-Auglýsing-

Lágfitu-, lágkolvetna- eða Miðjarðarhafsmataræði?

Hreint mataræði og fjölbreytni er lykilatriði.

Mataræðið er mikilvægt fyrir okkur og líklegt má telja að mörgum okkar finnist við þurfa að ná betri tökum á því eða í það minnsta taka til. Auk þess eru margir þurfa að ná tökum á blóðsykrinum eða eru að glíma við annars konar heilbrigðisvandamál þar sem mikilvægt er að skoða mataræðið. En við erum ekki öll eins og þess vegna er tilraunastarfsemi nauðsynleg. Ef sú aðferð sem þú ert að nota virkar ekki eða fer illa í þig þá má telja líklegt að sú aðferð henti þér ekki

Ástæður geta verið margar, meðal annars efnaskipti og aðstæður, gen, fjölskylda, umhverfi og jafnvel vinir. Þessir þættir skipta máli og hafa áhrif á hvernig, hvers vegna, hvað og hversu mikið fólk borðar. Þess vegna er mikilvægt að missa ekki móðinn eða rífa sig niður þegar tilekinn kúr virðist svínvirka hjá öllum nema þér. Það má alltaf reyna annan kúr og hafa í huga að langflestir matarkúrar verða til þess að kílóum fækkar, að minnsta kosti tímabundið.

Lítum á þrjár almennar aðferðir til að takast á við nýtt mataræði:

1. Lágfitukúrinn: Það sem er leyfilegt að borða er ekki sérlega bragðgott – né saðsamt


Nýjum kúrum fylgja oft ný sannindi og þegar lágkolvetnaæðið rann á konur – og menn – var lágfitukúrnum hent út í horn. Fita og fita er ekki endilega það sama og fínt að hafa í huga að góð fita getur beinlínis valdið þyngdartapi. Sum fita er líka góð fyrir hjartað. Að sleppa góðu fitunni alveg getur verið ávísun á vandræði.

Í einu grammi af fitu eru níu hitaeiningar, en í sama magni af kolvetni fjórar. Fræðilega séð er því hægt að borða meira ef fitunni er sleppt og kolvetnaríkar fæðutegundir settar á matseðilinn í staðinn, til dæmis vatnsmiklir ávextir og grænmeti. Hinsvegar er slíkt mataræði hvorki mettandi né bragðmikið, sem gerir það óspennandi til lengdar. Ef kolvetnin eru þar að auki mikið unnin og illmeltanleg er kúrinn ónýtur.

2.  Lágkolvetnakúrinn: Kílóin hrynja af, en kúrinn vekur upp spurningar um langtímaáhrif á heilsuna


Kolvetnaát, sérstaklega mikið unnin kolvetni eins og hvítt brauð og hvít hrísgrjón, veldur auknum blóðsykri, sem aftur veldur því að brisið eykur insúlínframleiðslu. Þetta flæði insúlíns getur snögglækkað blóðsykurinn og valdið svengd. Fylgjendur lágkolvetnakúrsins halda því fram að fólk sem borðar mikið af “vondum”kolvetnum innbyrði mikið af hitaeiningum og þyngist. Að takmarka kolvetni og bæta sér það upp með próteinum og fitu á að koma í veg fyrir insúlínflæðið og fólk er lengur mett.

- Auglýsing-

Þrátt fyrir lágkolvetnafæði sér líkaminn um að ekki skorti kolvetni með því að losa um kolvetnabirgðir í lifur og vöðvamassa. Í þessu ferli losar líkaminn um vatn sem þýðir að fyrstu kílóin sem fara eru vatn. Afleiðingarnar eru að þyngdartapið er hratt til að byrja með, en eftir nokkra mánuði er tilhneigingin sú að hægi á þyngdartapinu og jafnvel að fólk þyngist, rétt eins og gerist í öðrum megrunarkúrum. Hitt er svo annað að margir líta á þetta sem lífsstíl sem virki vel og stuðli að heilbrigði til lengri tíma

Bandarísku hjartaverndarsamtökin (The American Heart Association) vara fólk við Atkinskúrnum vegna mikillar mettaðrar fitu og próteina, sem geta reynst hjarta, nýrum og beinum skeinuhætt. Kolvetnaríkir ávextir og grænmeti virðast minnka hættu á heilablóðfalli, vitglöpum og ákveðnum tegundum krabbameins. South Beatch-kúrinn og aðrir frjálslegri lágkolvetnakúrar bjóða upp á skynsamlegri lausnir.

3. Miðjarðarhafsmataræðið: Holl fita og kolvetni ásamt miklu magni af ávöxtum og grænmeti


Í ólífuolíu og fleiri olíum eru góðar, einómettaðar fitur. Fiskur, canola-olía, valhnetur og fleiri fæðutegundir eru ríkar af fjölómettuðum fitum. (Mettaðar fitur og transfitur eru glæponarnir í þessum kúr.) Í Miðjarðarhafsmataræðinu er mátulegt magn fitu, sem aðallega er að finna í hollum olíum. Kolvetnin í Miðjarðarhafskúrnum koma að jafnaði úr óunnum, trefjaríkum fæðutegundum eins og heilhveiti og baunum. Ávextir, grænmeti, hnetur, fræ og fiskur, með dulitlu af kjöti og osti, er uppistaðan í Miðjarðarhafskúrnum.

Komið hefur í ljós að tíðni hjartasjúkdóma í löndunum við Miðjarðarhaf er minni en ætla mætti. Mikil hreyfing, reglulegar máltíðir, vín og gott félagslegt umhverfi eru hluti af hefðbundnum lifnaðarháttum íbúanna. Erfitt er að segja til um hversu mikilvægir þessir þættir eru – en sífellt fleiri rök hníga að því að Miðjarðarhafsmataræðið eitt og sér geti minnkað hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, svo og sykursýki.

Góður kostur: Að setja saman sitt eigið mataræði


Gott mataræði á að einkennast af valkostum og sem fæstum bönnum. Að skrifa langa heilsufæðistossalista, þar sem bara eru settar á blað vörur sem, oftar en ekki, eru rándýrar, er út í hött. Á innkaupalistanum ættu að vera fæðutegundir sem eru góðar fyrir hjartað, beinin, heilann og ristilinn ekki síður en mittismálið. Sömuleiðis eitthvað sem hægt er að halda sig við árum saman. Það er ekkert hókus pókus við slíkt mataræði, engar skyndilausnir og kílóin hrynja ekki af. En það gerist nokkuð sem er miklu betra, nefnilega að fólk venur sig á heilsusamlegan lífsstíl fyrir lífstíð.

Heilbrigð sál í hraustum líkama gætu verið lykilorðin hér.

Pistillinn er þýddur og stílfærður úr fréttabréfi Harvard háskóla en þeir halda úti fréttabréfi sem ber nafnið Health Beat.

Björn Ófeigs.

- Auglýsing -

Munið eftir að læka við okkur á Facebook

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-