylgikvilla eru farnir að gera vart við sig. Fólk getur haft hækkaðan blóðþrýsting árum saman án þess að finna fyrir honum en einkenni geta þó verið höfuðverkur, svitaköst, hraður púls, andnauð, svimi og sjóntruflanir.

Örsök háþrýstings eru oft óþekkt og geta erfðir eða aðrir sjúkdómar spilað þar inn í. Hægt er að draga úr líkum þess að fá of háan blóðþrýsting með reglulegri hreyfingu og hollu mataræði og með því að minnka saltneyslu og forðast tóbaksnotkun og óhóflega notkun áfengis.

Háþrýstingur gefur til kynna of mikið álag á æðakerfið. Ef hækkun er á blóðþrýstingi þarf hjartað að hafa meira fyrir því að dæla nægjanlegu magni blóðs til allra vefja líkamans. Háþrýstingur er einn helsti áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma. Hann eykur einnig hættuna á nýrnabilun og orsakar æðakölkun. Háþrýstingur er því alvarleg viðvörun um að brýn þörf sé á lífsstílsbreytingum og jafnvel reglubundu lækniseftirliti eða meðferð.

Blóðþrýstingur er mældur með tveimur gildum. Annars vegar efri mörk, sem mæld eru þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í æðarnar, og neðri mörk, sem tekin eru þegar hjartað hvílist milli samdrátta. Ef blóðþrýstingurinn mælist í hvíld yfir eða jafnt 140 í efri mörkum og/ eða yfir eða jafnt og 90 í neðri mörkum er um að ræða háþrýsting.

Blóðþrýstingsmæling er eina leiðin til að greina háþrýsting. Blóðþrýstingsmælingu er m.a. hægt að fá á heilsugæslustöðvum, hjá Hjartavernd og í mörgum apótekum. Í apótekum fást einnig blóðþrýstingsmælar sem ætlaðir eru til notkunar í heimahúsum eða á vinnustöðum.

Geir Gunnlaugsson
landlæknir

Af vef Landlæknisembættisins

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-