-Auglýsing-

Nýr og agnarsmár gangráður til Íslands

Þræðingatæki
Þræðingatæki

Landspítali hefur tekið í notkun nýja tegund af hjartagangráð sem er agnarsmár og settur inn með þræðingartækni gegnum nára en ekki skurðaðgerð eins og vanalegt er.

Gangráðurinn er frá fyrirtækinu Medtronic og er Landspítalinn eitt af völdum sjúkrahúsum í heiminum til að taka hann í notkun. „Gangráðsaðgerðir eru mjög algengar og við setjum inn um 300 gangráða árlega hér á Landspítala,“ segir Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á spítalanum.

Gangráðar samanstanda af tæki með tölvu og rafhlöðu sem komið er fyrir undir húð á brjóstkassa og tengist tækið hjartanu með leiðslum sem eru lagðar gegnum bláæðar. Þeir gagnast fyrst og fremst þeim sem eru með leiðslutruflanir í hjarta sem stuðla að hægum púls.

Ný og byltingarkennd tækni

Stór og lítill gangráður
Stór og lítill gangráður

Gangráðar eru alla jafna settir inn í skurðaðgerð, þar sem stuðst er við skyggnilýsingu til að koma leiðslunum á réttan stað í hjartanu, segir Davíð, en gangráðstækninni hefur fleygt fram á síðustu árum. Nú sé að koma á markað mjög lítill gangráður sem komið er fyrir beint í hjartanu. „Þessi nýja tækni er nokkuð byltingarkennd og í raun ótrúlegt hvað tekist hefur að smækka gangráðana og viðhalda sömu eiginleikum,“ segir hann en rafhlaða nýja gangráðsins dugi í tólf til fimmtán ár, sem er ívið meira en hjá hefðbundnum gangráð.Nýi gangráðurinn hefur komið vel út úr prófunum og nú er búið að taka hann til notkunar á nokkrum sjúkrahúsum á heimsvísu, þar með talið á Landspítala.

Komið beint fyrir í hjartanu

Sigfús Gizurarson, sérfræðingur í hjartalækningum, hefur haft forystu um að taka þessa nýju tækni upp hérlendis. „Þetta er veruleg breyting frá hefðbundnum gangráð, þessir nýju eru mun minni, tengjast beint á hjartavöðvann og tæknin við að setja þá inn er einfaldari,“ segir Sigfús en ekki þurfi lengur að gera skurðaðgerð heldur sé allt gert í gegnum þræðingatækni með stungu á bláæð í nára.„Gangráðsleiðslur hafa hingað til kannski verið veikasti hlekkurinn í gangráðskerfinu en með þessari nýju tækni verður ekki lengur þörf á þeim,“ bætir hann við en sýkingarhætta ætti eins að vera minni ef gangráðnum er komið fyrir beint í hjartanu en ekki undir húð.

Enn sem komið er henta þessir nýju gangráðar bara völdum hópi sjúklinga þar sem frumútgáfan er eingöngu til notkunar í neðri hólfum hjartans en ekki hvorum tveggja eins og oftar er þörf fyrir. Það er þó verið að þróa tæki til að nota í efri hólfum hjartans og verða þá tækin tvö að geta átt samskipti sín á milli. Það eru sennilega ekki nema tvö til þrjú ár þangað til það getur orðið að veruleika.“

- Auglýsing-

Gangráðsísetningar eru gerðar á hjartaþræðingarstofu, segir Davíð, en verið sé að innrétta nýja hjartaþræðingarstofu á spítalanum.

„Það hefur að mörgu leyti tekist að bæta vel úr aðstöðu og tækjakosti hjartalækninga en örar tækniframfarir og gríðarleg umsetning sjúklinga með hjartavandamál þýðir að við megum alls ekki slá slöku við.“

Morgunblaðið 17.03.2016

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-