-Auglýsing-

Konur og hjartaendurhæfing

iStock 000005300016 ExtraSmallEftir Sólrúnu Jónsdóttur: “Á árum áður var hjartasjúklingum beinlínis ráðlagt að hreyfa sig ekki mikið eða reyna á sig. Síðan kom í ljós að hreyfingarleysið gerði illt verra og jók frekar á vanda sjúklinganna.”

Hjartaendurhæfing er fjölþætt og nær yfir læknisfræðilega meðferð, fræðslu, ráðgjöf, þjálfun, aðstoð við að taka á áhættuþáttum hjartasjúkdóma sem og félagslegum og sálfræðilegum erfiðleikum ef þörf er á. Stundum er þörf fyrir að leggja meiri áherslu á einn fremur en annan af þessum þáttum – en í heild má segja að þjálfun sé stærsti einstaki þátturinn í hjartaendurhæfingunni. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að hjartaendurhæfing stuðlar að betra lífi og færri áföllum frá hjarta í framtíðinni hjá þeim sem eru með greindan hjartasjúkdóm. Á árum áður var hjartasjúklingum beinlínis ráðlagt að hreyfa sig ekki mikið eða reyna á sig. Síðan kom í ljós að hreyfingarleysið gerði illt verra og jók frekar á vanda sjúklinganna. Ákveðin viðhorfsbreyting varð bæði eftir að birtar voru niðurstöður á áhrifum hreyfingarleysis en ekki síst eftir að niðurstöður rannsókna sýndu fram á bæði góðan ávinning af hreyfingunni og að hún var hjartasjúklingunum ekki hættuleg. Í framhaldinu urðu til ákveðin þjálfunarprógrömm fyrir hjartasjúklinga sem byggðust meðal annars á niðurstöðum þeirra rannsókna. Hjartaendurhæfingin þróast síðan upp af þessum grunni.
Hjartaendurhæfing er alltaf einstaklingsmiðuð. Hún tekur mið af ástandi og getu hvers og eins. Áhersla, þarfir og áhugasvið þeirra sem koma í hjartaendurhæfingu geta verið mismunandi og á það jafnt við um konur sem karla. Reynt er að mæta þeirra þörfum eftir bestu getu. Þrátt fyrir að vera einstaklingsmiðuð þá fer endurhæfingin að miklu leyti fram í hópum, bæði fræðslan og þjálfunin. Það hefur sýnt sig að hópmeðferð hefur jákvæð áhrif í þessu sambandi. Fólki finnst það bæði stuðningur og hvatning að vera í hóp með öðrum sem eru að feta sama veg þó svo að hver og einn sé í hópnum á eigin forsendum.

-Auglýsing-

Það hafa ekki verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum hjartaendurhæfingar á konur sérstaklega og engin hér á landi. Niðurstöður þeirra erlendu rannsókna sem birtar hafa verið eru allar á sama veg og sýna að konur hafa síst minni ávinning af endurhæfingunni en karlar, bæði hvaða varðar aukningu á þoli og þreki, minni streitu og kvíða, aukið öryggi og bætta almenna líðan miðað við þá sem ekki fengu neina endurhæfingu. Niðurstöður hafa einnig sýnt að víða er konum síður vísað í hjartaendurhæfingu en körlum. Þær sem er vísað afþakka hlutfallslega oftar boðið, hætta frekar þátttöku áður en endurhæfingunni er lokið og þær sem ljúka halda síður en karlar áfram að hreyfa sig og þjálfa eftir að endurhæfingunni lýkur. Konurnar lýsa frekar depurð og kvíða og þær nefna oftar lítinn stuðning frá sinni fjölskyldu. Þær bera yfirleitt meiri ábyrgð á rekstri heimilisins og hafa oftar en karlarnir ábyrgðarmeiri hlutverk inni á heimilinu og í tengslum við stórfjölskylduna. Konurnar virðast oft þurfa meiri hvatningu og stuðning og þó svo að þetta séu niðurstöður erlendra rannsókna þá er þetta umhugsunarefni fyrir okkur sem við þetta störfum og þörf á að vera vakandi fyrir því hvort svipað geti einnig átt við hér.

Hér á landi eiga allir hjartasjúklingar, konur jafnt og karlar, að fá sömu upplýsingar varðandi hreyfingu, áhættuþætti hjartasjúkdóma og þá hjartaendurhæfingu og þjálfun sem í boði er eftir að sjúkrahúsdvöl lýkur. Hvetja ætti sem flesta til þess að taka þátt í endurhæfingunni, því eins og áður hefur komið fram hafa rannsóknir sýnt að hjartaendurhæfingin stuðlar að betra lífi og færri áföllum frá hjarta í framtíðinni. Go-Red Women-dagurinn sem haldinn er í febrúar ár hvert er liður í því að vekja athygli á mikilvægi forvarna gegn hjartasjúkdómum hjá konum. Í tengslum við daginn er lögð áhersla á að upplýsa konur sérstaklega um það hverjir eru helstu áhættuþættir hjartasjúkdóma og leiðir til þess að sporna gegn þeim. Einnig er verið að benda á hvað konur sem fengið hafa hjartasjúkdóm geta gert til þess að ná góðri heilsu þrátt fyrir sjúkdóminn og vinna markvisst gegn því að hann versni. Þar kemur hjartaendurhæfing sterk inn sem leið til þess að aðstoða konur við að ná þeim markmiðum. Við sem störfum á þessu sviði berum ábyrgð á að mæta okkar skjólstæðingum þar sem þeir eru staddir og veita þeim þá þjónustu sem þeir þurfa innan þess ramma sem endurhæfingin gefur.

Það er okkur ljúft og skylt.

Höfundur er sjúkraþjálfari.

- Auglýsing-

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20.02.2013

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-