-Auglýsing-

Neyðin spyr ekki um verð

Lýður Árnason skrifar um heilbrigðisþjónustu: Líftóran er flestum sem enn hafa hjartans mál. Á Íslandi er hún lengri en víðast annars staðar og eldri borgurum fjölgar. Fyrirtaks heilbrigðisþjónusta á sinn sess í þessari þróun og viðheldur eigin tilvist með vaxandi þörf. Hún einskorðast þó ekki við ellina því öndvert við það sem margir héldu hefur upplýsingaöldin ekki fært okkur aukna sjálfsbjörg, þvert á móti. Flóðbylgja framtíðarinnar samanstendur því af öllum aldurshópum, óháð stað og stöðu. Boltinn er reyndar þegar byrjaður að rúlla og vindur hratt upp á sig.

Enn halda margir stjórnmálamenn dauðahaldi í ríkisrekstur heilbrigðisþjónustunnar og sjá fyrir sér deyjandi fátæklinga á gluggum verði því breytt. Telja ójafnræði þegnanna endurspeglast í einkarekstri sem hygli sérlega líftóru borgunarmanna. Samstiga þessum sjónarmiðum er nýjasta útspil heilbrigðisráðherra, ókeypis aðgangur barna að heilsugæslustöðvum sem lýtur að rétti allra óháð efnahag að sækja börnum sínum læknisþjónustu. Þessu skrefi er fagnað og telst til góðverka ríkisstjórnarinnar. En er það svo? Myndi einhver úthýsa bráðveiku barni eða útiloka frá nauðsynlegri læknishjálp? Ég sé það ekki fyrir mér. Reynslan sýnir hinsvegar að fjöldi manns notfærir sér ókeypis þjónustu og gildir einu hvort um er að ræða lækni eða almenningssalerni. Og þá erum við komin að kjarnanum: Neyðin spyr ekki um verð.

Þó aurar tryggi engum lengri líftóru geta þeir aukið líkur og hægindi. Fjallajeppi, einkaþjálfari, utanlandsferðir, heimahjúkrun, einkalæknir, lífverðir, nudd, sundlaug, sálfræðingur, frítími, stuðtæki, lyf, líkamsrækt, einkasjúkrahús, allt í boði en ekki allra. Eigum við að banna auðmönnum að hafa hjartastuðtæki heima til að jafna lífslíkurnar?

Heilbrigðisþjónusta er dýr. Málaflokkurinn hefur lengi verið í viðjum en er nú að sprengja af sér klakaböndin. Því er mikilvægt að ráðamenn nútíðarinnar taki rétta ákvörðun fyrir notendur framtíðarinnar. Hlaup er í ánni og stíflan þarf að halda. Skynsamlegast væri að minnka rennslið og veita allri þjónustu sem ekki telst neyð í aðra, markvissari farvegi. Þannig skapast svigrúm sem tryggir jafnan aðgang allra að neyðarþjónustu. Hin leiðin, sem kristallast í nýju hátæknisjúkrahúsi, er ófær og ekki bara vegna kostnaðar og fyrirsjáanlegra rekstrarvandræða heldur gengur hún gersamlega á skjön við þarfir framtíðarinnar. Umræðan um staðsetningu þessa draugahúss er hlægileg en líkanið flott. Látum þar staðar numið.

Höfundur er heilbrigðisstarfsmaður.

Morgunblaðið 14.03.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-