-Auglýsing-

Læknadeila enn í hnút

„VIÐ lögðum fram sáttatilboð 31. mars en því hefur enn ekki verið svarað af hálfu spítalans,“ segir Gunnar Thoroddsen, stjórnarmaður í Félagi almennra lækna (FAL) og talsmaður félagsins í yfirstandandi deilu um nýtt vaktaplan á Landspítalanum. Í tilboðinu felst, að sögn Gunnars, að innleiðingu vaktaplansins verði frestað á meðan nefnd vinni að því að smíða nýtt vaktaplan sem mæti markmiðum spítalans og standist lög um hámarksvinnutíma, þ.e. að vinnuvika sé ekki lengri en 48 klst. en samkvæmt nýju vaktaplani er meðalvinnutími á viku hátt í 60 klst.

Stjórnendur Landspítalans líta svo á að ráðningarsamningur spítalans við almenna lækna sé enn í fullu gildi og því sé vinnustöðvun þeirra ólögmæt þvingunaraðgerð. Þessu vísar stjórn FAL á bug. Gunnar bendir á að félagsmönnum hafi um síðustu áramót verið gefinn kostur á að mótmæla nýju vaktaplani skriflega eða hlíta henni og halda áfram vinnu sinni. „Yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna mótmælti bréflega og 1. apríl var því hefðbundinn uppsagnarfrestur liðinn,“ segir Gunnar og bendir á að túlkun FAL sé studd af lögfræðingi Læknafélags Íslands.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, segist fylgjast með deilunni og vonast eftir að hún leysist sem fyrst. „Ég hef fregnir af því að menn séu að tala saman undir forystu formanns læknaráðs spítalans þannig að það hlýtur að vera góðs viti,“ segir Álfhildur og tekur fram að aðalatriðið við núverandi aðstæður sé að öryggi sjúklinga sé tryggt og allar vaktir mannaðar.

Ekki náðist í Þorbjörn Jónsson, formann læknaráðs Landspítalans, við vinnslu fréttarinnar í gærkvöldi, en hann er sáttasemjari í deilunni.

silja@mbl.is

Morgunblaðið 03.04.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-