-Auglýsing-

Hvað fær hjartað til að missa úr slag?

Ástin er ekki það eina sem fær hjartað til að missa úr slag.

Óeðlilegur hjartsláttur er yfirleitt meinlaus, en getur þó í vissum tilfellum bent til undirliggjandi heilsufarsvanda.

Ástin er ekki það eina sem fær hjartað til að missa úr slag. Flest finnum við til hræðslu þegar hjartað slær óreglulega en yfirleitt er þó ekkert að óttast. Orsakir óeðlilegs hjartsláttar geta verið margvíslegar en gott er að vita hvenær leita þurfi til læknis.

-Auglýsing-

Hjartsláttarónot

Hjartsláttur heldur almennt reglulegum takti, þrátt fyrir að vera hraðari við áreynslu og hægari í hvíld. Margir finna þó fyrir undarlegri tilfinningu, svokölluðum hjartsláttarónotum, endrum og sinnum. Flestir lýsa tilfinningunni eins og hjartað hafi misst úr slag eða að hjartsláttur sé óvenju hraður eða þungur.

Hjartalæknirinn Alfred E. Buxton, prófessor í læknisfræði við Harvard Medical School, segir algengt að einstaklingar leiti til lækna vegna hraðs hjartsláttar, en þegar hjartsláttur sé mældur í hjartalínuriti líti allt eðlilega út.

Hann bætir við að að fólk sem notast við snjallúr sem mæla hjartslátt fylgist jafnan betur með hjartslættinum. „Fólk sem er með 60 slög á mínútu í hvíldarpúls hefur áhyggjur ef hvíldarpúls fer upp í 90 slög á mínútu, sem er þó enn innan eðlilegra marka.“

Villutaktur

Tilfinningin um að hjartað hafi misst úr slag getur einnig orsakast af því að efri eða neðri hólf hjartans dragist aðeins fyrr saman en venjulega.

- Auglýsing-

Í næsta hjartslætti stöðvast efri hólfin (gáttirnar) aðeins lengur til að koma hjartanu aftur í eðlilegan takt. Neðri hólf hjartans (sleglarnir) dæla síðan kröftuglega til að losa sig við umframblóð sem safnast upp á meðan efri hólfin koma eðlilegum takti á að nýju. Þau geta líka dregist fyrr saman en venjulega, sem gerir það að verkum að okkur líður eins og hjartsláttur hafi stöðvast í stutta stund og farið svo aftur af stað.

Þessir ótímabæru samdrættir eru kallaðir villutaktur og geta valdið því að í örskamma stund líður okkur eins og hjartsláttur okkar sé óvenju þungur. Villutaktur er ekki hættulegur og raunar segist Dr. Buxton oft tjá sjúklingum sínum að villutaktur sé merki um heilbrigt hjarta, þar sem veikt eða skaddað hjarta geti ekki slegið af slíkum krafti.

AV-rof og greinrof

Rafboð sem berast í gegnum hægri og vinstri hlið hjartans gefa því skipun um að dæla blóði. Stundum ferðast þessi boð þó hægar eða með óreglulegri hætti en venjulega og veldur það ástandi sem kallast AV-rof, eða leiðslutöf í AV-hnút. AV-rof skiptast í mismunandi stig eftir alvarleika, sum meinlaus en önnur tengd afar hægum hjartslætti sem getur verið hættulegur.

Önnur tegund truflunar á rafboðum til hjartans kallast greinrof og á sér stað í sleglum hjartans sem dæla blóði út í líkamann. Algengasta tegund slíkrar truflunar er hægra greinrof, sem venjulega er einkennalaust en getur komið fram á hjartalínuriti og stafar í mörgum tilvikum af því að leiðnikerfi hjartans er farið að eldast. Í sumum tilfellum má þó rekja hægra greinrof til undirliggjandi skemmdar í hjarta vegna hjartaáfalls, hjartabólgu, sýkingar eða háþrýstings í lungnaslagæðum.

Vinstri greinrof geta annars vegar flokkast sem einangruð tilfelli og hins vegar stafað af undirliggjandi þáttum. Í sumum tilfellum geta þau leitt til óeðlilegrar starfsemi vinstri slegils, ástands sem ráða má bót á með notkun sérstaks gangráðs.

Gáttatif

Truflun á rafboðum í gáttum getur valdið gáttatifi, ósamræmdum titringi í gáttum sem eykur hættuna á heilablóðfalli. Gáttatif kemur gjarnan og fer og getur varað í einungis nokkrar mínútur eða staðið yfir dögum saman og jafnvel lengur. Í sumum tilfellum lýsir það sér sem flöktandi tilfinning í brjósti eða hraður og óreglulegur hjartsláttur, á meðan önnur tilfelli eru algjörlega einkennalaus.

Ákveðin snjallúr geta gefið vísbendingar um gáttatif en Dr. Buxton vill þó meina að almennt séu snjallúr ekki nógu næm og nákvæm til að greina vandamálið á áreiðanlegan hátt. Þau geti jafnvel ranglega greint gáttatif þegar það er ekki til staðar og öfugt.

Sá eiginleiki snjallúra að mæla hjartslátt getur þó verið gagnlegur. Hjá einstaklingum yngri en 65 ára getur hjartsláttur til að mynda farið yfir 170 slög á mínútu á meðan á gáttatifi stendur en hjá einstaklingum á áttræðis- og níræðisaldri, sem líklegri eru til að fá gáttatif, verður hjartsláttur hins vegar yfirleitt ekki svo hár.

- Auglýsing -

Hvenær skal leita til læknis vegna óreglulegs hjartsláttar?

Óreglulegur hjartsláttur er yfirleitt skaðlaus. Hraður eða flöktandi hjartsláttur, hjartsláttarónot og tilfinningin um að hjartað sé að missa úr slag eru ein og sér almennt ekki ástæða til að hafa áhyggjur.

Þú ættir hins vegar að hafa samband við lækni ef þú finnur fyrir einhverjum af eftirfarandi einkennum samhliða óeðlilegum hjartslætti:

  • verk í brjósti
  • svima
  • þreytu
  • mæði
  • yfirliðstilfinningu

Einstaklingar sem greindir hafa verið með greinrof gætu þurft að fara reglulega í hjartalínurit til að hægt sé að fylgjast með ástandi þeirra. Þeir ættu einnig að vera vakandi fyrir einkennum eins og svima og yfirliðstilfinningu, sem geta gert vart við sig ef rof versnar eða á sér stað í báðum hliðum hjartans og veldur hægum hjartslætti.

Björn Ófeigs.

Heimild:

https://www.health.harvard.edu/blog/what-makes-your-heart-skip-a-beat-196912312889?fbclid=IwAR3vcsWfh8-lOdoSA9NqCcIdJs8wkf_VciOOLyCGDk1FPBUkgyLAimEeWBg

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-