-Auglýsing-

Íslenskar konur eru kvenna hraustastar

Kransæðasjúkdómar eru algengt vandamál hjá konum sem komnar eru yfir sjötugt og algeng dánarorsök hjá öldruðum konum en þessum sjúkdómum er ekki jafnmikill gaumur gefinn og öðrum sjúkdómum kvenna, til dæmis brjóstakrabbameini.

„Dánartíðni úr kransæðasjúkdómi hefur lækkað verulega hjá bæði körlum og konum á síðustu tuttugu árum en fólk hefur ekki almennilega gert sér grein fyrir að þó að karlar fái hjartasjúkdóm miklu fyrr en konur þá er kransæðasjúkdómur algengt vandamál hjá eldri konum, konum sem eru komnar á virkilega háan aldur,” segir Guðmundur Þorgeirsson hjartalæknir.

-Auglýsing-

„Þetta þýðir að kransæðasjúkdómur er algengt vandamál hjá konum eftir 70-75 ára aldur en það er ekki vegna þess að sjúkdómurinn sé að aukast ef við berum saman jafnaldra konur. Þvert á móti hefur heldur dregið úr honum. Hins vegar verða fleiri og fleiri konur mjög aldraðar, alveg eins og karlarnir, og það þýðir að fleiri og fleiri konur hafa þetta heilsufarsvandamál. Meðal eldri kvenna er þetta ein af algengustu dánarorsökunum,” segir hann.

Í Danmörku hefur verið hrint af stað herferð undir yfirskriftinni „Konur lengi lifi!” þar sem vakin er athygli á hjartasjúkdómum sem raunverulegum heilsufarsvanda kvenna þó að hjartasjúkdómar séu í huga flestra bundnir einkum við karlmenn. Danirnir benda á að þriðja hver kona fái hjartasjúkdóm, þrátt fyrir það telji flestir að hjartasjúkdómar séu sjúkdómar karla.

Guðmundur kannast við þessa umræðu og segir að um allan heim sé verið að leggja áherslu á að kransæðasjúkdómar séu algengir hjá konum þó það sé ekki fyrr en konurnar eru orðnar talsvert aldraðar. Ástæðan sé sú að konur hafi „einhverja náttúrulega vörn”. Kransæðasjúkdómar séu mjög sjaldgæfir fyrir tíðahvörf og láti eiginlega ekkert á sér kræla fyrr en komið sé rækilega fram yfir tíðahvörf.

„Það er ábyggilega einhver náttúruleg vörn gegn æðakölkunarsjúkdómi meðal kvenna sem tengist þeirra hormónabúskap,” segir Guðmundur og bendir á að grunnáhætta íslenskra kvenna sé með því lægsta sem gerist í Evrópu. Hann segir að íslenskar konur séu hraustari hvað þetta varðar og hafi meiri náttúrulega vörn en aðrar konur.

- Auglýsing-

www.visir.is 08.06.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-