-Auglýsing-

Neyðarástand verði af yfirvinnubanni

Sumar deildir beinlínis háðar því að hjúkrunarfræðingar séu viljugir til að vinna aukavinnu svo unnt sé að sinna bráðaþjónustu, segir Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir aðstoðarhjúkrunarforstjóri LSH.

VERÐI yfirvinnubann hjúkrunarfræðinga að veruleika mun ríkja neyðarástand á Landspítalanum (LSH). Þetta segir Álfheiður Árnadóttir, formaður hjúkrunarráðs LSH, og undir það taka aðrir hjúkrunarfræðingar af ólíkum deildum spítalans. Álfheiður segir ekki annað í stöðunni en að loka þurfi deildum og fækka aðgerðum og verði spítalinn þá rekinn eingöngu fyrir bráðatilfelli.

Í apríl sl. voru 1.045 hjúkrunarfræðingar í almennum störfum hjá LSH, þ.e. ekki í stjórnunarstörfum, og af þeim var einungis tæpur fimmtungur skráður með 100% starfshlutfall. Langflestir, eða rúm 40%, eru með minna en 80% starfshlutfall. Nánast allir hjúkrunarfræðingar taka þó nokkurn fjölda aukavakta í hverjum mánuði þannig að ljóst er að þeir vinna mun meir en kveður á um í ráðningarsamningi þeirra.

Taka aukavaktir af skyldurækni
Að sögn Elsu B. Friðfinnsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH), er meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga 77% en þeir séu undir miklum þrýstingi til að taka aukavaktir umfram það sem þeir vilja. Hún segir starfshlutfall í ráðningarsamningi hvers og eins hjúkrunarfræðings ekki skipta miklu máli – fólk í 100% vinnu taki jafnmikið af aukavöktum og aðrir. „Fólk tekur þessar aukavaktir vegna þess að það er þrábeðið um það og gerir það þá vegna þess að það veit hvernig ástandið er annars á deildinni ef enginn mætir. Þetta er af skyldurækni og nauðsyn.“

Í fyrra var farið í gegnum starfshlutföll starfsmanna, m.a. hjúkrunarfræðinga, og kom þá í ljós að nokkrir voru skráðir með afar lágt starfshlutfall, eða undir 50%, en voru komnir í yfir 100% vinnu með aukavöktum. Skv. heimildum blaðsins voru þessir einstaklingar með yfir hálfa milljón í laun. Að sögn Guðrúnar Bjargar Sigurbjörnsdóttur, aðstoðarhjúkrunarforstjóra LSH, var talað við þessa einstaklinga, sem greinilega gátu verið skráðir með hærra starfshlutfall en raun bar vitni, og á þetta ekki að vera til staðar í dag.

Guðrún Björg segir sumarið vera erfitt tímabil þar sem margir séu í fríi. Meiri yfirvinna sé því unnin á sumrin. Hún telur að manna þurfi 50-60 aukavaktir á hverjum sólahring en Álfheiður segir töluna vel geta farið í 100 yfir sumartímann.

- Auglýsing-

Á næstunni munu meðlimir FÍH kjósa um yfirvinnubannið. Úrslitin verða að öllum líkindum tilkynnt eftir rúmar tvær vikur. Styðji félagsmennirnir bannið mun það taka gildi 10. júlí nema það takist að semja.

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is

Morgunblaðið 07.06.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-