-Auglýsing-

Mataræði, hjartað og lýðheilsufræði

Er nema von að maður verði ringlaðurÍ janúar 2014 birtum við pistil sem vakti athygli. Umfjöllunarefnið var meðal annars pistill sem birtist í Bresku læknatímariti eftir lækni að nafni Dr. Aseem Malhotra. Svo skemmtilega vill til að hann er einn af fyrirlesurunum sem tala á Foodloose ráðstefnuninni sem haldin verður í Hörpu næstkomandi fimmtudag. En hér kemur pistillinn sem skrifaður var af Axel F. Sigurðssyni hjartalækni og er allrar athygli verður. 

Við höfum næstum óendanlega valkosti þegar kemur að því að velja það sem við leggjum okkur til munns. Við getum borðið afurðir bæði úr jurta-og dýraríkinu, fisk, kjöt, ávexti, grænmeti, ferskar matvörur, unnar matvörur, brauð, súkkulaði, egg, fitu eða sykur. Valið er endalaust. Meltingarfæri okkar eru fjölhæf og sýna ótrúlega hæfni til að bregðast við ýmsum óvæntum gestum. Við erum ekki eins og risaeðlurnar forðum daga sem annað hvort voru kjötætur eða jurtaætur. Maðurinn er alæta

Hin mikla fjölbreytni sem ríkir í matvælaúrvali á vesturlöndum gerir okkur lífið þó ekki alltaf auðveldara. Mikið úrval getur skapað valkvíða. Flest okkar vita að við eigum helst ekki bara að borða það sem okkur finnst gott. Við þurfum að tryggja að við fáum öll tilskilin næringarefni og alþekkt er að sumur matur er “hollari” en annar. Hvar hollustuna er að finna liggur þó ekki alltaf í augum uppi. Þetta “lúxusvandamál” vesturlandabúa tekur Banadaríkjamaðurinn Michael Pollan fyrir á skemmtilegan hátt í bók sinni “The Omnivore Dilemma” eða “Ógöngur alætunnar”. Meginþema bókarinnar er spurningin; “Hvað eigum við að hafa í kvöldmat?” Einföld spurning þótt Pollan takist að gera svarið einstaklega flókið.

Lýðheilsa og leiðbeiningar um mataræði

Lýðheilsufræði eru vísindi sem fjalla um hvernig fyrirbyggja á sjúkdóma og bæta heilsu með aðferðum sem ná til samfélagsins alls eða samfélagshópa. Í ljósi þess að mataræði hefur afgerandi áhrif á heilsu okkar er ekki að undra að þeir sem hafa þann starfa að huga að lýðheilsu skuli hafa skoðun á því hvað við eigum að borða. Alþekkt er að lýðheilsuyfirvöld á vesturlöndum gefa reglulega út leiðbeiningar um mataræði til þegna samfélagsins í því skyni að bæta heilsu samfélagsins.

Í ljósi þess að hjarta-og æðasjúkdómar hafa verið algengasta dánarorsökin á vesturlöndum um árabil er ekki að undra að opinberar leiðbeiningar um mataræði hafi beinst mest að því að draga úr vægi þessarra sjúkdóma í samfélaginu. Flest okkar þekkja boðskap lýðheilsuyfirvalda í þessu samhengi. Ríkuleg áhersla hefur verið lögð á að draga úr neyslu mettaðrar fitu. Þessi fita er oft nefnd hörð fita og er hana helst að finna í dýraríkinu, aðallega í kjöti og mjólkurvörum. Þá hafa þessar ráðleggingar oftast hvatt til ríkulegrar kolvetnaneyslu þót yfirleitt alltaf sé varað við mikilli neyslu á unnum sykri. Þessar ráðleggingar hafa fengið stuðning virtra samtaka lækna-og næringarfræðinga víða um heim.

- Auglýsing-

Nýlega ritaði ungur breskur hjartalæknir Asheem Malhotra grein í hið virta breska læknatímarit, British Medical Journal þar sem hann tekur þessi efni til umfjöllunar. Grein Malhotra hefur vakið mikla athygli þótt ekki sé að finna þar mikinn nýjan sannleik. Greinin bergmálar hins vegar raddir sem hafa gerst sífellt háværari um að lýðheilsuyfirvöld séu á villigötum þegar kemur að leiðbeiningum um mataræði.

Ljóst er að margir fræðimenn eru ósammála Malhotra. Hins vegar er athyglsivert að rödd hans hefur fengið áheyrn í svo virtu læknisfræðitímariti því oftast hafa þeir sem gagnrýnt hafa ríkjandi leiðbeiningar og kenningar þurft að tjá sig á öðrum vettvangi.

Fitur og hjartað

Fræðimenn eru almennt sammála um að transfita, sem oft er að finna í skyndimat, kexi, kökum og smjörlíki, auki líkur á hjarta-og æðasjúkdómum. Malhotra bendir hins vegar á að “þulan” um að minnka þurfi neyslu á mettaðri fitu hafi verið megináhersluatriði í leiðbeiningum lýðheilsuyfirvalda um mataræði um áratugaskeið. Athyglisvert er að í bæklingi Lýðheilsustöðvar um mataræði frá 2006 er mettuð fita og transfita sett í sama flokk sem er afar villandi og beinlínis rangt eins og áður hefur verið bent á hér.

Malhotra telur að ráðleggingar um að draga úr neyslu mettaðrar fitu hafi beinlínis aukið hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá telur hann einnig að ofuráhersla lýðheilsuyfirvalda á að lækka kólesterólmagn í blóði hafi leitt til þess að milljónir manns séu að óþörfu meðhöndlaðir með blóðfitulækkandi lyfjum.

Meginástæða þess að mettuð fita hefur verið talin auka líkur á hjarta-og æðasjúkómum er að neysla slíkrar fitu er talin hækka magn LDL-kólesteróls (“vonda” kólesterólið) í blóði. Malhotra bendir hins vegar á að neysla mettaðrar fitu hækki magn stórra LDL-prótína á meðan það séu fyrst og fremst lítil LDL-prótín sem auki hættuna á hjartasjúkdómum. Magn lítilla LDL-prótína aukist hins vegar við ríkulega kolvetnaneyslu.

Malhotra bendir á þekkta samantekt á rannsóknum á neyslu mettaðrar fitu sem ekki bendir til þess að slík neysla auki hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá bendir hann á að neysla unninnar kjötvöru sé líklegri til að tengjast aukinni hættu á hjarta-og æðasjúkdómum en neysla á rauðu kjöti eða feitum mjólkurvörum.

Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið…..

- Auglýsing -

“Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið svo gott…”, syngur Mary Poppins þessa dagana á fjölum Borgarleikhússins. Auðvitað er um líkingamál að ræða og endurspeglar textinn tilraunir Mary Poppins til að fá Banks fjölskylduna til að skilja mikilvægi gleðinnar og þess að sameinast í leik. Athyglisvert er þó að við skulum sjá samlíkingu með sykri og gleði en það er hins vegar eitthvað sem gosdrykkjaframleiðendur eins og Coca Cola hafa nýtt sér óspart um áratuga skeið. Hamingja og glaðværð fylgir þeim sem drekka gosdrykkinn fræga, a.m.k. ef dæma má af auglýsingunum.

Malhotra bendir á að þegar lýðheilsuyfirvöld hvöttu til minni fituneyslu hafi matvælaframleiðendur neyðst til að framleiða fitusnauð matvæli. Leiðin sem þeir notuðu til að bragðbæta slíka matvöru hafi verið að bæta í hana sykri. Malhotra telur nýlegar vísindaniðurstöður benda til þess að sykurneysla auki sterklega líkur á offitu,efnaskiptavillu, háþrýstingi, blóðfituröskunum og sykursýki.

Hjarta-og æðasjúkdómar – mikilvægi kólesteróls

Það er liðin rúm hálf öld síðan fyrst var bent á tengsl hækkaðs kólesteróls við hættuna á kransæðasjúkdómi. Síðan þá hefur margt breyst. Í dag hafa tveir þriðju þeirra sem fá kransæðastíflu merki um efnaskiptavillu. Um þrír fjórðu þessarra sjúklinga hafa eðlilegt kólesterólmagn í blóði. Malhotra telur að hátt kólesteról sé ekki meginvandi þessarra einstaklinga.

Malhotra talar tæpitungulaust þegar kemur að notkun blóðfitulækkandi lyfja (statin-lyf). Statin-lyf eru mest ávísuðu lyfin í Bandaríkjunum og standa undir iðnaði sem veltir svo háum upphæðum að tilgangslaust væri að nefna þær hér. Í Bretlandi eru um 8 milljónir manns á statin-lyfjum. Malhotra telur að minni tíðni reykinga og tilkoma bráðra kransæðavíkkana eigi meiri þátt en statin-lyf í lækkandi dánartíðni vegna hjarta-og æðasjúkdóma.

Þá bendir Malhotra á nýlega rannsókn á 150.000 einstaklingum sem sýndi háa tíðni aukaverkana meðal einstaklinga sem taka statin-lyf. Þessi tíðni er mun hærri en lyfjafyrirtækin almennt gefa í skyn og mun hærri en margir læknar gera sér grein fyrir.

Ýmsir hafa bent á að gagnsemi statin-lyfja er afar lítil þegar þau eru gefin heilbrigðum einstaklingum í fyrirbyggjandi tilgangi. Hins vegar sýndi nýleg rannsókn að Miðjarðarhafsmataræði getur lækkað hættu á hjarta-og æðaáföllum um 30 prósent meðal einstaklinga með aukna áhættu. Áhrif Miðjarðarhafsmataræðisins á dánartíðni eru um þrisvar sinnum meiri en áhrif statin-lyfja í rannsóknum á svipuðum hópum einstaklinga.

Malhotra telur að kúvending núverandi leiðbeininga um mataræði sé nauðsynleg til að koma réttum skilaboðum til almennings. Núverandi leiðbeiningar hafi þegar valdið skaða og ýtt undir offitufaraldurinn sem nú herjar á þjóðir vesturheims.

P.S. Ekki gleyma að læka við okkur á Facebook 

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-