-Auglýsing-

Opnari umræðu um atvik og óhappatilvik

bjornofeigssonmyndBjörn Ófeigsson barðist í átta og hálft ár við kerfið og hlaut loks sigur fyrir dómstólum en hann fékk ranga greiningu og meðferð á spítala með þeim afleiðingum að hjarta hans hlaut varanlegar skemmdir. „Núna í febrúar eru liðin tíu ár frá því að ég fékk hjartaáfall. Ég fékk ranga greiningu á spítalanum og það liðu 8 klukkustundir frá því að ég kom inn á spítalann og fékk rétta meðhöndlun. Það gerði það að verkum að á hjartanu varð óbætanlegur skaði sem kippti undan mér lífinu. Ég hef ekki getað unnið venjulega vinnu síðan því hjartað á mér vinnur ekki í fullum afköstum. Ég get svona dundað mér hérna heima, en ekki mikið meira en það,“ segir Björn.

„Það er mikið áfall að lenda í slíku atviki og ennþá erfiðara fyrir þær sakir að í upphafi er enginn sem leiðbeinir hvað á að gera næst. Að standa í stappi við embættismenn svo árum skiptir er lýjandi, sérstaklega þegar það er haft í huga að kerfið virðist hafa tilhneigingu til að túlka vafaatriði spítala eða lækni í hag. Það var erfitt að taka við greinargerð sem yfirstjórn spítalans lét yfirlækna gera að því er virtist í þeim tilgangi einum að gera lítið úr veikindum mínu og gera persónu mína ótrúverðuga. Slíkt er ekki leggjandi á venjulegt fólk.

Björn hefur því átt þátt í stofnun félagsins Viljaspor ásamt formanni félagsins, Auðbjörgu Reynisdóttur. Félagið veitir stuðning og leiðbeiningar um hvaða leiðir er hægt að fara til að leita réttar síns í málum sem þessum. „Tilgangur félagsins er að þeir þolendur atvika eða óhappatilvika sem verða fyrir skaða verði leiðbeint inn í kerfið en félagið beitir sér ekki í einstökum málum. Auk þess mælum við með því að hlutverk sjúklingatryggingar verði víkkað út og hún verði notuð til að bæta þeim tjón sem orðið hafa fyrir slíku, það ferli á að vera einfalt, gagnsætt og umfram allt fljótlegt,“ segir Björn.

„Ég vonast til þess að félagið geti stuðlað að því að þeir þolendur sem þurfa að leita til Landspítalans, Landlæknis, annarra stofnanna og eða dómstóla fái þar góðar móttökur og stjórnsýslan leiðbeini þessu fólki þannig að mál þess fái góðan og faglegan framgang í kerfinu.“

„Breski landlæknirinn talaði á ráðstefnu árið 2007 um mistök í heilbrigðisþjónustu og ef niðurstaðan úr erlendum rannsóknum er heimfærð yfir á Ísland lenda 2500 manns í einhverju atviki eða óhappatilviki á sjúkrastofnun á Íslandi á hverju ári,“ segir Björn. „Til stóð að gera sambærilega rannsókn hér á landi en því var frestað í kjölfar hrunsins. Matthías Halldórsson, þáverandi landlæknir, sagði á þessari ráðstefnu, sem mér fannst athyglisvert, að það væri kominn tími til að opna umræðuna um þessi mál hér á landi og taka þyrfti á þeim með öðrum hætti. Það þyrfti að horfast í augu við þá staðreynd að svona atvik eiga sér stað. Landlæknir sagði það líka mikilvægt, þegar slíkt eigi sér stað, að greina sjúklingi frá því, skýra út það sem gerst hefur og biðjast afsökunar,“ segir Björn.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir

- Auglýsing-

sigridur@frettatiminn.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-