-Auglýsing-

Milljarðalán til LSH ef áætlanir standast

„Þetta samkomulag stendur og fellur með því að við höldum rekstri spítalans innan fjárheimilda í ár,” segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Spítalinn og heilbrigðisráðuneytið hafa skrifað undir samkomulag um fyrirgreiðslu til að rétta af halla síðustu ára. Síðastliðin tvö ár hefur LSH greitt hátt í 500 milljónir króna í dráttarvexti.

Lánið nemur 2,8 milljörðum króna og er vaxtalaust. Skilyrði fyrir lánveitingunni er að rekstur spítalans verði innan fjárheimilda árið 2010.

Samkvæmt milliuppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung er LSH innan fjárheimilda. Björn telur hallalausan rekstur skýra hvers vegna stjórnvöld eru tilbúin til að skuldbinda sig til að veita lánið, þótt það sé vissulega skilyrt.

„Það er í raun glórulaust að hafa borgað þessa dráttarvexti vegna hallans sem hefur myndast. Það er illa farið með peninga þótt það hafi heldur ekki verið raunhæft að spítalinn gæti skorið niður til að mæta þessu,” segir Björn.

Landspítalinn hefur skipulega greitt niður vanskil við birgja og þjónustuaðila að undanförnu. Í fyrsta skipti í langan tíma er spítalinn því í skilum við sína viðskiptamenn. Ekki hefur komið til málaferla vegna vanskila en Björn dregur ekki dul á það að ný staða létti á öllum, ekki bara spítalanum. „Þetta er búið að setja marga í erfiða stöðu. Fyrirtækin, sem ekki hafa fengið greitt, hafa þurft að sækja dýrt fjármagn inn í bankana til að halda sér gangandi.”

Til að setja fjárhæðir í rekstri LSH í samhengi þá jafngilda 500 milljóna króna dráttarvaxtagreiðslur rekstri tveggja legudeilda í eitt ár. Eins greiðir LSH 70 milljónum meira í dráttarvexti á ári en spítalinn fær til tækjakaupa á fjárlögum ársins 2010.

- Auglýsing-

Unnið hefur verið að lausn síðan í janúar 2009 en hallinn, sem nemur þeirri upphæð sem greinir frá í samkomulaginu, er að stærstum hluta tilkominn vegna gengisáhrifa eftir hrun. Áætlun um endurgreiðslu lánsins mun liggja fyrir í lok ársins. Í samkomulaginu er því jafnframt lýst yfir að ráðuneytið endurskoði samkomulagið í ljósi fjárlaga ársins 2011.

Björn segir samkomulagið aðgerð sem varð að grípa til. „Þetta er skilyrði fyrir því að við náum tökum á rekstrinum; að vera ekki að burðast með þennan fortíðarvanda.”

svavar@frettabladid.is

www.visir.is 06.05.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-