-Auglýsing-

Mettuð fita eða ómettuð?

ÓlífuolíaMettuð fita hefur verið mikið í umræðu meðal sérfræðinga að undanförnu. Niðurstöður nýrrar allsherjargreiningar (meta-analysis) sem birtust  í Annals of Internal Medicine  17. mars síðastliðinn hafa valdið deilum meðal fræðimanna, en í henni voru skoðuð áhrif mismunandi fitusýra (úr fæðu, fæðubótarefnum og blóðfita) á áhættu hjarta- og æðasjúkdóma.

Þegar rannsakendur báru saman þá sem borðuðu mest af mettaðri fitu við þá sem neyttu minnst var ekki marktækur munur á áhættu hjarta- og æðasjúkdóma. Sú var ekki heldur raunin þegar bornir voru saman þeir sem neyttu annars vegar mikils og hins vegar lítils af ein- og fjölómettaðri fitu.

-Auglýsing-

Niðurstaða rannsakenda var sú að það væru ekki nægjanlega sterk vísindaleg rök til að styðja við ráðleggingar sem hvetja til mikillar neyslu á fjölómettuðum fitusýrum og lítillar neyslu á mettuðum fitusýrum.

Ný rannsókn hefur fengið mikla gagnrýni

Þessi rannsókn hefur fengið mikla gagnrýni (Kupferschmidt 2014;Morenga et al. 2014) og í ljós komu villur og voru í kjölfarið birtarleiðréttingar. Sú gagnrýni sem meðal annars hefur komið fram er að auk villna sem komu upp við flutning frumgagna hafi mikilvægum rannsóknum verið sleppt, sérstaklega rannsóknum á fjölómettaðri fitu.

Einnig er bent á að ekki komi fram hvað þeir sem drógu úr neyslu á mettaðri fitu borðuðu í staðinn, hvort það voru fínunnin kolvetni eða hollari fita. Ekki var heldur getið um fyrri rannsóknir, m.a. kerfisbundið yfirlit Jakobsen et al. 2009 og allsherjargreiningu (meta-analysu)Mozaffarian et al. 2010, sem sýna að það hefur ekki jákvæð áhrif að taka mettaða fitu úr matnum og borða fínunnin kolvetni í staðinn. Hins vegar dregur það úr líkunum á hjarta- og æðasjúkdómum að skipta út hluta af mettuðu fitunni fyrir fjölómettaða fitu.

- Auglýsing-

Skiptir tegund fitu máli, hvað segja sérfræðingar HSPH?

Í framhaldi af birtingu niðurstaðnanna í mars og umfjöllunar um þær, boðuðu sérfræðingar við Harvard School of Public Health til pallborðsumræðna meðal næringarsérfræðinga undir yfirskriftinni „Mettuð fita eða ekki: Skiptir tegund fitu máli?” Fyrirlestra sem þar voru fluttir og niðurstöðu umræðnanna má sjá á heimasíðu HSPH. Niðurstaða þeirra var sú að þegar kemur að heilsufarslegum áhrifum af mismunandi fituneyslu þá skiptir máli hvað kemur í staðinn þegar ein tegund af fitu er tekin úr matnum. Að draga úr neyslu á mettaðri fitu getur verið gott fyrir heilsuna ef henni er skipt út fyrir holla fitu, sérstaklega fjölómettaða fitu. Ef hins vegar koma fínunnin kolvetni í staðinn fyrir mettuðu fituna geta áhrifin verið skaðleg. Þar að auki þarf að hugsa um gæði matvæla, þar á meðal uppruna fæðunnar og fæðumynstur frekar en næringarefnin ein og sér.

Nýjar norrænar næringarráðleggingar

Norrænar næringarráðleggingar, NNR 5, voru kynntar síðastliðið haust. Þær voru unnar af vinnuhópi á vegum Norrænu embættismanna-nefndarinnar um matvæli (Nordic Committee of Senior Officials for Food Issues, EK-FJLS) og tóku yfir hundrað sérfræðingar þátt í endur-skoðuninni sem byggir á gagnreyndum aðferðum við að meta sambandið milli neysluvenja og áhrifa á heilsu.

Í NNR5 er lögð áhersla á mataræðið í heildina frekar en einstök næringarefni. Mælt er með mataræði sem einkennist af mat úr jurtaríkinu, sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi,  t.d. dökkgrænu blaðgrænmeti, káli, lauk, baunum og ertum, rótargrænmeti, ávöxtum og berjum, hnetum og heilkornavörum, ásamt fiski og fituminni mjólkur- og kjötvörum en takmarkaðri neyslu á unnum kjötvörum, sykri, salti og áfengi.

Lögð er áhersla á gæði fitu og kolvetna frekar en heildarmagn. Mælt er með að skipta út hluta af mettaðri fitu fyrir ómettaðar fitusýrur (bæði fjölómettaðar og einómettaðar) en þannig má minnka áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta má gera með því að takmarka neyslu á kexi, kökum, sælgæti og snakki, skipta út feitum kjöt- og mjólkurvörum fyrir fituminni vörur og nota olíur í staðinn fyrir smjörlíki og smjör.

Hvernig má auka hlut hollrar fitu í fæðunni?

Hægt er að auka hlut hollrar fitu í fæðunni með því að borða feitan fisk, s.s. lax, bleikju, lúðu, síld, lárperur (avókadó), hnetur og taka lýsi. Einnig þarf að huga að gæðum kolvetna því ekki er æskilegt að borða fínunnin kolvetni í staðinn fyrir mettaðu fituna heldur neyta frekar heilkornavara, ávaxta og grænmetis og draga úr neyslu á fínunnum kolvetnum, þ.e. hvítu hveiti, hvítu pasta, hvítum hrísgrjónum, fínum brauðum sem eru trefjalítil og sykurmiklum mat.

- Auglýsing -

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar

Ítarefni:

Norrænar næringarráðleggingar 2012
Association of dietary, circulating, and supplement fatty acids with coronary risk: a systematic review and meta-analysis, grein eftir Chowdhury o.fl.
Leiðrétting á ofangreindri grein
Scientists Fix Errors in Controversial Paper About Saturated Fats, grein eftir Kai Kaupferschmidt
A new review on dietary fats: Putting its findings in context, grein eftir Morenga o.fl.
Saturated or not – does type of fat matter? Harvard School of Public Health, The Nutrition Source
Höldum þeim góða árangri sem náðst hefur í mataræði þjóðarinnar, grein á heimasíðu Embættis landlæknis 2013.
Mataræði og kransæðasjúkdómar á Íslandi, grein eftir Gunnar Sigurðsson og Laufeyju Steingrímsdóttur í Morgunblaðinu 2014.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-