-Auglýsing-

“Ekki samboðið sjúklingum á Íslandi árið 2007”

LÆKNARÁÐ ályktaði nýverið að framkvæmdastjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) þyrfti að sjá til þess að gangainnlagnir kæmu framvegis ekki til álita í starfsemi spítalans. Formaður læknaráðs segir málið snúast um einkalíf sjúklinga og öryggismál spítalans sjálfs.

“Leguplássum á spítalanum hefur fækkað umtalsvert á síðustu árum og vegna plássleysisins eru sjúklingar lagðir inn á gangana,” segir Þorbjörn Jónsson, formaður læknaráðs. Hann segir slæmt að sjúklingar, oft alvarlega veikir, þurfi að liggja á göngum þar sem friðhelgi einkalífs þeirra sé afar takmörkuð og gestir og gangandi eigi leið hjá. “Þetta getur líka verið mjög bagalegt ef hættuástand skapast á viðkomandi deild. Ef t.d. þarf að rýma húsnæðið vegna bruna eða þá að koma þarf tækjum inn á stofur vegna bráðatilfella getur þetta tafið verulega fyrir,” segir Þorbjörn.

Í ályktun læknaráðs segir að nauðsynlegt sé að yfirvöld fjármála og heilbrigðismála bregðist við með afgerandi hætti og heimili úrlausnir til bráðabirgða með annaðhvort nýbyggingum eða útvegun húsnæðis í námunda við sjúkrahúsið. Alvarlegur húsnæðisvandi sjúkrahússins geti ekki beðið óleystur þar til nýtt sjúkrahús hafi verið reist. Þorbjörn segir að sjúklingar safnist á bráðamóttökur spítalans þar sem ekki sé pláss á deildum. Mögulegar lausnir á vandamálinu séu að stækka rými spítalans eða að fjölga hjúkrunarrýmum þannig að útskrifa megi sjúklinga fyrr af deildum spítalans. “Sjúklingar á bráðamóttöku komast ekki inn á deildirnar og er þá annaðhvort komið fyrir á göngum bráðamóttöku eða á göngum yfirfullra deilda,” segir Þorbjörn.

“Það hefur þekkst lengi hér á landi að leggja sjúklinga inn á gangana. Þetta hefur hins vegar ágerst síðustu ár og er ekki samboðið sjúklingum á Íslandi árið 2007.” Árið 1999 voru legupláss á spítalanum 1259 en í fyrra voru þau orðin 860. Þorbjörn segir að vissulega hafi læknavísindunum farið fram og þar með ætti þörfin að vera minni en þessi fækkun endurspegli ekki þær framfarir.

Eftir Gunnar Pál Baldvinsson

gunnarpall@mbl.is

- Auglýsing-

Morgunblaðið 03.06.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-