-Auglýsing-

Með útgjaldahnífinn á lofti á spítölunum

Erfiður samdráttur í útgjöldum á Landspítalanum verður ekki sársaukalaus. Ráðamenn spítalans vona þó að biðlistar lengist ekki mikið og heita óskertri og öruggri bráðaþjónustu.

Stefnan í flestum vestrænum löndum hefur um árabil verið að fækka löngum og dýrum innlögnum í heilbrigðiskerfinu en leggja meiri áherslu á göngudeildir og heimahjúkrun. Ástæðan er augljós: sólarhringsrúmin eru svo erfið vegna mannahaldsins, vaktavinna að næturlagi og um helgar er óhemjudýr. Þess vegna er þessi leið farin þrátt fyrir andmæli margra fagstétta. Og oft sjúklinganna sem segja ófagrar sögur af því að þeim sé fleygt heim þótt þeir séu í reynd mjög veikir.

Nú þarf Landspítalinn að minnka útgjöld um 3,2 milljarða á næsta ári. En ráðamenn segja að allt verði gert til að niðurskurðurinn komi sem minnst niður á þeim sem starfsemin snýst um: sjúklingum. Allir sem þurfi raunverulega bráðahjálp, t.d. vegna kransæðastíflu eða annarra lífshættulegra áfalla, fái hana.

Deildirnar eru ólíkar, um 90% kostnaðar á geðdeildum eru launaútgjöld, annars staðar er hlutfallið mun lægra. Geðdeildirnar hafa haldið sig innan fjárlagaramma síðustu árin og ekki verður auðvelt að skera þar mikið niður en samt verður það reynt, að sögn Páls Matthíassonar, framkvæmdastjóra geðsviðs.

Legurúmum fækkaði um tuttugu á lyflækningasviði um mánaðamótin en þess í stað var dagdeildarplássum fjölgað. Innlögnum fækkar á hjartadeild, aðrar legudeildir munu í staðinn þurfa að taka meira til sín af innlagnarsjúklingum.

En biðlistar munu lengjast og ljóst er að starfsfólki verður eitthvað fækkað, tekjur hinna sem eftir verða minnka vegna minni yfirvinnu og álag eykst. Guðrún Friðjónsdóttir, trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga á hjartadeild, þar sem sólarhringsrúmum verður fækkað um 10 niður í 32, segir ljóst að breytingin merki stóraukið álag á starfsmenn. Sama segja talsmenn sjúkraliða.

- Auglýsing-

Legurúmum fækkað mjög frá sameiningunni árið 2000
Anna Lilja Gunnarsdóttir, sem er framkvæmdastjóri fjármálasviðs, segir aðspurð að ef til vill hefði mátt grípa til ákveðinna sparnaðaraðgerða enn fyrr. En hún samþykkir ekki að óþarfa fitulag hafi myndast í áranna rás, þ. e. kostnaður sem auðveldlega hefði mátt forðast. Hins vegar sé margt hægt að gera á ódýrari hátt. Ýmislegt sem fyrir fáeinum árum var mjög flókið, dýrt og hættulegt sé nú orðið mun einfaldara, hún nefnir botnlangaskurð sem dæmi. Og áður hafi konur legið á sjúkrahúsi í viku eftir barnsburð sem varla þekkist lengur. Betra sé nú almennt talið að fara sem fyrst heim og liggja ekki óþarflega lengi á spítala.

Stóru sjúkrahúsin tvö í Reykjavík voru sameinuð árið 2000 og síðan hefur sólarhringsrúmum, sem eru stór útgjaldaliður vegna mannahalds, verið fækkað úr um 1.300 í 800.

„Sparnaðurinn er geysimikill við að fækka legurúmum en fer nokkuð eftir deildum. Ef við erum með opið frá átta að morgni til 20 þá sparast launakostnaður um kvöldið og nóttina, allur vaktakostnaðurinn og auk þess er lokað yfir alla helgina,“ segir Anna Lilja Gunnarsdóttir.

Biðlistar lengjast
Biðlistar vegna hjartaþræðinga og annarra aðgerða á spítalanum munu nú vera afar stuttir, tekist hefur á síðustu árum og mánuðum að ráða að miklu leyti bót á þeim vanda. Í nokkur ár hefur ekki verið neinn biðlisti eftir t.d. krabbameinsaðgerðum

Framkvæmdar hafa verið mun fleiri hjartaþræðingar síðustu árin enda eftirspurnin aukist, m.a. vegna betri greiningartækni en áður, og má heita að nær engin bið sé eftir slíkum aðgerðum. Enn eru þó biðlistar vegna liðskiptaaðgerða í hnjám og mjöðmum og einnig vegna augasteinsaðgerða; tíminn getur verið nokkrir mánuðir.

En viðmælendur blaðamanns voru sammála um að niðurskurðurinn myndi mjög líklega valda því að biðlistar færu aftur að lengjast þar sem óhjákvæmilegt væri að fækka sumum aðgerðum.

Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is

Morgunblaðið 04.12.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-