-Auglýsing-

Morfínmók

iStock 000005782232XSmallMorfín er gefið til að lina verki en of mikið af því góða getur haft þau áhrif að viðkomandi sjúklingur getur orðið ansi ruglaður. Þetta varð raunin með Bjössa dagana eftir aðgerðina 2004. Á þriðja degi eftir aðgerð var hann alveg úti úr heiminum og svo fór þetta að renna af honum.

Laugardagurinn 12. júní 2004

Við Jónsi vöknuðum kl. 8:30 af því pabbi Bjössa var á leiðinni í bæinn að kíkja á Bjössa. Hann kom rétt fyrir 9 og ég ekki alveg viss hvernig ég ætti að hella upp á kaffi fyrir hann. Ohh ég verð að læra þetta! Ég er nú fullorðinn… held ég… Ég hringdi uppeftir til að heyra af Bjössa og sjá hvort við mættum ekki örugglega koma. Þá var bara allt í klessu. Hann var svo rosalega lyfjaður að hann hafði eitthvað misst það í nótt og vissi ekkert í sinn haus. Þær höfðu komið að honum frammi á gangi þar sem hann var búinn að rífa allt úr sambandi og ætlaði bara að fara. Þær rétt gripu hann áður en hann hrundi í gólfið á ganginum. Ég held að hann hafi eitthvað verið að æsa sig líka við hjúkkurnar og þær þurftu að sitja yfir honum í lok nætur og fram á morgun. Hann hélt víst að hann væri í Rússlandi og að það væri verið að reyna að drepa hann. Við fengum samt að koma af því Ófeigur var búinn að keyra í bæinn og þurfti að fara strax aftur.

Við komum á spítalann um 9:30 um morgunin og þá var hann rólegur í rúminu en ótrúlega út úr því. Hann þekkti okkur alveg en átti í erfiðleikum með að halda sér vakandi og var mjög vankaður. Hann bullaði bara og það ranghvolfdust í honum augun. Það var ekkert hægt að tala við hann svo Ófeigur settist bara hjá honum smá stund og hélt í hendina á honum og talaði við hann þegar hann opnaði augun. Sem var ekki lengi í einu. Hann var allavega rólegur. Við fórum svo og ég keyrði Jón huga á Eyrarbakka til pabba síns svo ég gæti setið yfir Bjössa. Var komin aftur um hádegið og þar sat ég allan daginn og fram á kvöld.

Dagurinn gekk vel. Bjössi var voða ljúfur en ruglaður. Hann sagðist treysta mér. Fyrst ég var þarna þá væri þetta í lagi og líklega myndu þá Rússarnir ekki drepa hann! Hann var samt alltaf á leiðinni fram úr svo ég þurfti alltaf að segja honum aftur og aftur hvar hann væri svo hann fattaði að hann þyrfti að vera kyrr. Hann er ótrúlegt ljúfmenni og hann hlýddi mér alltaf þó hann skyldi örugglega ekkert í því hvað væri að gerast 🙂 Svo var það þetta með að handhækka og handlækka rúmið… draga til lakið og laga koddann og sængina og svo framvegis… Halló! Hvar eru rafmagnsrúmin? Skil í alvörunni ekki hvernig þær hefðu farið að þarna á deildinni ef ég hefði ekki verið þarna til að halda honum í lagi. Enda þorði ég ekki fram til að pissa og lét vita í þau fáu skipti sem ég skaust á klóið!

Ég verð að viðurkenna að ég var að verða pínu reið yfir aðstöðunni og afskiptaleysinu. Mér fannst það líka ansi súrt að þrátt fyrir að ég stæði í hjúkrunarstörfum allan daginn, þá var ekki gert ráð fyrir mér þarna á deildinni. Ég var ekki bara hjá honum sem aðstandandi þarna, ég sinnti honum allan daginn og passaði að hann færi sér ekki að voða, maðurinn var algerlega út úr því og þurfti stanslausa umönnun. Samt gat ég ekkert fengið að borða eða drekka og enn og aftur fannst mér ég hverfa, ekki gert ráð fyrir mér. En nóg um það.

- Auglýsing-

Hann Bjössi spurði mig allt í einu þarna um miðjan dag hvort það væri ekki bara fín hugmynd að við myndum flytja á Selfoss. Svo fór hann að tala um að hann hefði hitt stúlknakórinn sem hefði verið hérna áðan 🙂 Ég spurði hann hvort það hefði í alvörunni verið stúlknakór á spítalanum og fattaði hann þá að það gæti eiginlega ekki passað og sagði, “hmm nei kannski las ég bara grein um þær… en það var góð saga”.

Ég var ekkert smá heilluð af honum þennan daginn. Hann var eitthvað svo skapgóður við mig og indæll þó hann væri allur í klessu og geðlæknir búinn að kíkja á hann til að gefa honum lyf á móti lyfjaverkuninni sem hafði greinilega verið dálítið svæsin! Hann var rosalega aumur í líkamanum en ekki með mikla verki enda búinn að vera á fílsskömmtum af morfíni. Bara erfitt að liggja svona á bakinu endalaust. Þarna var ákveðið að hann fengi ekki meira morfín enda hafði nánast verið um ofskömmtun að ræða. Hann fékk hins vegar parkódín núna. Hann var mikið lyfjaður þennan dag en átti alltaf svona stundir inn á milli þar sem mér fannst hann í lagi. Hann starði upp í loftið og spurði hvort þetta væri loftið sem hann væri að horfa á og hvort hann væri í Reykjavík. Hann vissi allan daginn ekkert hvar hann var staddur eða að hann var veikur.

Svanhildur föðuramma sótti Jónsa fyrir mig á Eyrarbakka og kom með hann á spítalann. Hann fékk að sjá Bjössa smá svo hugmynd hans í hausnum yrði ekki að meiru en raunveruleikinn væri. Best að halda þessu ekkert frá honum, bara útskýra og eyða óvissu. Við fórum svo heim að sofa og ég ákvað að hafa ekki áhyggjur af Bjössa á meðan og njóta þess að vera með Jóni Huga og láta hann sjá og finna að hann hefði mig hjá sér.

Sunnudagurinn 13. Júní 2004

Bjössi náði ágætum svefni í nótt. Vaknaði samt meira en í gær og undir morgun var hann að skýrast. Þegar ég hringdi um kl. 9 þá var mér sagt að hann væri allur að koma til. Sigrún systir Bjössa kom að ná í Jón Huga og ég fór niður eftir. Hann var einhvern veginn miklu meira vakandi og meira hann sjálfur í framan! Hann var dálítið pirraður á því að liggja svona endalaust á bakinu. Hann vildi komast á fætur.

Arna sjúkraþjálfari kom og gerði öndunaræfingar með honum á stól. Snillingurinn stóð upp með aðstoð og settist á stól og burstaði tennurnar sjálfur og ég þvoði honum í framan, undir höndunum og á bakinu. Það fannst honum gott. Hann varð samt fljótt þreyttur og vildi leggjast aftur.

Loksins bar nöldrið árangur og hann fékk rafmagnsrúm 🙂 Þvílíkur munur. Hann var samt svo ruglaður að hann var alltaf flakkandi upp og niður í rúminu. En þetta samt breytti greinilega miklu fyrir hann því honum leið mun betur að liggja eftir að hann fékk þetta rúm.

Bjössi drekkur ágætlega en borðar lítið. Hann fékk frekar ógirnilegt kjöt og kartöflur í hádeginu (sem ég skil ekki að sé sent til manns sem þarf að borða en matarlystin ekki upp á marga fiska) Hann borðaði svona 4-5 bita en fannst hins vegar ísinn á eftir frábær og borðaði hann allan. Hann er smávegis þreyttur og móður og á erfitt með að finna sér góða stöðu til að vera í. Reyndi að snúa sér á hliðina en líkaði það illa. Reyndar var það vinstri hliðin sem er skiljanlega erfitt að liggja á svona fyrst á eftir, prufum hægri næst. Hann dottar inn á milli sem hann reynir að koma sér betur fyrir. Honum finnst eiginlega allt óþægilegt en þó er betra að geta breytt stellingunni með hjálp rafmagnsrúmsins. Hann ákvað að vera kominn á stjá á miðvikudaginn…

- Auglýsing -

Þegar leið á daginn þá leið honum einhvern veginn allt í einu verr og verr og svo allt í einu um kl. 16 þá var hann orðinn eins og hann væri að fá hita eða eitthvað, var ör og leið illa. Púlsinn rauk upp og liðið mætti allt inn á hlaupum! Ég man nú ekki hvað púlsinn fór í en það var á þriðja hundraðið minnir mig. En einhvern veginn þá róaðist ég við þetta tilfelli þó ég væri auðvitað hrædd því ég sá þarna að fólk bara brást við og tókst á við þetta og allt lagaðist aftur. Ég sá þarna að þó ég væri búin að vera örlítið ein að sinna honum þá væri starfsfólkið þarna með allt á hreinu og það bregst við ef eitthvað gerist. Það var gott.

Mjöll Jónsdóttir hjartamaki

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-