-Auglýsing-

Hvað kostar lengra líf?

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is. Viljum við setja verðmiða á betri lífshorfur og aukin lífsgæði sjúklinga? Hver er þá hámarksupphæðin sem við værum tilbúin að greiða til að lengja líf dauðvona manneskju um eitt ár, hálft ár eða þrjá mánuði? Hver á svo að taka þessa erfiðu ákvörðun; læknar, annað fagfólk eða stjórnmálamenn? Ólíklegt er að einhverjir bjóði sig fram til starfans en flestir eru sammála um að einhver forgangsröðun sé nauðsynleg.

„Við megum ekki gleyma að heilbrigðiskostnaður er ekki eyðsla heldur góð fjárfesting,“ sagði Guðjón Magnússon læknir í lok málþings um nýjungar í lyfjameðferð á Selfossi.

Lyfjameðferð sem lengir líf dauðvona sjúklings um örfáa mánuði getur kostað fleiri hundruð þúsunda, jafnvel tugi milljóna. En hver ætlar að meta hvort þessir mánuðir séu peninganna virði, og hvernig? Og er það virkilega nauðsynlegt? „Ég gæti mögulega verið við útskrift barna minna, fylgt dóttur minni að altarinu, séð mitt fyrsta barnabarn og kvatt ættingja mína á ættarmóti, eða bara fylgst með mannlífinu og brosað,“ bendir Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, á. Nokkrar vikur í lífi þess sem á skammt eftir ólifað geta því vissulega breytt öllu fyrir viðkomandi og hans fjölskyldu.

Hver og hvernig?

Læknum er skylt að ræða um kostnað, að mati Nancy Davidsson, forseta amerísku krabbameinslæknasamtakanna. Aðrir líta svo á að ákvörðun um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu sé kaleikur sem læknar vilji gjarnan losna við. Þeir eru skuldbundnir til að hafa velferð sjúklinga ávallt að leiðarljósi, en krafa er þó engu að síður gerð til þeirra um að dreifa fjármagni og úrræðum jafnt til allra. Á sama tíma hafa þeir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn mestu þekkinguna til að taka upplýsta ákvörðun um meðferð eða lok meðferðar. Læknirinn vill ekki þurfa að taka ákvörðun við rúmstokk sjúklings um hvort meðferð sé of kostnaðarsöm. Því hafa komið fram hugmyndir um að sérstök nefnd, skipuð siðfræðingum, læknum og jafnvel stjórnmálamönnum, leiðbeini við slíkar ákvarðanir.

Stjórnmálamenn taka nú þegar þátt í að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni og ákveða hvaða meðferðir skuli boðið upp á. Þetta gerist á hverju ári í fjárlagagerðinni. Í fjárlaganefnd hefur m.a. verið rædd tillaga um bólusetningu við leghálskrabbameini og skimun fyrir ristilkrabbameini. Við slíkt mat, hver sem það framkvæmir, er ekki nóg að styðjast við krónur og aura. Lífsgæði frekar en lífslengd þurfa að vera helsti mælikvarðinn. Og þar kemur heilsuhagfræðin inn í dæmið.

Viðbótarlífsgæðaár er hægt að meta samkvæmt ákveðnum stuðli (QALY-einingum) fyrir hverja meðferð. Út frá slíkum upplýsingum er hægt að reikna út ábata af að nota eitt lyf umfram annað. Nokkur lönd hafa sett ákveðið hámark á kostnað viðbótarlífsgæðaára. Kostnaðarþröskuldurinn er misjafn milli landa og ætti að vera um 11 milljónir króna á hverja QALY-einingu hér á landi miðað við ráðleggingar WHO (þreföld verg landsframleiðsla á mann) en hann er nú 6-12,7 millj. í Svíþjóð, 3-4,5 milljónir í Bretlandi og 3,8 millj. í Bandaríkjunum.

- Auglýsing-

Tilraunadýr?

Ný og dýr lyf koma miklu fyrr á markað hér á landi en áður vegna aukins lyfjasamstarfs meðal Evrópuþjóða. „Stundum erum við svolítið fljót að taka upp nýjar lyfjameðferðir,“ segir Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar. Vegna þrýstings eru lyf samþykt á markað sem tiltölulega litlar klínískar rannsóknir liggja á bak við. Nú er rætt innan ESB að fjölga lyfjum sem fá slíka flýtimeðferð. „Það þýðir að sjúklingarnir sem fá fyrstir meðferð eru hálfgerð tilraunadýr,“ segir Rannveig.

Á næstu misserum er von á holskeflu dýrra líftæknilyfja á markað og margir eru uggandi um að lyfjakostnaður eigi eftir að aukast gríðarlega verði ekki gripið í taumana. Lyfjaframleiðendur telja hins vegar að samkeppni á markaðnum eigi eftir að harðna og „markaðurinn [sjái] til þess að lyfjaverð verði í samræmi við það sem fólk sættir sig við,“ segir Hjörleifur Þórarinsson, sem situr í stjórn Frumtaka.

Hver RÆÐUR?

Stjórnmálamaðurinn

„Stjórnmálamenn vilja örugglega ekki taka þessar ákvarðanir. Ég get lofað því. Það vill enginn segja: „Við viljum eingöngu borga 7,5 milljónir fyrir líf eins manns eða eitt ár sem hann græðir“. En engu að síður held ég að við neyðumst til þess. […] Afstaða dauðvona manna er mjög mismunandi, sumir eru saddir lífdaga og kæra sig ekki um að lifa hálfdauðir áfram í einhvern tíma. Mér finnst stundum að læknar gangi fulllangt í því að reyna eitthvað sem sjúklingurinn vill ekki endilega.“ Pétur H. Blöndal.

 

Læknirinn

„Stjórnmálamenn eru augljóslega ekki hæfir til að taka þetta verkefni á sig. Þeir eru í einhvers konar fegurðarsamkeppni á fjögurra ára fresti. […] Læknar hafa verið alltof hræddir hingað til til að sinna þessu. Ef við gerum það ekki þá verða það líklega aðrar heilbrigðisstéttir.“ Helgi H. Helgason.

Morgunblaðið 10.06.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-