Á síðustu dögum hefur verið rætt um loftgæði og svifryksmengun í Reykjavík en hún hefur verið stórkostlegt vandamál að undanförnu hér á Reykjavíkursvæðinu. Borgin hefur kennt um útblæstri bifreiða og notkun á nagladekkjum.
Loftmengun í borginni hefur sprengt alla skala í froststillunni á fyrstu dögum janúarmánaðar. Síðdegis í gær fór styrkur köfnunardíoxíðs, sem stafar frá útblæstri bíla, í átjánda sinn á þessu ári yfir klukkustundarheilsuverndarmörk.
Haft er eftir Hjalta Má Björnssyni yfirlækni bráðalækninga á bráðamóttökunni að fleiri frá heilablóðfall og hjartaáfall í mikilli loftmengun líkt og verið hefur í borginni að undanförnu. Hann segir stjórnvöld þurfa að grípa inn í. Áætlað er að um sextíu manns látist á hverju ári á Íslandi vegna mengunar. „Það er ekki augljóst eins og beinbrot eða þess háttar heilsutjón, en við sjáum aukna tíðni í heilablóðföllum og hjartaáföllum, sem kemur skýrt fram í faraldsfræðilegum rannsóknum,“ segir Hjalti.
Rannsóknir
Í þessu ljósi er athyglisvert að skoða rannsókn frá Skotlandi um áhrif loftmengunar á hjartabilaða.
Í rannsókninni sem unnin var við Háskólann í Edinborg komust vísindamenn að því að jafnvel lítilsháttar snerting við loftmengun auki innlagnir á spítala og stuðli að hækkaðri dánartíðni hjá hjartabiluðum. Rannsóknin náði til 12 landa og nærri fjögurra milljóna hjartabilaðra einstaklinga.
Dr. Anoop Shah, vísindamaður í Edinborg, þar sem rannsóknarsetur Bresku hjartasamtakanna (BHF) er staðsett segir: „Við vissum fyrir að loftmengun tengist aukinni hættu á hjartaáföllum. Rannsóknin bendir til að loftmengun hafi líka áhrif á sjúklinga með hjartabilun. Við fundum sterk tengsl á milli snertingar við loftmengun, innlagna á sjúkrahús og dauðsfalla af völdum hjartabilunar”.
Áhrifin eru mest vegna agna sem fylgja útblæstri bifreiða. Sem dæmi má nefna að í Bretlandi myndi takmörkun á magni hættulegra agna í andrúmslofinu hugsanlega geta lengt ævilíkur um allt að átta mánuði.
Haft er eftir Joseph Clift starfsmanni Bresku hjartasamtakanna, „það er mikilvægt að stjórnvöld í Bretlandi komi til móts við markmið Evrópusambandsins um loftgæði. Ávinningurinn kæmi sér ekki bara vel fyrir hjartabilaða heldur myndi þetta einnig leiða til lækkunar á kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið og bæta efnahag þjóðarinnar í heild sinni“.
Ekki fylgir sögunni hvort nagladekk voru notuð í þeim löndum þar sem málið var skoðað en það verður þó að teljast ólíklegt. Það er hinsvegar ljóst að notkun þeirra hér á landi hefur ekki góð áhrif á loftgæði og þar með heilsu landsmanna.
Björn Ófeigs.