-Auglýsing-

Opið bréf til velferðar og fjármálaráðherra.

LSH 060Við hjúkrunardeildarstjórar á bráðalyflækningardeildum Landspítalans við Hringbraut viljum skora á velferðar- og fjármálaráðherra að bregðast sem fyrst við uppsögnum hjúkrunarfræðinga með viðunandi hætti. Hver dagur sem líður skiptir sköpum. Landspítalinn er háskólasjúkrahús og sjúkrahús allra landsmanna, þar er veitt flókin, dýr og sérhæfð meðferð. Hjúkrunarfræðingar útskrifast eftir fjögurra ára háskólanám og við tekur afar krefjandi starf. Eftir því sem starfsreynsla þeirra eykst verður sérhæfingin oft meiri, sem er einn af lykilþáttum hvað varðar öryggi í meðferð og umönnun sjúklinga.

Við efnahagshrunið á Íslandi voru gerðar miklar kröfur um sparnað á Landspítala en á sama tíma jókst vinnuálag. Þrátt fyrir þetta hafa hjúkrunarfræðingar lagt sig fram um að veita sjúklingum örugga og góða þjónustu. Við undirritaðar höfum undanfarið fundið fyrir vaxandi þreytu hjúkrunarfræðinga á þessu viðvarandi ástandi sem ríkir á Landspítala og óánægju með að þeir fái ekki laun í samræmi við mikla ábyrgð og álag.

Miklar afleiðingar

Meirihluti þeirra hjúkrunarfræðinga sem nú hafa sagt upp eru reynslumiklir og er fyrirséð að brotthvarf þeirra mun hafa miklar afleiðingar fyrir starfsemi Landspítala. Margir þessara hjúkrunarfræðinga eru nú þegar að leita sér að annarri vinnu hér á landi eða erlendis. Það virðist vera mjög auðvelt að fá vinnu annars staðar og eftir því sem tíminn líður stækkar sá hópur sem ekki hyggst koma aftur til baka til starfa á Landspítala. Uppsagnirnar munu taka gildi 1. mars og þegar sá dagur rennur upp er mikil hætta á að sjúklingar á Landspítala fái ekki þá lágmarksþjónustu sem þeir þurfa.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í faglegu starfi á deildum á undanförnum árum og í nokkur ár hefur náðst undraverður árangur í rekstri spítalans m.a. vegna þess að stöðugildi hjúkrunarfræðinga hafa verið vel mönnuð og því hægt að draga úr aukavöktum og yfirvinnu. Ef af uppsögnunum verður er þessi stöðugleiki fyrir bí og loka þarf deildum og sameina aðrar sem við sjáum ekki ganga upp þar sem spítalinn er full nýttur nú þegar.

Við skipuleggjum alla þjónustu sem veitt er út frá hagsmunum sjúklinga og því höfum við af þessu miklar áhyggjur. Þetta mál verður að leysa. Allir þeir aðilar sem koma að þessu máli verða að finna farsæla lausn á þessu svo ekki skapist hættuástand.

- Auglýsing-

Við sem þjóð ættum að sameinast í því að hafa góða og örugga heilbrigðisþjónustu því öll þurfum við á þessari þjónustu að halda á einhverjum tímapunkti lífs okkar.

Bylgja Kærnested hjúkrunardeildarstjóri hjartadeild
Kristjana G. Guðbergsdóttir hjúkrunardeildarstjóri blóðlækningadeild
Halldóra Hálfdánardóttir hjúkrunardeildarstjóri krabbameinslækningadeild
Hildur Þóra Hallbjörnsdóttir hjúkrunardeildarstjóri meltingar og nýrnadeildar

Fréttablaðið 23.01.2012

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-