-Auglýsing-

Hvernig getum við bætt lífsgæði okkar varanlega?

VöxturRagna Ingólfsdóttir skrifar reglulega pistla inn á vef Náttúrulækningafélagsins nlfi.is um lífsstíl og fleira því tengt. Pistlar Rögnu eru mjög fróðlegir og hvetjandi að því leitinu til að hún bendir okkur á hvað val okkar á heilbrigðum lífsstíl getur gert mikið fyrir líf okkar og stóraukið lífsgæði okkar, en gefum Rögnu orðið. 

Ég horfi reglulega á kvikmyndir eða fyrirlestra sem snúast um heilbrigðan lífsstíl, næringu, hreyfingu, hugleiðslu og fleira svipað. Það fær mig alltaf til að hugsa um hvernig lífsstíl ég sjálf fylgi og hvort að ég geti mögulega bætt mig á einhvern hátt.

Læknarnir Dr. Dean Ornish og Dr. Andrew Weil hafa einnig haft mikil áhrif á sýn mína á lífið (ef nöfnunum er flett upp á leitarvef þá kemur fullt upp sem gaman er að skoða), en einnig kvikmyndirnar Food Inc., Forks Over Knifes og Escape Fire (það er hægt að nálgast upplýsingar um þær á netinu). Það sem þessar kvikmyndir og fyrirlestrar eiga sameiginlegt er að þar kemur fram að lifnaðarháttur mannsins er að gera út af við hann og að mikilvægt sé að breytingar fari að eiga sér stað.

Aldrei áður í sögunni hafa jafn mikið af sjúkdómum, sem maðurinn hefur skapað sér sjálfur í gegnum lífsstíl, herjað á hann. Staðreyndin er sú að sú kynslóð sem lifir núna er sú fyrsta þar sem börn lifa styttra en foreldrar sínir. Þetta er ekki eðlileg þróun og eitthvað þarf að gera.

Meirihlutinn af þeim peningum sem ríki heims eyða í heilsugæslu fer í að meðhöndla króníska sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir í mörgum tilfellum og einnig að snúa þeim við með því að breyta um lífsstíl. Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta banamein heimsins í dag af öllum öðrum banameinum samanlagt, en þessir sjúkdómar eru oft áunnir.

Krabbameinstilfellum fer einnig sífellt fjölgandi með árunum. Ein af ástæðunum fyrir því að svo margt fólk er nú að deyja úr hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini er sú að lifnaðarhátturinn í dag er ekki nógu heilbrigður. Tíðni krabbameinstilfella hefur aukist síðastliðna áratugi, ekki vegna náttúrulegra krabbameinsvalda sem hafa alltaf verið til (til dæmis sólin), heldur vegna þess að maðurinn dælir krabbameinsvaldandi efnum í sig og umhverfið sitt. Það hafa til dæmis fundist krabbameinsvaldandi efni í mörgum algengum matvörum og snyrtivörum, þannig að það er mjög mikilvægt að lesa innihaldsefnin á þeim vörum sem að maður er að nota.

- Auglýsing-

Dr. Dean Ornish, sem ég held mikið upp á, rannsakaði margt á heilbrigðissviðinu á tuttugu ára tímabili og niðurstöður hans eru þær að alhliða lífsstílsbreyting til hins betra geti ekki aðeins komið í veg fyrir veikindi heldur snúið við veikindum, jafnvel slæmum veikindum eins og alvarlegum hjartasjúkdómum. Vinna Dr. Ornish snýst nú um að koma því á framfæri að hægt sé að nýta sér heilbrigðan lífsstíl sem meðferð gegn sjúkdómum, en ekki aðeins sem vörn. Hann hefur skrifað margar bækur og ein af mínum uppáhaldsbókum er bókin The Spectrum (aðrar bækur eftir hann eru til dæmis Reversing Heart Disease og Eat More, Weigh Less) og haldið marga fyrirlestra. Einn af þeim heitir The Power of Sustainable Changes in Diet and Lifestyle.

Í fyrirlestrinum kemur fram að fólk sem fer í meðferð við veikindum þurfi ekki einungis á þjónustu lækna og skurðlækna að halda (eins og tíðkast í dag), heldur einnig atferlislækna. Það er vegna þess að sýnt hefur verið fram á, með ótal rannsóknum, að heilbrigður lífsstíll (atferli) hefur mikil áhrif á þær niðurstöður sem fólk fær úr heilbrigðisskoðun. Heilbrigður lífsstíll hefur ekki aðeins þau áhrif að fólk er með gott ónæmiskerfi, getur viðhaldið heilsu sinni og líður betur, heldur hefur fólk meiri möguleika á að jafna sig á veikindum sínum.

Heilbrigður lífsstíll felst meðal annars í hollu mataræði (lífrænn matur er besti og næringarríkasti maturinn), að drekka nóg af vatni, að stunda líkamsrækt eða annars konar hreyfingu, að viðhalda meðalþyngd sinni, að sofa nóg, að njóta góðs félagsskapar, að hugsa jákvætt og að hugleiða. Slíkar náttúrulegar leiðir í átt að heilsu eru oft mjög góðar og áhrifaríkar og auk þess án allra aukaverkana svo að það er um að gera að prófa sig áfram og finna út hvað hentar sjálfum sér best.

Dr. Ornish og Dr. Weil halda því báðir fram að mataræðið skipti sköpum. Dr. Ornish segir mannslíkamann búa yfir ótrúlegum hæfileikum til að lækna sjálfan sig og að við þurfum bara að gefa honum tækifæri til þess, til dæmis með réttu mataræði. Margir halda því fram að þeir hafi fæðst með „slæm gen“ eða „feit gen“, en í dag er ekki hægt að nota það sem afsökun því rannsóknir sína fram á annað. Það er nú ljóst að gen breytast með breyttum lífsstíl.

Í öll þau þrjátíu ár sem Dr. Ornish hefur stundað lækningar hefur hann velt því fyrir sér hvað það er sem fær fólk til þess að breyta lífi sínu, til þess að vilja lifa á heilbrigðan hátt og til þess að breyta af venjum sínum og viðhalda breytingunni. Hann heldur því fram að hræðsla við veikindi eða dauða sé ekki það sem hafi mest áhrif á val fólks. Það sem sé áhrifamest í þessu öllu sé gleðin við að lifa, frelsi, ánægja og vellíðan. Hann heldur því fram að einfalt val um heilbrigðan lífsstíl á hverjum degi sé það sem skipti mestu máli og að fólk geti á einfaldan hátt verið heilbrigt og viðhaldið heilbrigði sínu. Það er nefnilega þannig að þegar maður byrjar að lifa á heilbrigðan hátt þá verður maður háður því og langar að halda áfram á sömu braut.

Ég trúi á fyrirbyggjandi aðgerðir og þess vegna hefur heilbrigði einkennt minn lífsstíl í gegnum tíðina. Ég hef gaman af því að takast á við áskoranir. Núna í ágúst setti ég mér það sem markmið að borða aðeins grænmeti, ávexti, hnetur, baunir og trefjaríka fæðu. Einnig fer ég út að ganga, hjóla eða í sund í 30-60 mínútur á dag. Það hefur gengið vel og mér líður ótrúlega vel. Ég veit að með því að styrkja ónæmiskerfið mitt og batakerfi með þessum hætti styrkjast varnir líkamans og þá minnkar áhættan á því að fá lífshættulega og króníska sjúkdóma.

Það virðist vera orðið algengt í dag að fólk sem veikist festist í vítahring, haldi áfram sínu vanalega lífsmynstri og nái ekki bata. Margir deyja langt fyrir aldur fram í stað þess að breyta atferli sínu. Það er ekkert mál að taka eina, tvær, þrjár eða fjórar vikur af og til þar sem maður tekur lífsstíl sinn algjörlega í gegn og hreinsar sig. Síðan munu þessi stuttu tímabil vonandi lengjast og verða að lífsstíl.

Draumur minn er að sjá meirihlutann af fólki taka ábyrgð á eigin heilsu. Fólk fer vonandi upp til hópa að trúa á eðlilega batagetu líkamans og leggja áherslu á fyrirbyggjandi hegðun frekar en meðferð við sjúkdómum. Þegar líkaminn er orðinn veikur er stundum of mikill skaði skeður.

- Auglýsing -

Fólk fer vonandi að læra og leggja stund á grundvallaratriði heilbrigðra lífshátta og kynna sér og öðlast trú á náttúrulegum meðferðum. Ef fólk vill lifa heilbrigðu lífi þá þarf það að læra að búa til heilsusamlegt fæði og neyta þess og að sinna líkamlegum þörfum sínum. Það er frábært fyrir fólk að fara í heilsumiðstöðvar og fræðast um heilbrigðan lífsstíl, hvernig það á að viðhalda heilbrigði sínu og koma í veg fyrir veikindi. Heilsumeðferðarstofnanir í anda heilsumiðstöðva sem Dr. Ornish býður upp á og Heilsustofnunar NFLÍ hafa jákvæðar afleiðingar í för með sér; almenna breytingu á mataræði og lífsstíl fólks, aukin lífsgæði og minni kostnað í heilsugæslu fyrir ríkið.

Markmið okkar nú ætti að vera að snúa við slæmum lifnaðarháttum mannsins síðastliðna áratugi. Foreldrar eiga að vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín og hugsa jafnt um heilsu sína og heilsu barna sinna. Ef að foreldri hangir heima og horfir mikið á sjónvarpið, borðar óhollt, er yfir kjörþyngd, með stuttan þráð og jafnvel óhamingjusamt, þá er það ekki góð fyrirmynd.

Foreldrar eiga að fræða börnin sín um heilsusamlegt líferni og lifa sjálf samkvæmt því. Í öllum æsingnum í dag á fólk það til að týnast og vakna síðan upp við það að vera á dánarbeði og hafa gleymt því að lifa. Fólk lítur þá yfir líf sitt og sér eftir að hafa ekki gert fleiri hluti sem gerðu það hamingjusamt. Það er mikið af fólki til sem segir að krabbamein eða aðrir sjúkdómar hafi breytt lífi þess til hins betra. Það er af því að það fólk hefur breytt lífi sínu og sýn sinni á lífið og upplifir hluti sem það hefði annars ekki upplifað.

Að lokum langar mig að hvetja þig til þess að vera ekki sá sem þarf að veikjast alvarlega áður en hann endurskoðar líf sitt og forgangsraðar hlutunum. Vertu sá sem tekur ábyrgð á lífi sínu, lifir á heilbrigðan hátt og setur gott fordæmi fyrir aðra. Mannkynið er ekki dæmt til að verða að svínum, maðurinn er skapaður til þess að verða eins góður og hann mögulega getur orðið.

Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-